Á fóninum: Kurt Rosenwinkel

Á degi nr. 2 á páskahátíðinni (í íslensku útgáfu hátíðarinnar) verður mér hugsað til New York. Auðvitað ætti hugur minn að vera hjá nýlátnum páfa, sérstaklega af því ég sá hann í sjónvarpinu í gær eitthvað að kvaka við fólkið fyrir neðan hann á Péturstorginu í Róm, en maður ræður ekkert við svona: hugurinn ber mann bara þangað sem honum þóknast, alveg burtséð frá því sem maður horfði á í sjónvarpinu daginn áður. Það er að vísu gild ástæða fyrir því að ég fer í huganum til New York – fólk sem ég þekki er statt þar núna, fólk sem ekki býr í borginni allajafna – og reyndar held ég að það þurfi ekki mikið til að manni verði hugsað til þessarar borgar, ég tala nú ekki um þegar maður er að spila jazzplötur á fóninum (sem ég er að gera núna). Í fyrradag hafði ég ætlað mér að nota þennan vettvang hér, Ráðlagðan, til að segja frá ákveðinni plötu – sú færsla átti einmitt að birtast í dag – plötu sem var fyrst gefin út á síðasta ári, þótt hún hefði verið hljóðrituð árið 1967: Elvin Jones: Revival, Live at Pookie´s Pub. En það verður aðeins að bíða, því þessi plata er of stór í sniðum til að hægt sé að gera henni skil áður en annar í páskum er liðinn (fyrir nú utan að þessi séríslenski páskadagur nr. 2 flokkast sem frídagur, að minnsta kosti fyrir fólk sem ekki vinnur við þjónustustörf). En til að gera stutta sögu enn styttri, þá var ég staddur á Village Vanguard-klúbbnum í New York fyrir nokkrum árum; ég hafði keypt mig inn á tónleika með kvartetti gítarleikarans Kurts Rosenwinkel (það var ekkert annað í boði þann dag sem ég hafði frían). Ég var reyndar ágætlega spenntur fyrir þessum tónleikum, því einhverjum árum áður hafði Matthías Hemstock kynnt mig fyrir Kurt Rosenwinkel; mig minnir að hann hafi gefið mér brenndan disk með fyrstu plötunni hans, tríóplötu sem heitir East Coast Love Affair – og mér fannst það fín plata. Trommuleikarinn þar er hinn spænski Jorge Rossy, sem hefur meðal annars spilað mikið með Brad Mehldau, og að minnsta kosti einu sinni með Óskari Guðjónssyni – ég var á mjög góðum tónleikum með þeim fyrir sirka tveimur árum í Hörpu, þar sem þeir spiluðu með hinum frábæra bassaleikara Thomas Morgan. En það er önnur saga – og hugsanlega efni í aðra færslu líka – ég hafði líka lofað því að gera þessa sögu styttri en hún þyrfti að vera. Og til að stytta þetta enn frekar, þá fundust mér tónleikarnir með kvartetti Kurts Rosenwinkel á Village Vanguard svo leiðinlegir að ég lét mig hverfa í hléinu. Það hafði ég aldrei gert áður á Village Vanguard. Tónsmíðar Kurts voru bara einfaldlega ekki spennandi – það var einhver óskapleg flatneskja yfir öllu – og þaðan af síður var flutningurinn til að fíra eitthvað upp í manni; hann bar einhvern veginn svip af jazzbræðingi áttunda áratugarins, það er að segja hinni slípaðri hlið þeirrar „hreyfingar“. En það sem gerði þetta kvöld eftirminnilegt í mínum huga var að á meðal áhorfenda, eða hlustenda, var maður í kringum fertugt, mögulega fimmtugt, á næsta borði við mig, sem ég hélt í fyrstu að væri Woody Allen. Hann hreyfði sig og talaði – og leit út – eins og Woody Allen. Allt hans fas var eins og eitthvað skelfilegt, en um leið eitthvað gleðilegt, væri í uppsiglingu. Hann var meira að segja klæddur ekki ósvipað og Woody Allen – í einhvers konar Brooks Brothers-múnderingu. Líklega þurfti ég hálftíma eða svo til að komast að því að þetta var ekki sá sem ég hélt. Og vissi það líklega innst inni frá byrjun, því gaurinn var augljóslega yngri en hinn áttræði Woody Allen (sem Woody var á þessum tíma). Svo var líka annað: mér finnst svona eftir á að Woody Allen hefði ekki valið að fara á tónleika með Kurt Rosenwinkel, þótt nafn listamannsins sé óneitanlega gyðinglegt. Annað var það ekki. Ekki í bili. En af því að ég hálfpartinn skammast mín fyrir að hafa laumað mér út af tónleikum Kurts finnst mér ég þurfa að borga fyrir þann dónaskap með því að láta að minnsta kosti eitt lag hljóma af áðurnefndri plötu hans, East Coast Love Affair. Platan er tekin upp á Smalls-klúbbnum í New York.

– Bragi Ólafsson

Leave a comment