Á fóninum: Jitterbug Waltz

Í kvöld, 7. maí, eru tónleikar á Björtuloftum í Hörpu, þar sem flutt verða verk eftir hinn dásamlega Eric Dolphy. Þetta var kynnt í Víðsjá í gær (þar frétti ég af þessu), og hugsanlegt (en ekki meira en hugsanlegt) að Pétur Grétarsson hafi verið með hugann við þessa tónleika fyrir nokkrum dögum þegar hann setti á fón Ríkisútvarpsins Jitterbug Waltz eftir Fats Waller. Útgáfan sem hann spilaði af þessu glaðhlakkalega en um leið dularfulla lagi var að vísu ekki með Eric Dolphy – ég man ekki hverjir voru að verki – en lag Fats Waller þekki ég sjálfur fyrir tilstilli Erics Dolphy, sem hljóðritaði það með Woody Shaw á trompett, Bobby Hutcherson á víbrafón, Eddie Kahn á bassa, og J. C. Moses á trommur. Dolphy spilar á þverflautu í laginu, ekki saxófón eða bassaklarinett; og það var einmitt hljómurinn úr flautunni sem gerði það að verkum að ég notaði þessa músík í útvarpsleikrit fyrir sirka tuttugu árum – saxófónn eða klarinett hefði ekki hentað sem tónumgjörð fyrir aðalpersónu leikritsins.

Auðvitað ætti ég að spila eitthvert af verkum Dolphys hér „á fóninum“, en er líklega búinn með minn skammt af honum hér á Ráðlögðum í bili, auk þess að það er góð tilhugsun að eiga inni að spila eitthvað eftir þennan mann, sem var einn af sérkennilegri og frumlegri karakterum jazzsögunnar (fyrir utan að hafa verið „góður“ karakter í augum samstarfsmanna hans á sinni stuttu ævi).

Þeir sem taka fyrir Eric Dolphy í kvöld á Björtuloftum eru Eiríkur Orri Ólafsson, trompett; Sölvi Kolbeinsson, saxófónn og klarinett; Daníel Friðrik Böðvarsson, gítar; Birgir Steinn Theodórsson, bassi, og Matthías Hemstock, slagverk. Sem sagt ekkert píanó að trufla flæðið eða hamra ofan á „undirtextann“ – sem er vel í anda Dolphys. Ég er allavega kominn með miða.

– Bragi Ólafsson

2 thoughts on “Á fóninum: Jitterbug Waltz

    • Ég kom gagnrýni minni reyndar áleiðis í tölvuskeyti til viðkomandi, sagði honum að píanólausir Eric Dolphy tónleikar kölluðu í kjölfarið á algerlega lúðralausa Mal Waldron tónleika. Þannig að þú sérð að það er rekin hörð ritstjórnarstefna hér á síðunni, þótt hún sé kannski passív-agressív og fari að mestu fram bakvið tjöldin. -Hrafnhildur

      Like

Leave a reply to Anonymous Cancel reply