Þessi litla grammófónsfærsla verður að hefjast á þeirri afsökun að ég hef ekki klárað framhaldsfærslu um Gil Evans, eins og ég lofaði. En það stendur til bóta. Svo hafði ég ætlað að eyða nokkrum orðum í stórfína tónleika Sölva Kolbeinssonar og félaga í Björtuloftum fyrir nokkrum vikum, þar sem prógrammið var tónlist Erics Dolphy – það er líka á dagskránni. (Þetta er að verða ansi þungur pakki sem ég ýti á undan mér ókláruðum.) Mig langaði bara núna til að setja eina upptöku á fóninn í tilefni af því að danski gítarleikarinn Jakob Bro er á landinu – ég býst allavega við að hann sé lentur – til að spila með Óskari Guðjónssyni og Skúla Sverrissyni. Það er sagt frá þessu á heimasíðu Jakobs:
https://jakobbro.com/web/2025/05/jakob-bro-oskar-gudjonsson-skuli-sverrisson/
Ég á fjórar útgáfur með Jakob Bro: tvær á vínil, þar sem hann spilar með Thomas Morgan og Joey Baron; og tvær á geisladiski – önnur þeirra barst mér reyndar frá ritstjóra Jazzskammtsins. Hljómsveitin á síðastnefndu útgáfunni er frekar óvenjuleg; þetta er sessjón til minningar um hinn frábæra trommuleikara Paul Motian, hún kallast Once around the room (sem er vísun í plötu Pauls, I have the room above her), og hin óvenjulega hljóðfæraskipan er svona: Joe Lovano (tenórsaxófónn og tarogato), Jakob Bro (gítar), Larry Grenadier og Thomas Morgan (kontrabassi), Anders Christensen (bassagítar), og Joey Baron og Jorge Rossy (trommur). Lagið sem fer á fóninn í dag er reyndar líka tileinkað Paul Motian; það er af plötu Jakobs Bro, Streams (ECM 2016) – eina lagið þar sem ekki er eingöngu samið af Jakob; þetta er impróvíseruð hugleiðing (eða draumur) Jakobs, Thomasar Morgan og Joeys Baron um Paul Motian. Ég verð að játa að ég er ekki fyrsti maðurinn til að stökkva á tempraða og lýríska jazzmúsík, hvort sem hún er evrópsk (sem hún er yfirleitt) eða annars staðar frá; en það er eitthvað í karakter Jakobs Bro sem er algerlega heillandi. Og lagið á fóninum einmitt mjög fínt dæmi um þann karakter. Thomas Morgan er magnaður bassaleikari (ég sá hann nýlega á tónleikum í „hallandi og djúpa“ salnum í Hörpu, sem ég man aldrei hvað heitir); og um Joey Baron þarf að hafa fleiri orð en rúmast í svona stuttri sendingu. Joey, sem meðal annars spilaði á hinni stórkostlegu plötu David Bowie, 1. Outside, hefur meira að segja ratað inn í lítið ljóð sem birtist í bók (eða bæklingi) fyrir tveimur árum:
Hin stóru mistök að stilla upp glösunum og karöflunni við hliðina á hátölurunum
Þegar Joey Baron, í hljóðverinu í Frakklandi,
fótstýrir púðanum á bassatrommuna
í Draumi um Paul Motian
leikur allt á reiðiskjálfi í hillunum mínum á Íslandi.
– Bragi Ólafsson