
Kathleen Annie Pannonica var nafnið sem faðir hennar gaf henni en yfirleitt var hún kölluð Nika. Hún fæddist í Bretlandi, inn í Rothschild-fjölskylduna, og var alin upp á herrasetrum víðsvegar um Bretland. Nika var með sína eigin þjóna frá barnsaldi, hún hafði meira að segja spotta inni í herberginu sínu sem hún gat togað í til að fá þjónustu; öll Rothschild-fjölskyldan var með slíka spotta. Hún var að mestu alin upp af þjónustufólki og þekkti foreldra sína þar af leiðandi ekki mjög mikið. Hún var einmana sem barn, átti enga vini, svoleiðis var ekki fyrir Rothschild-börn. Bróðir hennar, Victor, kynnti hana fyrir jazz. Það hefur verið um 1920, við upphaf swing-tímabilsins. Nika sótti í að heyra jazz hjá Victor, hann var mikill áhugamaður um tónlistina og safnaði jazzplötum í gríð og erg. Rothschild-fjölskyldan var einmitt þekkt fyrir að safna hlutum, pabbi Niku átti stærsta safn af uppstoppuðum framandi dýrum í veröldinni. Á þeim grunni var náttúrufræðisafn Bretland síðar byggt. Pabbi Niku hafði gefið henni nafn eftir fiðrildi sem hann hafði lagt mikið á sig til að ná, Pannonica.

Allar stúlkur Rothschild-fjölskyldunnar voru búnar undir að giftast ríkum og valdamiklum mönnum, það var hefð. Nika og Baron Jules de Koenigswarter voru gefin saman í Ameríku, nánar tiltekið á Manhattan, þann 15. október 1935. Tveimur árum síðar keyptu hjónin sautjándu aldar höll í Frakklandi sem þau bjuggu í um tíma.

Árið 1935 þóttist Nika þurfa að fara til New York til að sækja ráð hjá systur sinni Liberty. Það sem hún hafði raunverulega í hyggju var að hlusta og sjá með eigin augum þessa ótrúlegu tónlist sem kom úr útvarpstækinu heima hjá henni. Í Harlem Savoy danssalnum átti hún eftir að heyra Chick Webb og 16 ára Ellu Fitzgerald sem hafði gengið til liðs við Chick Webb sama ár. Hún sá einnig Teddy Hill og konung swingsins Benny Goodman.
Eftir ferðalagið hélt hún heim og tók aftur upp þráðinn með eiginmanni sínum. Hún gerði mikilvæga persónulega uppgötvun í ferðinni; hún áttaði sig á því að maðurinn sinn væri frekar leiðinlegur, að því leyti að allt sem hann gerði var skipulagt í þaula. Sem dæmi, þá hafði hún mjög gaman af því að fljúga með honum þegar þau kynntust fyrst en áttaði sig síðan á því að hann var allt of varkár, þegar hann varði miklum tíma í að fara yfir öryggisatriði fyrir flug. Hún sagði síðar í viðtali við Nat Hentoff: „Eiginmaður minn gerði allt eftir áætlun, með mér er það alls ekki auðvelt. Hver klukkustund var skipulögð frá því að við komum þangað til við fórum á næsta stað.“
París hentaði Niku vel enda var borgin skyldustopp hjá vel metnum tónlistarmönnum. Í París sá Nika Coleman Hawkins, Dizzy Gillespie, Charlie Parker, Duke Ellington og fleiri.
Nika og Jules börðust saman í Afríku í seinni heimsstyrjöldinni gegn nasistum, þau voru bæði flugmenn. Nika elti Jules til Afríku þar sem þau skráðu sig bæði í frjálsa franska herinn. Jules var síðar ein af hetjum Frakka í stríðinu í Afríku. Saman eignuðust Nika og Jules fimm börn. Þann 8. maí árið 1945 tilkynnti vinur Niku, Winston Churchill, að stríðinu væri lokið.
Eftir stríð var framtíð hjónanna algjörlega í lausu lofti. Börnin, sem höfðu verið send til Ameríku, voru þar enn. Þjóðverjar höfðu sprengt heimili þeirra í Frakklandi. Jules var atvinnulaus og móðir Niku var nýlátin. Á friðartímum var hjónaband Niku afrit af barnæskunni. Sem gift kona var ætlast til þess að hún sæi um að skemmta, fræða og gefa af sér börn. Á því varð tímabundið hlé á meðan stríðinu stóð en nú var ætlast til þess að hún tæki upp sína fyrri iðju. Mörgum árum áður hafði frænka hennar varað hana við: „Ég ímynda mér að þú munir giftast bráðlega – þannig ættir þú að læra eins og fljótt er auðið er að þú ert ormur. Til að kona geti notið velgengni þarf hún að vera ormur.“ Nika var ekki efni í orm.
Jules var í álíka mikilli óreiðu og Nika eftir stríð, húsnæðislaus og atvinnulaus. Hann sótti um í utanríkisþjónustu Frakka og var ráðinn til starfa í Noregi árið 1947, þar sem Nika og börnin gátu loksins sameinast. Heimili þeirra í Noregi var Gimli-kastali í Osló en hann hafði verið heimili frægasta svikara Noregs í stríðinu, Vidkun Quisling. Fyrir Jules var ambassadorstaða í Noregi leið til þess að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Nika hataði fyrirkomulagið. Eftir tvö ár í Noregi var Jules boðin staða í Mexíkó sem hann þáði. Nika varð sífellt óhamingjusamari og örvæntingarfyllri þegar kom að sambandinu við Jules, hún var farin að leita að útgönguleið.
Eftir að hafa heyrt plötu Ellingtons, Black, Brown and Beige, var Nika sannfærð um að diplómatalífið væri ekki fyrir sig. Henni fannst að hún ætti að vera þar sem tónlistin væri, ekki í þessum diplómatíska „kúaskít“, eins og hún kallaði það. Ástandið versnaði bara í Mexíkó fyrir Niku og Jules, hún notaði tækifærið og varði meiri tíma í New York. Í einni slíkri ferð heyrði hún fyrir tilviljun tónlist sem átti eftir að breyta lífi hennar.
Monk-Móbíllinn
„Ég var á leið minni til Mexíkó, 1948 eða 1949, og ég stoppaði til að kasta kveðju á Teddy Wilson á leið minni út á flugvöll.“ Teddy var einn af þeim sem sendi Niku hljómplötur og í þetta skiptið spurði hann hvort hún hefði heyrt um ungan og efnilegan tónlistarmann, Thelonious Monk, sem hafði stuttu áður gert sína fyrstu plötu. „Ég hef aldrei heyrt um Thelonious,“ sagði Nika. „Teddy valhoppaði í burtu til að finna plötuna og spilaði hana svo fyrir mig þegar hann kom til baka. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Ég hafði aldrei heyrt neitt í líkingu við þetta. Ég hlýt að hafa spilað hana tuttugu sinnum í röð. Missti af flugvélinni. Ég fór í raun og veru aldrei heim.“ Í áranna rás varð þessi saga að jazzþjóðsögu. „Hefurðu heyrt um brjáluðu barónessuna sem varð fyrir álögum eftir að hafa heyrt eitt lag?“
Nika heyrði melódíuna í ´Round Midnight en hún heyrði líka eitthvað órætt. Vinur hennar Val Wilmer útskýrir: „Frá sjónarhóli aðdáanda, þá verður tónlistin mjög persónuleg, líkt og hljóðfæraleikarinn sé að tala við þig einslega. Tónlistarmennirnir toga í þig til að segja þér sína eigin lífssögu, sína reynslu. Þeir eru að bera vitni á hljóðfærið sitt.“
Nika flutti að heiman með stæl; hún flutti inn í svítu á Stanhope-hótelinu með útsýni yfir Metropolitan-listasafnið, á jaðri Central Park. Hótelið var byggt árið 1929 eftir sniðmáti margra Rothschild-húsa. Gestir gengu inn í mikilfengleikann gegnum ítalskan inngang. Átjándu aldar lobbí í frönskum stíl með marmaragólfum og útskornum viðarþiljum á veggjum með 24 karata gulllaufblöðum brenndum inn í viðinn. Karlkyns gestum var uppálagt að klæðast jakkafötum með bindi og konur sáust sjaldan án hatta og hanska. Á hótelinu var ströng aðskilnaðarstefna, svartir fengu ekki aðgang nema inn um þjónustu-innganginn og hefðu ekki fengið að leigja herbergi eða vera á ferli í hótelinu.
Art Blakey var fyrsti tónlistarmaðurinn sem Nika tengdist rómantískum böndum. Hún keypti fyrir hann Cadilac og klæddi bandið hans upp. Margir héldu að Blakey hefði verið að nota hana en fyrir henni var hann skemmtilegur vegvísir um jazzheiminn. Hann kynnti hana fyrir tónlistarmönnum, klúbbum og fræddi hana almennt um tónlistina. Það kaldhæðna var að hún fann hvergi manninn sem samdi ´Round Midnight. Nika kembdi klúbbana í leit sinni að æðsta presti jazzins, en Thelonious Monk hafði misst kabaretkort sitt 1951-58, sem var forsenda þess að fá að spila á klúbbum á Manhattan. Monk hafði tapað kortinu sínu þegar hann var handtekinn með heróín. Eftir að honum sleppt úr fangelsi var hann atvinnulaus og blankur og lifði eins og fangi í sinni eigin íbúð. Hann og kona hans Nellie lifðu á launum hennar en slæm heilsa kom oft í veg fyrir að Nellie gæti unnið og þá voru þau upp á góðmennsku annarra komin.
Við fyrstu skoðun áttu Monk og barónessan ekkert sameiginlegt annað en ást á tónlistinni. Það var ólíklegt að sveitamaður eins og Monk hefði eitthvað við konu eins og Niku að segja; þau voru hvort frá sínum endanum félagslega og fjárhagslega. Nika hélt áfram leit sinni að Monk til 1954 en án árangurs, þá hélt hún heim til Bretlands til að íhuga framtíð sína. Hún þurfti að fara yfir líf sitt og vega það og meta. Nika stóð á fertugasta og fyrsta ári og var í raun heimilislaus, atvinnulaus, óráðanleg í vinnu með enga smá fortíð að baki. Með fimm börn var hún varla efni í eiginkonu. Fáir möguleikar stóðu henni til boða. Á meðan Nika velti fyrir sér framtíðarmöguleikum sínum fréttir hún að í vændum séu tónleikar Monk í París.
París var fullkominn staður fyrir fyrstu kynni Monks og Niku. Hún flaug til Parísar með píanistanum og vinkonu sinni Mary Lou Williams. Mary Lou var ein af fáum konum til að ná frama í karlægum jazzheimi og tók upp yfir 1000 plötur á ferlinum. Mary þekkti Monk og hafði hug á að kynna þau Niku. Þegar Monk komst á sviðið í París hafði hann reykt mikið af dópi sem var skolað niður með koníaki. Þegar tónleikarnir voru hálfnaðir arkaði Monk af sviðinu til að fá sér annan drykk. Gagnrýnendur, bæði breskir og franskir, hötuðu þessa tónleika Monks, þeir kölluðu þá „óvænta“ og „lágkúrulega“ og lýstu Monk sem „eins konar hirðfífli jazzins“.
Nika man kvöldið á aðeins annan hátt. Hún var bergnumin; Monk stóðst allar hennar væntingar og gott betur. Frá þeirri stundu breyttist líf hennar varanlega. Næstu tuttugu ár átti hún eftir að helga líf sitt Thelonious Monk, hún lagði tíma sinn og ást að fótum hans, hollusta hennar var við Monk. Að mati Niku var Monk fallegasti maður sem til var. Ef hann gekk inn í herbergi var það návist hans sem dómineraði, það sama átti jafnvel við þótt hann lægi út af í rúminu. Þau vörðu vikunni saman í París en að henni lokinni fór Monk heim til New York og Nika til Bretlands.
Nika sóaði engum tíma þegar hún kom heim. Hún leigði Royal Albert Hall sex sunnudaga í röð og hafði áform um að fá Monk til að spila fyrir fleiri áhorfendur en hann var vanur, hún vildi bera út boðskap Monks. Nika lagði töluverða vinnu í að ná málinu fram en á endanum varð hún af láta af áformum sínum því að ekki tókst að fá atvinnuleyfi fyrir Monk í Bretlandi, þrátt fyrir góðar tengingar Niku. Bæði Nika og Monk urðu fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna. Nika yfirgaf London og flaug til New York, hún átti ekki eftir að búa aftur í Bretlandi.
Nika mætti í hverfið hans Monks í New York á nýjum Rolls Royce með hlébarðaskinn á herðunum og sígarettu í munnstykki sem var allt of langt. Hvað fannst Nellie, konu Monks, um þessa fígúru? Stóð henni ógn af henni? „Hún var góður vinur okkar og við þurftum vini,“ sagði Nellie. Sonur Nellie, Toot Monk, hafði þetta um málið að segja: „Einhvers staðar á leiðinni áttu þær samtal, Nika og Nellie. Ég veit ekki hvað þær sögðu en þær ákváðu að þær myndu hugsa um hann saman. Frá því að ég var átta ára þá var fjölskyldan mín mamma, pabbi, systir mín og Nika.“ Síðar skipti hún Rollsinum út fyrir Bentley, hann var kallaður Bebop-Bentley því að Nika var sífellt að keyra svarta tónlistarmenn hingað og þangað um New York á bílnum.
Tónlistarmaður og félagi Monks, Hampton Hawes, lýsir týpískri ferð í Bebop-bílnum með Niku, Nellie og Monk niður sjöundu breiðgötu í New York: „Monk í góðu skapi, sneri sér að mér og sagði: „Sjáðu mig maður, ég er með svarta tík og hvíta tík,“ og svo lagði Miles Benzinum við hliðina á okkur með gluggann rúllaðan niður og kallaði með hrossarödd sinni sem var skorin niður eftir hálsskurðaðgerð: „Viltu spyrna?“ Nika kinkaði kolli til hans og sneri sér að okkur og sagði með sínum breska yfirstéttarframburði: „Í þetta skiptið trúi ég því að ég muni sigra motherfokkerinn.““
(Mynd af Bebop-Bentleynum má finna í þessari grein á Guardian frá 2012.)
Nika lét setja flygil inn í svítuna á hótelinu. Monk varði þar flestum dögum að spila og semja tónlist, hún fylgdist með og dáðist að snilligáfu hans. Þegar myrkrið féll þá var Bopbíllinn dreginn fram og keyrt í bæinn, oft til að ná nokkrum tónleikum sama kvöldið. Monk var fylgdarmaður og kennari í þessum ferðum. Þannig kynnti hann Niku fyrir vinum sínum, hjálpaði henni að skilja tónlistina. Básúnuleikarinn Curtis Fuller útskýrir: „Það voru margar limmur og stórar stjörnur – Eva Gardner, Frank Sinatra og svo framvegis. Þau sendu miða til að fá þig til að setjast við borðið sitt. Þegar barónessan kom inn og settist við sitt borð stoppaði allt. Hún var yfir þeim öllum. Þegar Nika gekk inn var eins og stórt gong hefði verið lamið, boom, og orðið barst, barónessan er hér. Spilaðu vel, barónessar situr á fremsta bekk.“ Hún lék hlutverk sitt vel.
Monk var vanur aðdáun kvenna, hann hafði lag á að láta þær hugsa um sig. Að Nika væri hvít og auðug hafði sína kosti en það sem skipti mestu máli fyrir Monk var að hún elskaði tónlistina hans. Eins og sonur hans Tod sagði: „Nika var þar þegar gagnrýnendur voru ekki á ná tónlistinni og helmingurinn af tónlistarmönnunum ekki heldur, en hún náði þessu. Það var mjög mikilvægt fyrir hana og fyrir hann. Hann elskaði hana fyrir það.“ Monk sagði um vin sinn: „Hún er ekki dómhörð, hún er til staðar, hún á smá pening sem er stundum gott að hafa aðgang að en það er ekki aðalatriði. Hún býr á góðum stað þar sem gaman er að vera. Hún getur keyrt mig á staði í Bentleynum, sem mér finnst gaman að keyra og hún er funky, fín dama.“ Síðar bætti hann við: „Hún er Rothschild, sem gerir mig ansi stoltan.“
Nika tjáði aðdáun sína á Monk með álíka einfaldleika. Hún sagði Bruce Richer: „Hann er ekki bara einstakur sem tónlistarmaður, hann er einstakur sem manneskja. Skrítið orð kemur upp í hugann þegar ég hugsa um hann. Hreinleiki. Það orð virðist passa honum eins og hanski. Hann er heiðarlegur án málamiðlana. Hann hefur andstyggð á lygurum og lýgur aldrei sjálfur. Ef svar við spurningu þýddi að hann myndi særa tilfinningar einhvers, þá myndi hann þagna; geta hans til að þaga var svo mikil að margir héldu að hann talaði aldrei. En þegar hann var í góðu tómi gat hann talað dögum saman, án pásu. Hugur hann eins beittur og rakvélarblað og hann hafði áhuga á öllu, frá flugi fiðrildisins til pólitíkur og stærðfræði. Hann var mesta fjörið í öllum heiminum. Hann hló þangað til þú fórst að grenja.“
Curtis Fuller, sem varði miklum tíma með þeim frá 1950 til 1970, dró saman vinskap þeirra; „Það voru engin merki um rómantíska aðdáun annað en einstaka koss á kinn.“ Annar tónlistarmaður spurði Monk hvort hann væri að sofa hjá barónesunni. Monk svaraði: „Maður, því skyldi ég gera besta vini mínum það?“
Bird
Þann 12. mars 1955 var bankað á hurðina á svítunni hjá Niku. Hún fór til dyra og fyrir utan stóð Charlie Parker, illa á sig kominn. Nika bauð hann velkominn. Það var ákvörðun sem átti eftir að draga dilk á eftir sér, vekja upp margar spurningar og verða grundvöllur fjölda samsæriskenninga. Parker átti að vera á leið til Boston á tónleika, en hann var í skelfilegu ástandi. Hann hafði nýverið reynt að taka eigið líf með því að taka inn ofskammt af joði, eftir dauða dóttur sinnar Pree og skilnað við konu sína Chan. Vinur Niku, Ira Gitler, hafði séð hann fyrr um kvöldið fyrir utan Birdland. „Ég mætti snemma og sá að hann var að taka hvítar pillur, líklega kódín. Hann var í inniskóm því að fæturnir á honum voru bólgnir.“
Í bíómynd Clint Eastwoods, Bird, birtist hann, samkvæmt frásögn Niku, rennblautur fyrir utan dyrnar hjá henni. Hann leggst út af og horfir á sjónvarpið meðan hann gefur lækni færi á að skoða sig. Almenn skynsemi segir að atburðarásin hafi verið aðeins öðruvísi. Ef Parker var að nota heróín hefði hann farið í sársaukafull fráhvörf á næstu tveimur til þremur tímum. Með alvarlega lifrabólgu og magasár er nokkuð ljóst að Parker hefur verið mjög kvalinn.
Nika var í erfiðri stöðu því að hótelið hafði nú þegar hækkað leiguna hjá henni þrisvar til að reyna að fá hana út. Nika krafðist þess að svartir vinir hennar fengju að ganga frjálsir inn um lobbíið eins og aðrir viðskiptavinir hótelsins, hún tók ekki annnað í mál. Þetta skapaði mikil vandræði fyrir hótelið því að þar átti að vera viðhöfð aðskilnaðarstefna. Einnig var mikið um það að nálar og annað tengt dópneyslu fyndist á hótelinu eftir að Nika flutti inn.
Læknirinn sem skoðaði Parker var ekki hótellæknirinn. Nika fór framhjá honum og kallaði til sinn eigin lækni, Dr. Freymann. Læknirinn giskaði á að Parker væri um sextugt eftir skoðun. Hann var þrjátíu og fjögurra ára. Læknirinn spurði hann hvort honum líkaði sopinn. „Einn og einn sherrí fyrir svefninn,“ svaraði Parker. Það er ekki vitað hvaða lyf læknirinn skrifaði út fyrir Parker. Nika og dóttir hennar Janka, sem var á staðnum, stilltu Parker upp fyrir framan sjónvarpið og báru í hann hvert vatnsglasið á fætur öðru svo að hann gæti slökkt þorstann. The Dorsey Brothers Stage Show var nýbyrjað í sjónvarpinu. Þegar trúðarnir fóru að juggla boltum, þá fór Parker að hlæja, honum sveldist á og svo dó hann. Nika sagði síðar: „Ég held að ég hafi heyrt þrumuklapp rétt í því sem Bird dó. Ég sannfærði mig síðar um að ég hefði ímyndað mér það, þangað til ég talaði við dóttur mína og hún sagðist hafa heyrt það líka.“ Þrumuklappið er nú í traustum höndum jazzþjóðsagna.
Götublöðin fóru hamförum eftir atvikið. Líf Niku varð algjört helvíti í framhaldinu, hún var ítrekað stöðvuð af svörtum lögreglumönnum sem sögðu við hana: „Þú ert hvíta konan sem drap Charlie Parker.“ Hvítu löggurnar sökuðu hana um að vera konan sem hékk með blökkumönnum. Götublöðin skrifuðu hverja níðgreinina á fætur annarri um Niku. Hún gat ekki rönd við reist. New York var lítið samfélag á þessum tíma, það var ekki séns að fólk tæki ekki eftir hvítri konu á Bentley. Það vissu allir hver hún var. Nika borgaði umhyggju sína dýru verði.
Pannonica
Eftir að Nika flutti á Bolivar-hótelið fór hún og valdi stórkostlegt Steinway-píanó fyrir nýju svítuna. Þar samdi Monk lögin Brilliant Corners, Bolivar Blues og Pannonica. Hann eyddi öllum deginum þar að sögn Niku. Platan Brilliant Corners var tónlistarlegt framlag Monks til nýja vinar síns og innihélt lagið Pannonica.
Fáar konur urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá Monk til að semja lag um sig. Ruby My Dear var tileinkað fyrstu ástinni hans, Ruby Richardson; Crepuscule with Nellie var ástarsöngur saminn fyrir konuna hans. Booboo var samið um dóttur hans Barböru.
Þetta var fyrsta hljómplatan sem Nika var viðstödd upptökur á og hún gerði meira en það; hún sótti tónlistarmennina og keyrði þá á æfingar. Á þessum tíma var hún skráð umboðsmaður fyrir tónlistarfólk, hún var með Horace Silver, Hank Mobley og Sir Charles Thompson á sínum snærum. „Fyrir mér,“ sagði Nika, „á umboðsmaður að vera senditík tónlistarmannsins sem ætti ekki að framkvæma skítavinnu. Tónlistarmaður ætti aldrei að þurfa að sitja inni á bókunarskrifstofu og reyna að selja sjálfan sig.“
Vistin á Bolivar-hótelinu stóð ekki lengi yfir, hinir gestirnir hötuðu endalausar „jamsessionir“ tónlistarmanna í svítunni. Nika færði sig til á Algonquin-hótelið. Hún sagði að þeir ættu mögulega að vera opnari fyrir snillingum, en Thelonious var einum of mikill snillingur fyrir þá. Hann hafði tekið upp á því að ganga um hótelið og opna hurðir til að leita að Nellie. Niku var vísað af hótelinu í framhaldinu. Hún leysti málið með því að leigja sér einbýlishús í New Jersey. Húsið var með útsýni yfir Hudson-ána og Manhattan. Í samanburði við Rothschild-húsin var nýja húsið hennar Niku hóflegt. Hún lét setja inn flygil fyrir Monk og svo fyllti hún húsið af köttum. Allir kettirnir fengu nafn jazztónlistarmanna og Nika mundi nöfnin á þeim öllum. Eitt sinn taldi dóttir hennar yfir 100 ketti, endanleg tala var eitthvað um 300 kettir. Hún lét setja upp sérhannaðan vegg í bílskúrnum svo að kettirnir myndu ekki rispa Bebop-Bentleyinn. Monk nefndi húsið „Catville“. Monk var alls ekki hrifin af köttum, hann hataði þá en hann elskaði Niku.
Skrítnir ávextir
Klukkan ellefu að morgni miðvikudagsins 15. október 1958 keyrði Nika út úr New York og inn í mikil vandræði. Aftur í baksæti Bop-Móbílsins sat tenórsaxafónleikarinn Charlie Rouse og í framsætinu Monk. Ástandið í bílnum var spennuþrungið. Þau höfðu lagt af stað seint og ólíklegt að þau næðu „soundchecki“ í Baltimore, hvað þá æfingum. Bæði Monk og barónessan voru óvön því að fara á fætur fyrir hádegi. Brottförinni hafði seinkað enn frekar þegar Monk krafðist þess að þurfa að máta nokkur jakkaföt og úrval af mismunandi höttum með. Monk hafði vakað þarna í um 55 klukkutíma samfleytt. Harry Colomby umboðsmaður Monks reyndi að fresta tónleikunum, á endanum féllst hann á að senda Monk ef Nika lofaði að missa hann aldrei úr augsýn sinni.
Nika skildi hve mikla merkingu Baltimore-tónleikarnir hefðu fyrir Monk. Hann var nýbúinn að fá kabarettkortið sitt aftur árið 1957. Hann hafði ekki verið á senunni í sjö ár, það var mikilvægt að vinna upp áhorfendur sem höfðu tapast. Þau höfðu keyrt í um tvo tíma þegar Monk sagði fyrstu orð sín þann daginn: „Ég þarf að stoppa.“ Monk var með blöðruhálskirtilsvandamál sem gerði að verkum að hann átti erfitt með að ferðast langar vegalengdir, einnig voru langsetur við píanóið óþægilegar fyrir hann.
Þau voru stödd í Deleware, þar sem hlutirnir voru dálítið afturábak á þessum tíma. Nika leitaði að stað til að stoppa. Hún keyrði niður aðalgötuna í leit að stað en þeir voru allir með aðskilnaðarstefnu. Loks fann hún hótel með merki sem stóð á „Allir velkomnir“. Þar stoppaði hún og hleypti Monk út, svo lagði hún bílnum aðeins frá innganginum. Monk fór inn og fékk að nota klósettið en kom svo fram og bað um vatn. „Vatn!“ sagði hann háum rómi, nokkrum sinnum, þangað til hringt var á lögregluna.
Þjóðvegalögreglan stöðvaði þremenningana rétt hjá hótelinu, þar sem þau keyrðu í burtu úr bænum. „Stöðvaðu vélina fröken,“ sagði lögreglumaður er stóð við bílstjórahurðina. „Eigandi Plaza-hótelsins hringdi í okkur, sagði að stóri svarti gaurinn hefði verið með læti í lobbíinu.“ „Herra skrítni-hattur þarf að koma með okkur,“ sagði annar lögreglumaður sem stóð farþegamegin við Bebop-Bentleyinn. Monk sagði ekkert, sat bara þögull sem gröfin. Það leið ekki á löngu þangað til Monk var dreginn út úr bílnum með hálstaki, og út á götu þar sem hann var laminn með kylfum. „Passið þið hendurnar á honum!“ öskraði Nika, aftur og aftur.
Þegar lögreglumennirnir leituðu í bílnum fundu þeir maríjúana í hanskahólfinu. Á þessum tíma var það sett í flokk með ópíum og heróíni. Að vera tekinn með maríjúana þýddi fangelsisdóm, það vissu þremenningarnir vel. Nika hikaði ekkert, hún tilkynnti lögreglumönnunum að hún ætti efnin, þrátt fyrir að hún vissi að langur fangelsisdómur gæti fylgt. Nika var tilbúin að hætta öllu fyrir Monk, því að hún elskaði hann.
Nika var fundin sek þann 21. apríl 1959. Hún var dæmd í þriggja ára fangelsi og til greiðslu þrjú þúsund dollara sektar. Eftir fangelsisvistina yrði henni ekið út á flugvöll og hún send heim, hún fengi aldrei að koma til Ameríku aftur. Dómnum var áfrýjað til hæstaréttar og tók þá við rúm tveggja ára bið eftir niðurstöðu. Næstu tvö ár hvöttu vinir og ættingjar hana til að flýja land og hefja nýtt líf í Bretlandi. Hún hafnaði því, fyrir henni snerist málið ekki um nokkurra dollara virði af maríjúana heldur um það hvað gerist þegar hvítt og svart fólk verður vinir.
Handtakan varð Niku innblástur til að aðstoða jazzsamfélagið. Hún ók Bentleynum inn í stórhættuleg hverfi og skildi hann eftir í gangi á meðan leitað var að einhverjum „ketti í vandræðum“. Klædd í pels og með perlur um hálsinn hljóp Nika í gegnum dópgrenin hvert á fætur öðru. Einu sinni eyddi hún nokkrum dögum í leit að píanóleikaranum Bud Powell, sem hafði drukkið allt hennar Rothschild-vín áður en hann fór niður í bæ til að ná sér í heróín. Hún fann hann illa á sig kominn á götuhorni, setti hann í rúm og gaf honum að borða. Það dugði ekki, Bud var dáinn nokkrum dögum síðar. Nika borgaði fyrir jarðaförina hans og líkvöku. Stundum var gæska Niku í praktískara formi; Lionel Hampton var einn af nokkrum tónlistarmönnum sem hún kenndi að lesa.
Málið var tekið fyrir í hæstarétti 15. janúar 1962. Vörn Niku snerist um að handtakan hefði verið gerð með ólögmætum hætti, að hún hefði ekki verið beðin um leyfi til leitar í handtösku sinni eða í bílnum. Á endanum féllst dómarinn á þau rök. Níka var frjáls ferða sinna.
Nika fylgdi Monk að málum alveg til dauðadags hans, 5. febrúar 1982. Hún bjargaði mörgum jazzaranum úr vandræðum, ótalmargar sögur eru til af henni að borga tryggingargjald til að fá heilu böndin leyst út úr fangelsi, eins og þegar kona Bud Powell lét lögguna loka manninn sinn og allt jazz messengers bandið inni í fangelsi í París, fyrir dópneyslu.
Nika bjó með Barry Harris píanóleikara og köttunum sínum til dauðadags. Þann 30. nóvember 1988 missti jazzheimurinn einn sinn besta bandamann, Pannonica var flogin á brott.
Fjölmörg lög hafa verið samin innblásin af Niku í gegnum tíðina:
Blues for Nica – Kenny Drew
Bolivar Blues – Thelonious Monk
Cats In My Belfry – Barry Harris
Coming on the Hudson – Thelonious Monk
Inca – Barry Harris
Nica´s Dream – Horace Silver
Nica´s Tempo – Gigi Gryce
Little Butterfly / Pannonica – Thelonious Monk
Tonica – Kenny Dorham
Og fleiri.
-Sigþór Hrafnsson
Heimildir
The Baroness – The Search for Rebellious Rothschild – Hannah Rothschild.
https://www.abebooks.com/Baroness-Search-Nica-Rebellious-Rothschild-Hannah/22286934739/bd
MONK! – Thelonious, Pannonica and the friendship behind a musical revolution – Youssef Dadudi
Myndir: Mynd af Niku (efst) fengin héðan. Aðrar myndir: Wikipedia Commons.