Útspil
Snemma árs 1967 hitti Morgan konu nokkra að nafni Helen More. Þau hófu ástarsamband og það leið ekki á löngu þangað til Morgan var fluttur inn til hennar. Blakey minnist þess er þau hittust: „Lee hafði verið að nota dóp árum saman og orðið veikur og ákveðið að stramma sig af. Kona sem hann hitti tók hann inn á heimilið sitt og hjálpaði honum að berjast við fíknina. Hún var mun eldri en Lee og vildi giftast honum. Hún hjálpaði Lee að leysa út frakkann og trompetinn hans úr veðlánarabúllu sem Lee hafði veðsett fyrir heróíni. Morgan og Leroy Gary hafði verið hent út af hótelinu sem þeir voru á vegna vangoldinnar leigu. Þeir byrjuðu að „krassa“ í íbúð More en Gary var ekki lengi þar. Gary, sem More kallaði skordýr, hafði ekki áhuga á að hætta að nota heróín og lét sig því hverfa þegar Morgan hóf að láta renna af sér. Morgan skráði sig inn á endurhæfingarstöð í Bronx í byrjun árs 1968 og var í methadone meðferð til að halda aftur af þörfinni eftir það. More kvatti Lee til að vinna meira, til að taka ábyrgð á sínum eigin ferli. Hún hjálpaði með viðskiptahliðina, bókanir, að fá greitt fyrir tónleika, borga meðspilurum o.s.frv. Yfirráð hennar yfir fjármunum hans komu í veg fyrir að hann eyddi þeim í dóp.“
Morgan sagði Blue Note mönnum að hann væri tilbúinn að leiða nýtt session, aðeins þrem mánuðum eftir að hann tók upp The Sixth Sense. Það var og, en platan Taru kom ekki út fyrr en 1980, átta árum eftir dauða Morgans.
Morgan réði nýjan píanista, Cedar Walton, fyrir upptökur á næstu plötu hans, Caramba!, þrem mánuðum eftir Taru. „Mér finnst Cedar Walton vera minn píanóleikari eða að minnsta kosti sá sem ég vil hafa með mér þegar hann er laus. Ég spilaði fyrst með honum fyrir langa löngu í The Messengers. Síðan þá hefur hann þroskast á yndislegan máta. Hann er með sinn eigin skilning og snertingu fyrir hljóðfærinu sem er að skila honum þangað sem hann er. Hann er alveg indæll til að hafa á bak við sig í undirspili.“
Bassaleikari á Caramba! var Reggie Workman: „Við hittumst fyrst þegar ég var um 13-14 ára. Ég, hann og Archie Sheep uxum upp saman í Fíladelfíu. Við vorum í sama gagnfræðaskóla. Svo þegar hann kom til New York þá vorum við báðir í bandinu hans Arts árið 1964. Ég hef horft á Reggie gifta sig og ala börn og ég hef séð tónlistina hans vaxa samhliða því.“
Af saxófónleikaranum Bennie Maupin segir Morgan: „Ég heyrði fyrst í honum þegar hann var í áheyrnarprufu hjá Horace Silver, rétt áður en Horace réði hann. Hann hefur mikla aðlögunarhæfileika sem saxófónleikari, líkt og Joe Henderson. Annað sem mér líkar við hann er hæfileiki hans til þess að byggja sóló dýnamískt upp í spennandi hápunkt. Hann er einn af mest spennandi tenór spilurum sem ég hef heyrt í síðustu tvö ár.“ Síðar spilaði Bennie Maupin í bandi Morgans um tíma, þangað til Herbie Hancock réði hann í bandið sitt.
Band Morgans hafði verið að bæta við sig vinnu jafnt og þétt; bandið hans hafði spilað eina viku á Slugs barnum í New York árið 1968, árið eftir spilaði bandið fimm vikur á Slugs og svo fjórar vikur árið 1970. Trompetleikarinn var kominn á skrið og hafði nóg að gera við að spila opinberlega í New York. Morgan hélt áfram að semja nýtt efni og spilaði hann á hornið af þrótti með ímyndunaraflið að leiðarljósi en dópneysla hans og breytt tónlistarlandslag takmörkuðu möguleika hans nokkuð.
Morgan byrjaði árið á að birtast sem hliðarmaður með Lonnie Smith og Larry Young, nokkrum mánuðum síðar, á plötu Reuben Wilson Love Bug, til að máta sig við nýmóðins smekk í tónlist. Á þessum tíma var jazz að færast yfir í Fusion og Funk, sérstaklega eftir útgáfu Miles á Bitches Brew árið 1969.
Um vorið 1969 hafði Morgan tryggt fleiri tónleika fyrir kvintett sinn sem hófst með viku á Slugs, viku þar á eftir á Village Vanguard ásamt öðrum skuldbindingum. Með allan þennan meðbyr bauðst Morgan svo að fara með kvintett sinn til Kaliforníu. Morgan fannst hann vera í stöðu til að samþykkja tónleika sem ári áður hefði verið of flókið eða of áhættusamt að takast á við. Hann hafði ekki komið vestur síðan sumarið 1965 með The Jazz Messengers. Að fara svo langt þýddi að dóptengslin voru ekki til staðar. Helen hvatti til ferðarinnar og gerði ráðstafanir fyrir ferðalagið. Hennar starf var að passa upp á að Morgan kæmi sér ekki í vandræði og að hann myndi standa við skuldbindingar sínar.
Bandið skilaði sér á austurströndina rétt fyrir byrjun Newport Jazz Festival. Morgan hafði ekki spilað á hátíðinni síðan 1960, þetta mundi verða síðasta skiptið fyrir Morgan. Aðalnúmerin á hátíðinni árið 1969 voru meðal annars Frank Zappa, Led Zeppelin og Sly and the Family Stone. Kvintett Morgans var settur á annan stað en aðaltónleikarnir voru haldnir. Hljómsveitir Lee Morgans og Charles Mingus skiptu með sér sviðinu í Cliff Walk Manor tvö kvöld í röð, 4. og 5. júlí. Jesse H. Walker á New York Amsterdam News birti eftirfarandi texta í blaðinu: „Ég fylltist viðbjóði á hátíðinni þegar ég þurfti að fara í Walk Manor klúbbinn til þess að heyra Lee Morgan og Charles Mingus spila. Bæði böndin voru frábær. Upplifunin var eins og að hlusta á frábæran jazz. Húsið var pakkað. Miles var þar til að sjá þá spila þann fimmta.“ Það að jazztónlistin væri spiluð á öðrum stað en á aðalsviðinu undirstrikaði hversu langt Newport hátíðin var tilbúin að fjarlægjast rætur sínar með því teygja sig í átt að rokk og popp tónlist. Það að eltast við stærri viðburði með fleiri áhorfendum og meiri peningum þýddi að sál hátíðarinnar hafði verið fórnað og jazztónlistarmennirnir voru komnir á hliðarlínuna.
Hægt hafði á lagasmíðum Morgans er leið undir lok sjöunda áratugarins, brunnurinn sem hafði gefið svo mikið var að þorna. Sporin sem hann þurfti að setja sig í til að semja og skrifa upp lög var ekki eins auðvelt að fara í. Morgan var með ritstíflu er mundi hafa áhrif á hann til dauðadags.
Kenny Sheffield trompetleikari var táningur á þessum tíma og heimagangur heima hjá Helen og Morgan. Þó að heimilislíf Morgans hafi róast mikið þá tapaði Morgan aldrei götuviti sínu. Kenny Sheffield minntist þess með ánægju hvernig hann og Morgan þvældust um götur Harlem inn á vafasamar búllur sem táningurinn Sheffield hefði forðast að öðrum kosti. „Hann var einhvers konar afleiðing götunnar, hann var ekki smeykur að hanga með gaurunum, þú veist hvað ég á við, á stöðum þar sem sumt fólk vill ekki fara. Við fórum niður í Harlem og heimsóttum mismunandi knæpur þar. Lee leyfði mér að halda á trompettöskunni sinni. Það var sama hvert við fórum, allir virtust þekkja hann. Við löbbuðum inn á einhvern stað og fyrsti maður sem sá hann virtist alltaf þekkja hann. Þá sagði Lee yfirleitt: „Hvað ertu með?“ Og gaurinn svaraði: „Ég er með smá gras.“ Sem Lee svaraði yfirleitt: „Láttu mig hafa smá af því og láttu lærling minn hafa smá líka.“ Þannig að núna er ég með þessar jónur á mér og við förum á annan stað, setjumst niður og fáum okkur drykk. Tölum við einhvern annan, hann lætur Lee hafa eitthvað og mig líka. Við fórum í gegnum Harlem með þessari aðferð. Þegar við fórum í lestina til að komast í Bronx, þá sagði Lee alltaf: „Hey Kenny, ertu með efnin?“ og ég svaraði játandi. Þá sagði hann yfirleitt: „Láttu mig hafa þau. Þú þarft ekki að vera að nota þessi efni.“ Ég var ungur, táningur, þú veist. Ef ég hefði verið handtekinn með öll þessi efni.“ Í þessum ferðum upplifði Sheffield ekki að Lee væri að plata peninga eða efni út úr fólki. Morgan reykti marijúana og notaði kókaín af og til, notkun hans á þessum efnum stýrði honum ekki lengur eða tók frá honum öll úrræði hans eins og áður.
Í gegnum árin sem Sheffield hafði þekkt Morgan var hann undrandi á gjafmildi hans. „Lee var örlátur, svo mikið að það kom niður á honum sjálfum.“ Fólk bað hann um lán, hann hikaði ekki og dró upp veskið og lét viðkomandi hafa peninginn. Ég vissi hvað það var, það var pæling tengd dópinu. En Lee vildi ekki spyrja spurninga, hann lét gaurinn bara hafa pening og við héldum áfram okkar samræðum. Með hjálp Helen More, nokkuð stöðugrar vinnu og methadone meðferðar þá var Morgan að ná tökum á fíkn sinni í byrjun 1969. Methadone er synthetískur ópíóði sem er stýrt og gefið gegn vottorði, gefur slökun gagnvart ofsafengnum fráhvarfseinkennum heróíns. Með réttri meðferð losnar sjúklingurinn alveg við einkenni á endanum.
Fyrir Morgan þýddi þetta að ná að komast nógu lengi yfir heróínlöngunina til þess að ná að byggja upp líf sitt aftur án dópsins. Að þurrka sig upp – var lengi sannfæring – en nú varð hann gagntekinn af því og margir til frásagnar um það. Eftir áraraðir af ófögrum uppákomum með Morgan, sofandi skólaus á gangstéttinni fyrir utan Birdland, sofandi á pool-borðum á knæpum, í skítugum jakkafötum utan yfir náttfötin sín, stelandi sjónvörpum úr lobbíum hótela til að ná sér í pening. Stöðugleiki Morgans var alveg skýr fyrir þeim er höfðu þekkt hann árin tíu þar á undan. Nýtt tímabil var að hefjast í lífi trompetleikarans. Tónlistarleg aðferðafræði þróaðist frekar, hann tók til við að kenna ungum jazzlærlingum og tók þátt í þjóðfélagslegum og pólitískum átökum á þeim mikla óróatíma frá 1969-72.
Eftir nýárstónleika á Club Baron lýsti George Coleman áhuga sínum á að yfirgefa band Morgans og stofna sitt eigið. Staðgengill Colemans mundi ekki aðeins fylla upp í tónlistarþarfir Morgans heldur stækkaði og víkkaði hann það svið. Benny Maupin sem hafði tekið upp með Morgan í fjögur skipti fyrir Blue Note á árunum 1968 og 1969, hafði alla hrifningu trompetleikarans. „Eftir átján mánaða túr með Horace Silver var ég kominn aftur til New York og atvinnulaus,“ sagði Maupin. „Ég hringdi í Lee og hann sagði mér að Coleman væri að hætta í bandinu til að stofna sitt eigið. Hann bauð mér starfið. Ég þáði það með þökkum og í framhaldinu fórum við strax að æfa bandið. Lee elskaði að spila enda voru æfingarnar hjá okkur alltaf skemmtilegar. Húmorinn hans var sá besti!“
Stuttu áður en Maupin gekk til liðs við hljómsveitina, hafði Morgan orðið fyrir „ófyrirsjáanlegum afleiðingum sem skildu hann eftir með sprungna vör og nokkrar mjög lausar tennur,“ eins og Maupin orðaði það. Mikið var spáð og spekúlerað í þessu: Jimmy Morgan trúði því að bróðir hans hefði rekið munninn á sundlaugarbarminn í sundlaugarslysi. Flestir orðrómar voru þó dekkri en það: Að lögreglan hefði barið hann fyrir að færa sig ekki, eins og í frægri senu árið 1959 þar sem Miles stóð fyrir utan Birdland, reiður dópdíler að rukka skuld eða afbrýðisamur eiginmaður að hefna sín vegna framhjáhalds makans með Morgan. Síðustu tvær skýringarnar eiga við það sem trompetleikarinn Jimmy Owens sagði um atvikið þegar hann varð vitni að því sem gerðist, fyrir utan Brooklin Appollo Theater. Hann og Morgan höfðu tekið leigubíl saman að staðnum. Þegar þeir hefði stigið út úr bílnum hefði árásarmaðurinn komið hlaupandi með stálrör og án aðvörunar lamið Morgan í andlitið með rörinu og síðan hlaupið af vettvangi. Maupin sagði: „Hann þurfti að láta víra tennurnar á sér saman með spöngum til að þær héldust á sínum stað. Til að koma í veg fyrir að vörin þvældist ekki í spöngunum þá þurfti hann að hafa munnstykkið á öðrum stað á vörunum en hann var vanur. Batinn var sársaukafullur og hægur. Mörg kvöld í röð var úthaldið ekki meira en svo að hann gat bara spilað eitt sett, svo var hann búinn, gat ekki meir það kvöldið.“ Sár á tungu, vörum eða tönnum getur verið erfitt við að eiga fyrir trompetleikara, sambærilegt fyrir píanóleikara væri að vera með þrjá putta saumaða saman. Skaði sem er nógu alvarlegur til að þurfa spangir hefði mjög auðveldlega getað endað ferilinn hjá trompetleikaranum. En Morgan tókst á við verkefnið af heilum hug. Maupin var innblásinn af hugrekki Morgans. „Það var á þessum tíma sem ég fékk hið frábæra tækifæri til þess að sjá hinn raunverulega Lee. Hann spilaði í gegnum sársaukann til að endurbyggja vörina, með tímanum vandist hann nýju stöðunni á trompetinum og óx að styrk. Vandamálið sem hefði getað endað ferilinn, varð hans mesti styrkleiki. Það var geggjað að sjá hversu mikið hugrekki hann hafði.“
Ásamt Maupin gekk Jymmie Merritt til liðs við hljómsveit Morgans ásamt Harold Mabern á píanó og Mickey Roker á trommur. Merritt spilaði á þessum tíma á rafmagnskontrabassa. Lærlingur Morgans, Kenny Sheffield, náði að heyra í bandinu á meðan hann var í fríi frá sjóhernum um mitt ár 1970. „Hljómur bandsins breyttist þegar Maupin kom inn. Hann var að spila á alla þessa saxófóna.“ Maupin var þekktur fyrir að spila á fjölda hljóðfæra, eins og tenór saxa, bassa klarinett og flautu. Morgan byrjaði á þessum tíma að spila á Flugelhorn. Flugelhorn er stærra en trompet og með dimmari og mýkri tón.
Morgan var skiljanlega mjög spenntur fyrir nýja bandinu sínu. Eftir að hafa spilað saman í aðeins nokka mánuði, hafði Morgan bókað túr á vesturströndina, í San Francisco og í vitanum á Hemosa Beach. Morgan samdi við Blue Note um að hljóðrita bandið í vitanum á Hemosa Beach fyrir sína næstu plötu. En það var fjöldinn allur af Morgan upptökum á hillunni hjá Blue Note sem áttu eftir að koma út. Plötuútgáfan fylgdi ekki þróun listamannsins eftir, það var þriggja ára misræmi á milli útgáfu og þess sem Morgan spilaði opinberlega. Þó að The Sixth Sense, Charisma og Caramba! séu klassískar plötur í dag þá voru þær ekki samtíma miðað við tónlist Morgans árið 1970. Þróun jazzlistamanns á þessum árum gat verið ansi mikil á þremur árum, í sumum tilfellum algjör viðsnúningur. Morgan hélt sig þó alltaf við sinn stíl en hélt áfram að breyta og bæta hann í gegnum tíðina. Viðræður Blue Note og Morgans skiluðu samkomulagi um að tónleikarnir yrðu teknir upp og að ef platan væri nógu góð, yrði hún færð fremst á útgáfulistann.
Lee Morgan Live at the Lighthouse kom út í apríl 1971 sem tvöföld plata er var tekin upp á tveimur kvöldum í vitanum á Hemosa Beach. Árið 1996 var efnið endurútgefið á geisladiski og þá með um hundrað mínútum af aukaefni. Í ágúst 2021 kom svo út endurútgáfa á heildarupptökum í vitanum, það voru átta geisladiskar samtals, frá mismunandi kvöldum. Niðurstaðan var byltingarkenndar breytingar miðað við útgáfur eins og The Gigolo, Caramba! eða The Sixth Sense. Útgáfan í vitanum færir Morgan fjær hefðbundnum hard-bop hljómaskiptingum og blús formi sem hann var svo vanur að nota.
Þarna kveður við nýjan tón á Lee Morgan plötu þar sem allir eiga ný lög nema leiðtogi bandsins. Speedball og Sidewinder voru einu lög Morgans sem bandið spilaði, þar á meðal tólf mínútna útgáfa þar sem Jack DeJohnette situr við trommurnar. Það er ljóst að Lee Morgan hafði sagt skilið við hard-boppið á þessum tímapunkti, hann var í leit að nýjum tónlistarævintýrum.
Þegar bandið kom til baka til New York var Benny Maupin boðin staða í nýjum sextett Herbie Hancock, sem var tilboð sem hann gat ekki hafnað. „Ég sagði honum [Lee] frá tilboðinu og að ég hefði áhuga á að taka því. Hann horfði beint í augun á mér og sagði einfaldlega, „Þú ættir að taka því.“ Það var þá er ég áttaði mig á því hversu sterk vinátta okkar var. Við elskuðum að spila saman og að ég væri að fara úr bandinu var sárt fyrir okkur báða.“ Maupin var náinn Morgan og Helen More og hélt bréfaskriftum við þau eftir að hann yfirgaf bandið. Þegar Herbie Hancock bandið kom við í New York var Lee alltaf fyrsta manneskjan sem Maupin hringdi í. „Við vörðum tíma saman í New York, borðuðum heima hjá Helen en hún var frábær persóna, mjög aðhaldssöm eiginkona og einstaklega góður kokkur.“
Við hlutverki saxófónleikara tók Billy Harper og gekk hann strax til liðs við bandið. Harper var tiltölulega nýr í jazzsenunni og í raun feginn því að fá inni í svo góðu bandi. Harper hafði komið upp í gegnum The Jazz Messengers áður en hann gekk til liðs við Morgan. „Ég var nokkuð nýr á senunni, þannig að ég var ánægður að geta spilað með honum. Hann vissi að ég hafði spilað með Blakey, þannig að hann hefur áttað sig á að ég mundi virka í bandinu hans.“
Leiðir Morgans og Harpers höfðu legið saman áður en ekki á hljómsveitarpallinum heldur í mótmælum, til að mótmæla að dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi, þar sem fjallað væri um svarta menningu, væri ekki á dagskrá. Ein slík mótmæli voru leidd af Rahsaan Roland Kirk, þar sem sextíu svartir jazztónlistarmenn komu saman í Merv Griffin Show, þar sem þeir þóttust vera áhorfendur. Þegar þrjátíu og fimm mínútur voru liðnar var gefið merki og stóðu þá allir sextíu upp. Sumir blésu í flautur og bjuggu til almennan hávaða á meðan aðrir nálguðust sviðið. Húsbandið reyndi að drekkja mótmælunum með því að spila hærra, en það virkaði ekki. Griffin og framleiðendur voru í sjokki, umsetnir af Kirk og Morgan og gegn eigin vilja hófu þeir að ræða að hafa meiri jazz í þættinum. Harper ávarpaði áhorfendur og útskýrði fyrir þeim ástæður mótmælanna. Morgan tók saman kjarna mótmælanna í grein er birtist í Down Beat: „Öldur ljósvakans eru í eigu fólksins og við erum hér til þess að dramatísera þá staðreynd. Jazz er eina raunverulega ameríska tónlistin en hversu oft sérð þú jazztónlistarmann fyrir framan myndavélina? Og við erum ekki að tala um jazztónlistarmenn er spila í húsbandinu.“
Á meðan Morgan kannaði nýjar tónlistarlendur og talaði sig út um óróann sem ríkti um 1970, þá súrnaði heldur ástandið heima fyrir. Helen, nærandi og gefandi í baráttunni við heróínfíkn hans var nú orðin áminning um lífið sem hann var að reyna að segja skilið við. „Lee var að fara í gegnum breytingar, hann var að losa sig við allt það neikvæða í lífinu,“ sagði Harper og gaf í skyn að Helen væri partur af því neikvæða. Kenny Sheffield, lærlingur Lee, minnist þess að tveimur árum áður hefðu þau oft verið ástríðufull hvort við annað í íbúð sinni í Bronx. „Lee var villtur, hann var hrekkjalómur,“ rifjar Sheffield upp. „Þegar hún [Helen] labbaði inn, fór allur leikur úr Morgan. Hún hélt honum í tékki.“ Donna Cox, systurdóttir Morgans, minnist Helenar ekki sem sambýliskonu hans, heldur meira eins og móður. „Það var eins og hún væri háð Lee, hún fór með honum allt sem hann fór. Hún var á öllum tónleikum í gegnum öll settin.“ Kenny Sheffield hafði svipaða sögu að segja. „Á öllum þeim tónleikum sem ég sótti, þar var hún.“ Billy Harper sagði: „Hún hugsaði um hann, hún var eins og hænsnamóðir.“
Eins og margir jazzleikarar var Morgan mjög meðvitaður um það að miðla þekkingu sinni til yngri kynslóða. Morgan lagði grunn að þekkingu næstu kynslóðar með því að gerast kennari á laugardögum í The Jazzmobile Workshop í Harlem. Roy Campbell trompetleikari sótti kennslu hjá Morgan. „Ég hitti Lee fyrst þegar ég var fimmtán ára. Ég var aðdáandi fyrst en stúderaði svo með honum í Jazzmobile Workshop. Hann lagði áherslu á hluti eins og að stúdera blús og rytmaskiptingar.“ Hugtakið rytmaskiptingar, „rhythm changes,“ vísar til lagsins „I´ve Got Rhythm“ eftir George Gershwin en það lag telst til sniðmáts fyrir hljómaskiptingar í jazzi. Óteljandi fjöldi jazzlaga notar hljómana úr þessu lagi en öll eru þau þó með mismunandi melódíum. Listi yfir lög er nota rytmaskiptingar: https://en.wikipedia.org/wiki/Rhythm_changes
Morgan fann sig ekki knúinn til þess að bóka stóra túra til Evrópu og Japan eins og Freddy Hubbard gerði en hann þurfti enn að spila af og til fyrir saltinu í grautinn. Með ekki svo góða stjórn á neyslunni og stanslausa viðveru maka var listalíf og einkalíf Morgans í viðkvæmu jafnvægi. Einn anginn af tónlistarlífi hans hjaðnaði með minni ástundun: lagasmíðarnar. Morgan hafði ekki skrifað eða tekið upp nýtt lag í rétt rúmt ár. Hann hafði ekki lagt inn neina tónlist til rétthafaskráningar síðan í byrjun árs 1969. „Honum var mjög brugðið því hann gat ekki samið lengur,“ rifjar Judith Johnson, vinur Morgans, upp. Johnson sem hafði faglega reynslu sem félagsráðgjafi og ráðgjafi í ávana- og fíkniefnum, gerðist óopinber ráðgjafi Morgans og trúnaðarvinur árið 1971. Eftir að sambandið við Helen fór að renna út í sandinn, þá eyddi Morgan minni tíma með henni og fór að reiða sig meir og meir á Johnson fyrir fleiri atriði en endurhæfingu.
„Hann [Lee] gæti hafa haldið að hann væri fastur í sömu Blue Note lúppunni, að spila sama efnið aftur og aftur,“ sagði Billy Harper. „Hann vildi komast út úr því [hard-bop] og var ekki að spila þannig lengur. Hann var að reyna að finna meira frelsi. Hann var ekki að reyna að spila eins og Eric Dolphy en hann var að reyna nýja stefnu.“ Morgan spilaði tónleika í og við New York. Hann setti upp túr fyrir kvintettinn sinn er fór til San Francisco, Los Angeles, Chicago og Detroit. Gagnrýnandinn Leonard Feather heyrði í bandinu á vitanum: „Morgan er enn tónlistarmaður með marga eiginleika. Ásamt meistaralegri spilamennsku á hljóðfærið, þá kemur hann mörgum í opna skjöldu með hæfni sinni; hann getur skipst á að spila óræða tónlist eins og lag Merritts Absolutions yfir línulega spilamennsku án áreynslu. Útkoman er eitt kraftmesta bandið og það mest spennandi í þessari tónlist.“
Nokkrum mánuðum síðar hjálpaði Billy Harper Morgan að finna nýja tónlistarstefnu í hljóðverinu. Í sinni fyrstu upptöku síðan í október 1969, setti Morgan saman áhugaverða grúppu fyrir upptökur 17. og 18. september 1971 fyrir Blue Note. Hann bætti við sinn venjulega kvintett – Harper, Mabern, Merritt og Waits með Reggie Workman á bassa, Grachan Moncur III á básúnu og Bobby Mumphrey á flautu. Með stærri hljómi uxu möguleikar til sköpunar til þess að freista þess að ná ferskri niðurstöðu. „Þetta er ein besta platan sem hann hefur búið til,“ sagði Moncur. „Hann var virkilega á sinni leið. Hann var virkilega að gera öðruvísi hluti á þessari plötu, vá.“ Helsti grundvallarmunurinn á þessum upptökum og öðrum sem hann hafði gert var notkun á rafhljóðfærum. Mabern spilaði bæði á píanó og rafpíanó í upptökunum og rafbassa Merritt var att gegn akkústískum bassa Workmans í útsetningum er skila mjög áhugaverðum niðurstöðum. Harper kom með tvö lög, Capra Black og Croquet Ballet sem bæði afhjúpuðu hina nýju, djörfu stefnu bandsins. Merritt átti lagið Angela, Waits átti Inner Passion Out og Mabern setti fram lagið In What Direction Are You Headed?
Morgan var yfir sig ánægður með niðurstöðurnar og leið eins og nú mundi almenningur fá smá sýnishorn af því hversu megnugur hann væri. Harper sá plötuna líka sem viðsnúning. „Þessi plata var hinn nýi Lee,“ sagði hann. Morgan átti ekki eftir að lifa til þess að verða vitni að útgáfu plötunnar.
Nokkrum dögum eftir áramótin 1972 sátu Morgan og bróðir hann Jimmy og spáðu í hvað nýja árið mundi færa þeim. Morgan trúði því að árið yrði gott fyrir hann eða slæmt, ekki eitthvað á milli. Jimmy spurði hann af hverju honum fyndist þetta. Hann svaraði því til að hann væri með sterka tilfinningu, að það væru margir þættir að spilast saman og að hann gæti ekki spáð fyrir um hvernig þetta færi. Morgan hafði nýlokið við að taka upp nýja plötu sem hann var mjög stoltur af og átti að koma út í júní eða júlí. Bandið hans hafði haldið mannskapnum síðasta árið og var að þróast hægt og sígandi í nýja átt. Þrátt fyrir ritstíflu hafði Morgan í hyggju að byrja að skrifa tónlist aftur og talaði um að hann langaði að semja svarta óperu.
Sambandið við Helen var orðið rússíbanareið af óæskilegum tilfinningum og almennu stressi og Morgan hafði í hyggju að slíta því. Samband hans við Judith Johnson hafði þróast og hann sá fyrir sér rómantíska framtíð með henni, frjáls frá dópneyslunni sem hafði plagað hann. Eftir að hann náði að losa sig við heróínið hafði hann fengið líkamleg og andleg verðlaun, svo mikil að hann hafði orð á því að hann mundi nú jafnvel hætta að reykja tóbak.
Árið byrjaði vel hjá bandinu, þeir áttu bókaða tónleika í sjónvarpsveri í þætti er hét Soul! Þátturinn var einskonar ljósvaka-svið fyrir svarta tónlistarmenn, leikara, húmorista og ljóðskáld. Þetta er eina upptakan af Morgan í sjónvarpi sem til er í lit.
Morgan sagði Helen frá áætlunum sínum og tók hún þeim afar illa. Morgan hafði haldið sig frá íbúðinni dögum saman án þess að útskýra fyrir henni hvað hann væri að aðhafast. Þegar þau hittust sauð upp úr undir eins. Það var skrifað í skýin, sambandið var búið. Helen var taugahrúga og vildi sem fyrst komast aftur til þess tíma er samband þeirra var sterkt. „Hún hafði gert svo mikið,“ sagði Billy Harper „Hún gat líklega ekki ímyndað sér að hann vildi ekki tengjast henni framar.“
Þegar kominn var tími til að mæta til vinnu á Slugs barnum þann 18. febrúar 1972, keyrðu Morgan og Johnson saman inn á Manhattan, með Morgan við stýrið. Það var snjór á götunni þannig að gangstéttin sást ekki á köflum. Morgan keyrði upp á gangstétt og klessti bílinn þannig að þau þurftu að skilja hann eftir. Enginn slasaðist alvarlega fyrir utan kannski eina eða tvær skrámur. Morgan sannfærði Johnson um að hún ætti að koma með sér í vinnuna og að hann mundi sjá til þess að bíllinn yrði fjarlægður daginn eftir.
Eftir að bandið lokaði síðara settinu, stóð Morgan við barborðið er Helen labbaði inn í klúbbinn. Hún hafði komið undir því yfirskyni að skila lyklunum hans Morgans en nærvera hennar var nóg til að koma af stað rifrildi þeirra á milli. Morgan varð reiður og hún líka. Hún spurði hann hvers vegna hann væri að kalla hana þarna niður eftir á meðan hann væri með hina konuna sína þar. Morgan leit út fyrir að vera þreyttur á henni og greip í öxlina á henni og labbaði með hana að hurðinni og sagði henni að fara heim. Hún yfirgaf Slugs sýnilega í uppnámi en hún gleymdi kápunni sinni. Augnablikum síðar, klukkan 2:20 eftir miðnætti, sneri Morgan við til að labba upp á svið til að byrja síðasta settið, í því er Helen stormar aftur inn. Stóra eikarhurðin sveiflaðist inn af miklum krafti og sílúetta Helenar sást í hurðinni. „Það var óhugnanlegt,“ sagði Harper sem horfði á atburðarásina frá sviðinu. „Þetta var eins og í vestra þar sem bardyrnar springa inn rétt fyrir uppgjör.“ Morgan snéri sér að henni, líklega til að halda rifrildinu áfram, þegar Helen dró upp .32 Harrington & Richardson byssu úr tösku sinni. Morgan stríddi henni og sagði henni að hún ætti að reyna að skjóta hann, að hún væri með byssuna en hann væri með skotin. Helen skaut einu skoti af stuttu færi. Kúlan fór inn um brjóstið, í gegnum lungað og endaði svo í hryggjarsúlunni á Morgan. Hann hrasaði og féll í gólfið á meðan brjóst hans fylltist af blóði sem byrjaði að leka út á gólf. Morgan missti strax meðvitund.
Helen öskraði „Morgan!“ á meðan sjokkeraðir áhorfendur fylgdust með og áttu margir hverjir erfitt með að átta sig á því hvað væri á seyði. Bassaleikarinn Paul West var á svæðinu og fyrstur til að bregðast við. Hann veiddi byssuna úr höndum Helenar á meðan hún var enn í sjokki og horfði á lífvana líkama Morgans. Barþjónninn hringdi á sjúkrabíl en vegna veðurs var hann lengi á leiðinni, það hafði snjóað mikið. Morgan var færður meðvitundarlaus á Bellevue sjúkrahúsið og stuttu síðar úrskurðaður látinn. Ein af björtustu stjörnum jazzheimsins var látin aðeins 33 ára að aldri.
Þremur mánuðum síðar kom út platan The Last Session. Hún var allt það sem Morgan hafði hugsað sér og meira til, leitin að nýjum lendum hafði skilað meistaraverki!
Lokaorð Lee Morgans má finna í síðasta viðtalinu sem hann gaf: „Ef það væri ekki fyrir tónlist þá væri þetta land sprungið upp fyrir löngu síðan, í raun allur heimurinn. Tónlist er það eina sem spannar allar þjóðfélagsgerðir og tungumál. Tónlist er það eina sem vekur dauðan mann og heillar villta skepnu, án hennar væri þessi heimur helvíti á jörð!“
-Sigþór Hrafnsson
Heimildir:
Lee Morgan
His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/
Delightfulee
The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee