Ein mín skemmtilegasta jazztengda minning er frá Helsinki í Finnlandi. Ég var þar staddur í nokkra daga árið 2007, upptekinn við eitthvað sem óþarfi er að nefna hér; en daginn áður en ég átti að fara heim fannst mér ég þurfa að athuga með plötubúðir, eða öllu heldur geisladiskabúðir – það var ekki mikið um vínil á þessum tíma. Ég var aðallega með jazz í huga. Flugið heim var einhvern tíma seinnipart næsta dags, þannig að ég hafði tíma fyrir hádegi, áður en ég þyrfti að fara út á völl. Mér var bent á búð frekar miðsvæðis í borginni; hún átti að opna klukkan ellefu um morguninn, þannig að ég var mættur á slaginu, og varð þar með fyrsti viðskiptavinur, eða gestur, þann daginn. Þetta var frekar góð búð, með nógu mikið úrval til að ég fyndi mér eitthvað til að kaupa. Hún sérhæfði sig líka í blues og þjóðlagatónlist. Nokkrum mínútum eftir að ég mætti þarna fóru að tínast inn innfæddir karlar, allir á miðjum aldri, gott ef ekki einhverjir þeirra með hliðartösku úr leðri eða svokallaðan „man bag“ úr einhverju öðru efni; og þegar þeir byrjuðu að tala við eigandann, eða afgreiðslumanninn, sem þeir voru greinilega kunnugir, varð ég sjálfur fyrir einskonar uppljómun – að minnsta kosti mjög sterkri upplifun – því þarna varð til afar skemmtileg og sérstök hljóðrás sem samanstóð úr samblandi tónlistarinnar úr hátölurunum og röddum finnsku karlanna. Mér líður alltaf mjög vel þegar ég heyri finnsku talaða, en alveg sérstaklega þarna, þegar mennirnir við afgreiðsluborðið hófu að þylja upp hin og þessi nöfn á bandarískum jazzleikurum, ofan í öll óskiljanlegu finnsku orðin. (Fyrir utan setninguna „ég elska þig“, og nafn Norræna hússins á finnsku, er það eina sem ég kann á finnsku þessi upphrópun hér: Perkele satana!)
Ég er nú bara að nefna þessa litlu sögu frá Helsinki (sem nær því varla að kallast saga) sem formála að öðru jazzrænu samtali. Og ætla heldur ekki að hafa mörg orð yfir það samtal. Það er að finna á plötu Charles Mingus, Charles Mingus Presents Charles Mingus, í laginu What Love, þar sem með honum spila Eric Dolphy, trompettleikarinn Ted Curson og hinn þaulsetni trommuleikari Mingusar, Danny Richmond. Samtalið hefst einhvers staðar í kringum sjöttu eða sjöundu mínútuna – fer eftir því hvernig maður lítur á það – og stendur yfir í um það bil sex mínútur. En það er ekki bara við Mingus sem Dolphy hefur rætt á þessum nótum. Á einhvers konar safnplötu með Eric Dolphy sem kallast Conversations spjallar Dolphy við hinn frábæra bassaleikara Richard Davis – það samtal fer fram á bassa og bassaklarinettu, og ramminn er Alone Together eftir Dietz og Schwartz. Ég á örugglega eftir að deila þeirri upptöku seinna hér á Ráðlögðum, en nú verður að duga hið tilfinningaþrungna samtal Dolphys og Mingusar í What Love. Þetta er allt að því rifrildi – milli bassa og alt-saxófóns – og kallar eiginlega á að einhver rithöfundurinn eða leikritaskáldið umskrifi það yfir í texta:
– Bragi Ólafsson