Örstutt ábending til doktorsins

Fyrir nokkrum dögum var ég staddur í Smekkleysu, á efri hæðinni, og hitti Dr. Gunna. Vegna þess að hljómsveitin Mínus var að undirbúa sig fyrir tónleika á neðri hæðinni höfðu nokkrir plötukassar verið færðir upp, úr búðinni niðri á kaffihúsið uppi, og þar var Dr. Gunni að fletta í gegnum einn kassann; hann var að leita sér að jazzplötum. Við töluðum aðeins um hina yfirvofandi tónleika – það orð, yfirvofandi, er líklega við hæfi, því hávaðinn sem barst til okkar frá sándtékkinu niðri var meira í ætt við ógn en eitthvað annað – svo snerum við talinu að einhverjum plötum sem doktorinn hafði veitt upp úr kassanum. „Geturðu mælt með einhverju sem þú hefur verið að hlusta á undanfarið?“ spurði Gunnar. Ég sagði honum frá tveimur plötum með tríói gítarleikarans danska, Jakobs Bro: Streams og Bay of Rainbows, sem ég hef ítrekað sett á fóninn síðustu mánuðina. Dásamlegar plötur þar sem Thomas Morgan spilar á bassa, og Joey Baron á trommur. Ég man ekki hvort ég taldi upp einhverjar fleiri plötur, en stuttu eftir að við kvöddumst sá ég eftir að hafa ekki sagt Gunnari frá þeirri plötu sem ég ætla að minnast á núna: “Out to Lunch” með Otomo Yoshihide´s New Jazz Orchestra. Þetta tilbrigði við sextíu ára gamalt snilldarverk Erics Dolphy kom út árið 2005, en ég vissi ekki af því fyrr en ég rakst á plötuna í Fnac-búðinni í París fyrir sirka ári. Þetta er tvöföld plata í óvenjulega þykku og vönduðu pappírsumslagi; líklega helmingi þykkari en hin tvöfalda Bitches´ Brew, sem vildi svo til að Gunnar hélt á undir spjalli okkar. Þótt ég ákvæði strax að kaupa þessa plötu með hinum japanska Otomo – ég átti afmæli þennan dag í París – gerði ég mér engar sérstakar vonir um að þetta væri eitthvað spennandi, en byrjaði þó strax að hlakka til að koma heim til Íslands; ég gat eiginlega ekki beðið eftir að heyra hvernig meðferð Dolphy fengi hjá hinni alþjóðlegu hljómsveit sem ég las um á bakhlið albúmsins. Ég hefði auðvitað getað tékkað á þessu í tölvunni minni á hótelinu, en ákvað að bíða með það; ég vildi láta þetta hljóma fyrst á plötuspilaranum heima. Svona lítur hljómsveitin út:

Otomo Yoshihide: guitar, conductor (4); Axel Doerner: trumpet, slide trumpet; Aoki Taisei: trombone, bamboo flute; Tsugami Kenta: alto sax, soprano sax; Okura Masahiko: alto sax & tubes (1,3,5); Alfred Harth: tenor sax, bass clarinet, trumpet, misc; Mats Gustafsson: baritone sax; Ishikawa Ko: sho (2,4,5); Sachiko M: sinewaves, contact mic; Nakamura Toshimaru: no-imput mixing board (5); Unami Taku: computer (1,5); Takara Kumiko: vibraphone; Cor Fuhler: piano; Mizutani Hiroaki: bass; Yoshigaki Yasuhiro: drums, percussion, trumpet.

Ég væri varla að mæla með þessu ef mér fyndist ekkert um þetta. Þessi plata er einfaldlega stórkostleg. Ég ætla líka að mæla með því að hlusta á hina upprunalegu “Out to Lunch!” áður en kveikt er á þessari, því útgáfa Otomos og félaga fer í vægast sagt óvæntar og spennandi áttir, ekki bara í einhvern skringilegan hádegisverð, hvort sem er í New York eða Tókíó, heldur langleiðina út í geim. 

Hér er “Out to Lunch!” með upphrópunarmerkinu:

Og án upphrópunarmerkisins (sem þó væri fyllilega verðskuldað):

Af því ég sagði í yfirskriftinni að þetta yrði bara örstutt ábending ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þessa stórmerkilegu plötu, en bendi þess í stað á tvær umsagnir á netinu sem mér finnst gera henni mjög góð skil, miklu betri en ég er fær um. Allavega: „Ég mæli með þessu, doktor.“

https://www.allaboutjazz.com/plays-eric-dolphys-out-to-lunch-otomo-yoshihide-doubt-music-review-by-andrey-henkin

https://rokkupanku.wordpress.com/2018/04/05/review-out-to-lunch/

– Bragi Ólafsson

One thought on “Örstutt ábending til doktorsins

Leave a comment