Það stendur ekki til að ræða hliðstæður jazztónlistar við lífið á þessu bloggi. Enda fer tilvitnunin í Miles Davis í síðustu færslu langleiðina með að afgreiða það mál. Ég má samt til með að benda á þetta fallega samtal meðlima Brubeck kvartettsins í upphafi lagsins Somewhere úr West Side Story, sem kom út árið 1961 á plötunni Bernstein Plays Brubeck Plays Bernstein. Svona á að tala saman. Það væri þjóðþrifaverk ef þetta yrði látið hljóma í settinu fyrir gesti pólitískra spjallþátta, rétt áður en útsending hefst. Að því sögðu ætla ég að láta mig hverfa héðan, áður en ég verð uppvís að einhverju enn verra en þessari fyrirsögn.