Vilberg Valdal Vilbergsson, Villi Valli (1930–2024), fæddist og ólst upp á Flateyri en var nær alla sína starfsævi rakari á Ísafirði. Hann var þó frá unga aldri á kafi í tónlist, lék á harmoniku, saxófón og píanó í djass- og danshljómsveitum auk þess að stjórna Lúðrasveit Ísafjarðar um árabil.

Villi fór að semja lög á seinni hluta ævinnar þegar um tók að hægjast á rakarastofunni. Lögin hans eru í margs konar stíltegundum enda hafði hann kynnst fjölbreyttri tónlist og orðið vitni að þeim miklu breytingum sem orðið höfðu í músíklífinu á næstum heilli öld. Þegar hann fæddist árið 1930 var harmonikan nær eina hljóðfærið sem leikið var á fyrir dansi hér á landi. Villa veittist sú ánægja að leika með mörgum af okkar frábæru músíköntum við hljóðritanir fyrir diskana Villi Valli, Í tímans rás og Veislurnar í Neðsta með Saltfisksveit Villa Valla auk hljóðritunar tónleika í Edinborgarhúsinu árið 2016, sem Snævar Sölvi Sölvason gerði heimildarmynd um. Villi var ekki aðeins tónlistarmaður heldur einnig listmálari og eftir hann finnast mörg falleg verk í húsakynnum Vestfirðinga, eitt til dæmis á áberandi stað í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Árið 2001 var Villi Valli útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar og heiðursborgari 2018. Hann lést 6. nóvember árið 2024.
Þann 23. október kemur út bókin Lögin hans Villa Valla. Í bókinni eru 32 lög. Flest eru svokölluð lagblöð, þ.e. laglína, bókstafshljómar og eftir atvikum texti. Einnig eru lög í útsetningum fyrir fleiri hljóðfæri auk fimm í kórútsetningum. Bókina prýða myndir frá löngum ferli Villa Valla. Gylfi Ólafsson og Rúnar Vilbergsson tóku saman. Vonandi verður þessi útgáfa til þess að lögin fái nýja vængi, verði leikin af nýgræðingum og lengra komnum, allt eftir samhengi, reynslu og hljóðfæraskipan.

Útgáfuhóf með stuttum tónleikum 23. október
Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður haldið útgáfuhóf í Edinborgarhúsinu fimmtudaginn 23. október kl. 20:00. Þar verður bókin kynnt, en auk þess verða nokkur lög úr smiðju Villa flutt af Karlakórnum Erni, Ylfu Mist Helgadóttur Rúnarsdóttur og Arnheiði Steinþórsdóttur. Undirleik annast Gylfi Ólafsson. Ókeypis verður inn á útgáfuhófið, og bókin til sölu. Hún verður í kjölfarið til sölu í bóka- og hljóðfærabúðum.
Fleiri nótur: Lög frá Ísafirði
Af þessu tilefni er ekki úr vegi að rifja upp stóru systur þessarar bókar, Lög frá Ísafirði, sem er nótnabók sem kom út um svipað leyti í fyrra. Hún inniheldur 37 lög frá Ísafirði eða nærsveitum, og er með svipuðu sniði. Báðar bækurnar hafa hlotið styrk frá Nótnasjóði STEFs og samfélagssjóði Orkubús Vestfjarða. Þó þeir séu ekki stórir eru þeir afskaplega gagnlegir til að hvetja mann áfram, einkum svo hægt sé að borga prentkostnaðinn sem er stærsti beini útgjaldaliðurinn.
– Gylfi Ólafsson