Ekki margar kvikmyndir koma í fljótu bragði í hugann ef maður hugsar út í að djass sé í fyrirrúmi. Fjölmargar heimildamyndir og nóg af tónleikaupptökum en ekki leiknar kvikmyndir með söguþræði sem gengur út á djass.
Kannski þekkja allir kvikmyndina Whiplash nema ég. Ég horfði á hana í gær með syni mínum, sem er kvikmyndabarn og horfir kerfisbundið á kvikmyndir, og spænir reyndar líka í sig tónlistarsöguna kerfisbundið. Hann hafði frétt að Whiplash væri góð mynd. Við horfðum. Vorum báðir harla ánægðir.
Hún er eiginlega algerlega frábær. Ég myndi ekki segja það ef hún væri það ekki. Söguþráðurinn er á þá leið að ungur maður leggur stund á nám í djasstrommuleik. Það er metnaður í honum og hann langar til að verða góður, einn af þeim bestu. Í skólanum er tónlistarkennari sem er ærið metnaðarfullur fyrir hönd nemenda sinna. Ungi maðurinn á því láni að fagna að þessi tónlistarkennari fer að sýna honum áhuga.
Eða kannski er varasamt að kalla það lán. Kennarinn nefnilega notar óvenjulegar aðferðir, vægast sagt, til að ná árangri: Hann keyrir nemendur sína út á ystu nöf með framkomu sinni til að ná fram því besta í þeim. Hann hefur sína hugmyndafræði og vill að nemendur fari fram úr fremstu væntingum og verði stórbrotnir listamenn. Hegðun hans er dálítið hæpin, svo ekki sé meira sagt.
Hvað vill djassáhugamanneskja meira? Whiplash er uppfull af djassi, með tveimur aðalsöguhetjum sem eiga erfitt samband, plottið er snjallt og lumað er inn siðferðislegum álitamálum sem sitja eftir í kollinum eins og mara.
Það má leika sér að því að hlusta eftir hvort trommarinn ungi hraðar eða ekki, hægir á eða ekki, þegar mentor hans eys hann óbótaskömmum fyrir þær sakir. Þá sakar ekki að velta því fyrir sér í leiðinni hvað sé eiginlega að því að hraða eða hægja í stað þess að halda fullkomnum takti. Fræg er sagan af (í upphafi) djasstrommuleikaranum Charlie Watts sem upptökumaður ákvað að skella í að spila eftir klikktrakki þegar þau komu fyrst til sögunnar. Það var þekkt að enginn trommari gat spilað almennilega eftir klikktrakki og hlakkaði í upptökumanninum. Charlie spilaði óaðfinnanlega eftir klikktrakkinu. Upptökumaðurinn spurði hann hvernig honum hefði þótt þetta. Charlie svaraði: Þetta var ágætt. En ég hefði samt hægt aðeins á þarna og hraðað aðeins á þarna.
Hér er lokasena myndarinnar. Til spillivarna er kannski best að hlusta ekki á lagið, sem er „Caravan“, samið af Juan Tizol en upprunalega útsett af Duke Ellington og þekktast í flutningi tríós hans. Lagið sjálft og senan segir manni þó kannski ekki mikið ef maður veit ekki forsöguna.
– Hermann Stefánsson