Gil Evans kom við sögu í innslagi hér á Ráðlögðum fyrir nokkrum dögum. Og ef marka má niðurlag viðkomandi innslags verða honum gerð frekari skil hér fljótlega. Lesendur bíða væntanlega með öndina í buxunum, ekki síst úr því að boðuð var frásögn af „pínulítið skrýtnu“ atriði. Til að létta lesendum biðina er best að ég stingi hér inn nokkrum orðum.
Þannig vill til að Gil Evans var einmitt nefndur í viðtali sem ég hlustaði á nýlega, við tónlistarmanninn Sting. Viðtalinu var útvarpað á BBC4 í Bretlandi á jóladag 2021, í þættinum This Cultural Life. Þættinum er stjórnað af John Wilson, einum afburðaspyrli, sem fær vikulega til sín fólk úr menningargeiranum til að ræða ýmislegt það sem hefur mótað líf þess og feril á sviði listsköpunar. Ekki ósvipað hinum ágætu þáttum Áhrifavaldar sem hafa af og til verið á dagskrá Rásar 1.
Sting staldraði við margt áhugavert í spjallinu við John Wilson: uppvöxt sinn í nágrenni skipasmíðastöðvanna í Newcastle, minningar af söngelskum föður og móður sem lék á píanó („af einhverjum ástæðum“, sagði hann, spilaði hún helst tangó). Hann sagði frá hughrifunum sem Elvis Presley vakti með honum sem barni, svo sterkum að hann velti sér hálfvitstola upp úr gólfinu, og því þegar fjölskylduvinur flutti til Kanada og skildi eftir gamlan gítar á heimili hans. Sting, sem þá var um átta ára gamall og gekk enn undir nafninu Gordon, varð svo heltekinn af gítarnum að hann lokaði sig af með hljóðfærið og eina kennslubók og talaði ekki við nokkurn mann svo vikum skipti. Hann hafði ekki bara fundið sína köllun, heldur leið til að komast hjá því að vinna í skipasmíðastöð.
Það var síðan nokkrum árum síðar að Sting skipti yfir á framtíðarhljóðfæri sitt, bassann, sem hann lýsir í viðtalinu sem lymskulegri aðferð sinni sem söngvara til að stýra bæði lægstu og efstu röddinni og fara þannig með tögl og haldir í hvaða bandi sem er. Í framhaldi af þessari játningu fer hann yfir ferilinn með The Police, að vísu aðallega viðskilnað sinn við hljómsveitina.
Skemmtilegasti hluti viðtalsins, og tilefni þess að það er nú umtalsefni hér á Ráðlögðum, er þegar talið berst að jazztónlist. Eins og aðdáendur Sting þekkja hefur jazzinn aldrei verið langt undan; ferillinn hófst á jazzklúbbum og eftir það má segja að jazzinn hafi seytlað eins og lækur um líf hans og lagasmíðar, bæði með The Police og í sólóferlinum þar sem leiðir hans og jazztónlistarmanna hafa skarast með alls konar hætti.
Hann víkur að vináttu sinni og áðurnefndum Gil Evans, sem kynnti hann fyrir þeirri hugsun, sem oft hefur verið eignuð Miles Davis, að engin nóta sé röng í sjálfri sér, það eina sem skipti máli sé hvaða nóta fylgi í kjölfarið. Þessa heimspeki setur Sting í samhengi við tónlist Bach, spunann og áhættuna sem býr í henni, og ekki síst þátt hins óvænta og undrunarinnar – og endurómar skoðun sem ýmsir hafa viðrað, að í raun hafi það verið Bach sem fann upp jazzinn.
Viðtalinu lýkur á spjalli um Miles Davis, sem í hópi lesenda bloggsins er líklega óþarfi að taka fram hvaða skoðun Sting hefur á, og aðdraganda þess að Sting talaði – eða hrópaði reyndar – franska þýðingu bandarísku handtökuyfirlýsingarinnar Miranda rights inn á lagið One Phone Call/Street Scenes sem kom út á plötunni You‘re Under Arrest árið 1985.
This Cultural Life þættina má nálgast á þessari vefslóð – þetta er fjársjóðskista fyrir útvarpsfíkla, get ég vottað. Viðtalið við Sting er í augnablikinu á blaðsíðu 11. Ég mæli svo alveg sérstaklega með því að fletta yfir á blaðsíðu 12, því að þar er að finna frábært viðtal sem var útvarpað viku fyrir viðtalið við Sting, í desember 2021, við píanóleikara sem heitir Víkingur Heiðar Ólafsson. Og af því að allt í heiminum tengist (sem er auðvitað alrangt) vill svo til að Víkingur er sjálfur efstur í plötubunkanum hjá Sting um þessar mundir, eins og glöggir komu auga á í nýlegri Instagram-færslu hins síðarnefnda…

– Hrafnhildur Bragadóttir