Venjulegur jazzdagur

Þá er alþjóðlegi jazzdagurinn að baki og venjulegur jazzdagur tekinn við. Dagskráin í gær var stórvel heppnuð, mér sýnist enn hægt að nálgast eitthvað af útsendingunum á Facebook-síðu viðburðarins. Og hér er hlekkur á Víðsjárþátt gærdagsins þar sem Kristjana Stefánsdóttir og kvartett léku nokkur lög í beinni fyrir útvarpshlustendur – og örfáa gesti í Kaldalóni í Hörpu. Ég var svo heppin að fá að vera einn af þessum gestum, en okkur pabba var boðið í settið hjá Eiríki Guðmundssyni og Guðna Tómassyni til að spjalla um jazzbakteríuna og áhrif hennar á vort daglega líf.

Af vettvangi útsendingarinnar úr Kaldalóni. Kristjana Stefánsdóttir syngur, Sunna Gunnlaugsdóttir á píanó, Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar, Þorgrímur Jónsson á bassa og Einar Scheving á trommur. Í spjallsettinu eru gestirnir Ellen Kristjánsdóttir, Jakob Frímann Magnússon og Pétur Grétarsson.

Við vorum í lok spjallsins spurð hvað færi næst á fóninn hjá okkur. Pabbi nefndi trompetleikarann Dave Douglas og ég píanóleikarann Brad Mehldau. Hér flýtur með eitt lag með hvorum, The Frisell Dream af plötunni Strange Liberation með kvintett Dave Douglas, auk Bill Frisell á gítar, frá árinu 2004, og Ten Tune af Seymour Reads the Constitution! – nýlegum diski Brad Mehldau tríósins.

2 thoughts on “Venjulegur jazzdagur

  1. Mjög skemmtilegir tónleikar og viðtöl. Hrafnhildur óskaði eftir tillögum um tónlist sem eflir einbeitingu við vinnu. Þetta er ekki auðvelt, en þetta ítalska/franska/sænska samstarf hefur reynst mér vel: Paolo FRESU, Richard GALLIANO og Jan LUNDGREN – MARE NOSTRUM

    Like

Leave a comment