Föstudagurinn langi. Það verður að nýta hann til einhvers. Ég sé að það er kominn nýr dagskrárliður á Ráðlagðan, hann nefnist Á fóninum; og í þeirri stöðu er fátt annað að gera en að setja eitthvað á fóninn, þótt ég sé ekki staddur í herberginu mínu heimavið – ég er staddur í Borgarfirði, þar sem engan plötuspilara er að finna. En þá verð ég bara að þykjast – og ráðfæra mig síðan við fóninn þegar ég kem heim, sem sagt treysta því að þetta sem ég ætla að „setja á fóninn“ hér í sveitinni sé í raun og veru raunverulegt en ekki bara eitthvað á sveimi í netheimum. Þegar ég virði fyrir mér Jazzskammtinn (á netinu) sé ég að síðasta færsla mín er að verða ársgömul; ég er þar staddur í Finnlandi, og er eitthvað að bera saman, eða að leggja að jöfnu, annars vegar samtöl finnskra jazzáhugamanna í Helsinki (í plötubúðinni þar), og hins vegar díalóg Mingusar og Dolphys í gegnum bassa og bassaklarinettu í laginu What Love af plötu Mingusar, Charlie Mingus presents Charlie Mingus. En hvað er við hæfi að setja á fóninn á föstudeginum langa? Þessi dagur hefur lengst af táknað fyrir mér leiðindi – ég er fæddur á sjöunda áratug síðustu aldar – en nú ber svo við að hann er hingað til besti dagur þessa árs, enda er ég staddur í „blóma Borgarfjarðar“, Hvítársíðunni; fyrir ofan er heiður himinn og fyrir utan húsið hljómar Litlafljót, mitt prívat vatnsrennsli, á svipuðum hraða og lagið sem ég er með í huganum. Þetta lag, og platan sem hýsir það, hefur verið í hausnum á mér síðustu vikurnar; þessi plata vekur alltaf upp minningar frá unglingapartíum hjá ákveðinni skólasystur í Hagaskóla, þar sem ég endaði yfirleitt kvöldið með föður vinkonunnar og vinum hans í be-bop hlustun í stofunni. Kannski ekki alveg sama músík og hljómaði undir krossfestingunni – kannski hljómaði engin músík undir þeim gjörningi – en þessi plata var ein af fyrstu jazzplötum sem ég eignaðist, þótt ég eigi hana ekki lengur. Sem er kannski ástæðan fyrir því að ég leyfi mér að deila henni nálarlausri. En sálarlaus er hún ekki. Og svo sannarlega er þarna eitthvert samtal í gangi, sjötíu ára gamalt.
– Bragi Ólafsson
Nú verð ég sem er áralangur fylgjandi ráðlagða djasskammtsins að bæta einhverju við nýjustu innlögnina, mér fannst svo gaman að sjá að Dizzy og Getz eru komnir þarna enda var búið að vera svolítið um skryngilegan djass þegar ég skoðaði þetta síðast. Ég man eftir svona partýum þegar ég var yngri þegar pabbarnir voru að spila músík á meðan börnin voru eitthvað að skemmta sér kannski uppi í risinu. Það er allaveganna mín minning. Ég man sérstaklega eftir Oskar Peterson og sá hann meira að segja í Laugardalshöllinni það var líklega á listahátíð. Það átti að vera tríó en gítarleikarinn Joe Pass komst ekki með svo þetta voru bara Oskar og Nils Henning Pederson, danski bassaleikarinn. Þetta voru frábærir tónleikar en ég man sérstaklega eftir að það voru áhorfendur bakvið sviðið og einn þar var grænn í andlitinu, mér fannst einsog hann “væri að fíla þetta aðeins of mikið. Það er örugglega ekki til upptaka úr höllinni þetta kvöld, en ég fann aðra upptöku á netinu þar sem þessir jöfrar leika saman og datt í hug að láta hana fylgja hér. Kannski var þetta ekki löngu síðar en skákeinvígið með Bobby og Spassky var haldið í Höllinni. Ég vil bara þakka fyrir framlagið með ráðlagða djasskammtinum.
Gunnar
Nils-Henning Orsted Pedersen – Oscar Peterson – Joe Pass – Wave
LikeLike