Ég þykist ekki hafa djúpa þekkingu á jazztónlist. Þar til ég kynntist þeim ágæta einstaklingi sem heldur úti þessari síðu hlustaði ég sjaldan á jazz. Hann hefur hins vegar dunið á mér linnulítið síðan á sameiginlegu heimili okkar. Núorðið er ég því ekki ókunnugur jazzeitruninni sem faðir síðuhaldarans tók til umfjöllunar. Sama jazzskammtinn ætti ekki að ráðleggja öllum. Sumu þarf einfaldlega að venjast ætli maður að halda sig til lengdar í nærumhverfi jazzgeggjara. Stefnulausir skalar hljóðfæraleika sem eru svo frjálsir að þeir enda síendurtekið týndir úti á túni og trommusóló sem virðast hvorki hafa tilgang né enda geta til dæmis reynt mikið á andlegt þrek. Ég reikna með að lesendur þessarar síðu velti nú fyrir sér af hverju ég er að skrifa á hana. Ég hef auðvitað ekkert val um það.
Sem hrokafullum unglingi fannst mér jazztónlistarmenn vera hálfgerðir kettlingar í samanburði við þá klassísku. Ég læt liggja milli hluta hvort ég sé enn sömu skoðunar en ég hef a.m.k. áttað mig á því að betur athuguðu máli að allir geta þeir vissulega verið miklir listamenn.
Í hópi mögnuðustu píanóleikara sögunnar er kanadíski furðufuglinn Glenn Gould. Klassískari gerast hljóðfæraleikarar nú varla. Ég neyðist til að stilla mig um að fylla þessa færslu af upptökum hans enda þarfnast hann engrar kynningar og þess háttar upptökur teljast heldur ekki viðeigandi umfjöllunarefni hér. Upptakan frá 1955 af Goldberg tilbrigðunum er e.t.v. frægasta píanóupptaka sögunnar og sú af d-moll konserti Bachs (t.d. hlutinn frá 6:28-7:13 í myndbandinu hér að neðan) er ekki langt þar á eftir:
Fyrir einhverjum árum þegar ég las ævisögu Glenn Gould eftir Kevin Bazzana komst ég að því að hann hafði verið aðdáandi uppáhaldsjazzpíanóleikara míns, Bill Evans, sem hann kallaði „the Scriabin of jazz“. Glenn Gould mun hafa átt 7 plötur með Bill Evans, fleiri en með nokkrum öðrum jazztónlistarmanni. Skoðun hans á Bill Evans var enda greinileg undantekning frá þeim sem hann hafði á jazz í víðara samhengi, sem hann sagðist aðeins geta þolað „in very small doses“. Glenn Gould mun aldrei hafa farið á jazztónleika um ævina svo ljóst sé og sagðist aðeins hafa haft áhuga á bebop til skamms tíma sem táningur („but it was a very passing fancy“). „No one ever swung more than Bach“ mun hann jafnframt hafa sagt.

Bill Evans kynntist ég sjálfur fyrst þegar síðuhaldari, sem þá var skólasystir mín og vinkona, gaf mér óviðjafnanlegu plötu hans Alone.
Þessi plata breytti óhjákvæmilega viðmóti mínu gagnvart jazzpíanóleikurum. Löngu seinna komst ég svo að því að Bill Evans var raunar upphaflega klassískt menntaður píanisti. Á efnisskránni á útskriftartónleikum hans frá 1950 má sjá að hann spilaði þar m.a. fyrsta kaflann í 3. píanókonserti Beethovens. Svo vill til að ég hafði einmitt tekið að mér að spila hljómsveitarpart þess verks með síðuhaldara þegar hún æfði hann í upphafi okkar kynna, enda kunni ég hann þegar eftir að hafa gert slíkt hið sama fyrir annan stórpíanista sem æfði hann svona fimm árum áður.

Bill Evans var sjálfur að sama skapi aðdáandi Glenn Gould og þeir áttu í vinsamlegum samskiptum í gegnum árin. Á 7. áratugnum stakk sameiginlegur vinur upp á því að þeir skrifuðu hvor um sig einnar blaðsíðu langan dóm um nýútgefna plötu hins og birtu þá síðan hlið við hlið í tímaritinu High Fidelity. Þeir munu hafa samþykkt tillöguna, þótt Bill Evans hafi svo á endanum guggnað á framkvæmdinni.
Bill Evans tók upp þá sérstæðu plötu Conversations with Myself árið 1963 og fékk þá að notast við CD 318 Steinway flygil Glenn Gould.
Á plötunni tók Bill Evans tvisvar upp ofan í eigin leik og spilaði þannig allt að því sexhent með sjálfum sér. Glenn Gould, sem hætti að koma fram á tónleikum 31 árs og einbeitti sér að upptökum, skemmti sér stöku sinnum við sams konar verkefni.
Nokkru óvæntari en aðdáun Glenn Gould á Bill Evans var hrifning hans á Barbra Streisand. Þegar hún gaf út plötuna Classical Barbra árið 1976 skrifaði Glenn Gould plötudóm í High Fidelity, sama tímarit og hann og Bill Evans höfðu ætlað að birta dóma sína um plötur hvor annars í nokkrum árum áður, þar sem hann skrifaði m.a. með sínu dæmigerða afkáralega uppskrúfaða orðalagi: „For me, the Streisand voice is one of the natural wonders of the age, an instrument of infinite diversity and timbral resource. It is not, to be sure, devoid of problem areas—which is an observation at least as perspicacious as the comment that a harpsichord is not a piano or, if you insist, vice versa. Streisand always has had problems with the upper third of the stave—breaking the C-sharp barrier in low gear is chief among them—but space does not permit us to count the ways in which, with ever-increasing ingenuity, she has turned this impediment to advantage.“ Hér verða engin tóndæmi af þessari plötu gefin (leitið á Youtube og þér munuð finna) en vilji einhver lesa plötudóminn í heild er hann birtur hér.

Barbra Streisand tók upp lagið „What are you doing the rest of your life“ árið 1969. Bill Evans gaf það svo út ári síðar á plötunni From Left to Right. Í aðalútgáfu hans á laginu á plötunni, sem ég mæli reyndar alls ekki með, spilar með honum hljómsveit en í meðfylgjandi aukaútgáfu sem er þeim mun betri spilar hann samhliða á rafmagnspíanó og flygil ásamt hefðbundnari meðleikurum. Eitt sinn tókst mér að gleðja síðuhaldara með þessari upptöku, enda þekkti hún hana ekki fyrir og spurningin viðeigandi.
Hver veit nema Glenn Gould sem var einhleypur alla tíð hafi kannski vonast til að eyða restinni af ævinni með Barbra Streisand. Hvað sem því líður lýsti hann a.m.k. áhuga á því að taka upp með henni plötu. Hún virðist hafa tekið þessari umleitan hans fálega, því ekkert varð af plötunni.
– Ragnar Pálsson
Mjög fróðleg lesning!
LikeLike
Gaman að þessu. Að læra hlusta á jazz er langur prósess, að læra spila jazz er prósess sem tekur aldrei enda. Sonny Rollins er 91 árs og enn að æfa sig!
LikeLike