Gil Evans: General Assembly

Mikið held ég að Ásmundur Jónsson verði ánægður þegar hann flettir upp þessari færslu dagsins. Ef hann gerir það á annað borð – ég þarf kannski að benda honum á þetta. Það vill reyndar svo til að í dag er Alþjóðlegur dagur jazztónlistar, eins og ég frétti í gestafærslu gærdagsins; ég hafði ekki hugmynd um að svona dagur væri til. (Hvað verður það næst – Alþjóðlegur dagur reykingamanna eða sorphirðu?) En fyrst boðið er upp á svona dag er tilefni til að finna eitthvað í plötuskápnum sem ekki hefur farið á fóninn lengi. Fyrir valinu verður plata með hinum stórkostlega tónlistarmanni og útsetjara Gil Evans (sem ég veit að Ásmundur Jónsson heldur mikið upp á – og ég sömuleiðis). Ég keypti þessa plötu fyrir sirka hálfri öld í Safnarabúðinni, en einhverra hluta vegna kunni ég ekki að meta hana á sínum tíma, og núna líður mér eins og ég þurfi að læðast með veggjum vegna þessarar yfirsjónar. 

Þessi plata hefur engan titil annan en bara Gil Evans, og mér sýnist hún ekki taka mikið pláss í jazzsögunni. Hún er gefin út af Ampex Records, en er sögð vera „A Bearsville Record Production“ (sem mér finnst forvitnilegt, því síðasta plata Sykurmolanna var tekin upp í Bearsville Studios í Woodstock, New York, árið 1991 (22 árum eftir plötu Gil Evans) og Bearsville-hljóðverið tengist þessari útgáfu, sem var stofnuð af Albert Grossman, umboðsmanni Bobs – en núna er ég kominn út á slóð sem ekki gefst tími til að þræða frekar hér). 

Það er reyndar orðið ljóst að ég hef ekki tíma til að klára þessa færslu mína – ég hef móttekið svo mikið af upplýsingum um sjónvarpsþáttinn í gær í Ríkissjónvarpinu að mér er skapi næst að skrifa ekki framar einn staf – þannig að ég ætla að láta duga í bili að senda eitt tóndæmi af áðurnefndri plötu; ég verð að ná því að senda þetta frá mér áður en alþjóðlegi jazzdagurinn er orðinn að kvöldi. En lofa um leið að leggja aðeins út frá þessari fínu plötu í eins konar ps. færslu sem fyrst – það er nefnilega eitt atriði varðandi þetta allt saman sem er pínulítið skrítið.

– Bragi Ólafsson

Leave a comment