Dave Douglas: Freak In

Hvítasunnudagur. Heilagur andi (yfir lærisveinunum) og allt það. Eins gott að hafa það á hreinu. Og auðvitað kallast þetta allt, það er að segja heilagur andi og lærisveinar, á við ýmislegt í jazztónlist. Ég geri mér vel grein fyrir því að ég hafði lofað framhaldsfærslu um Gil Evans, um eitthvað „skrítið“ í tengslum við plötu GE sem ég fjallaði um í apríl síðastliðnum, en nú hefur annað skrítið gerst varðandi þá plötu – kannski vegna þess að í dag minnumst við the holy ghost, eins og draugurinn kallast upp á ensku – nefnilega það að platan er horfin af heimili mínu. Ég ætlaði aldeilis að efna loforð mitt, nú þegar ég hef hálftíma lausan á þessum frídegi, og tala um hið „skrítna“ sem tengist plötu Gil Evans, en vegna þess að platan er allt í einu hvergi sjáanleg, er einhvern veginn úr mér allur vindur þegar ég stend frammi fyrir verkefninu – mér finnst ég þurfa að hafa hinn fýsíska grip í höndunum, það er að segja vínilplötuna, á meðan ég geri þessu skil. Þannig að þetta verður að bíða enn um stund. Og bara vonandi að platan komi í leitirnar. Þetta er reyndar óskiljanlegt. Ég er búinn að fara í gegnum alla kilina í plötuskápnum, leita í öðrum herbergjum á heimilinu, en allt kemur fyrir ekki: platan með Gil Evans sést ekki. Og hvað er þá til ráða? Ég get ekki látið færsluna enda svona í lausu lofti (jafnvel þótt the holy ghost sé ekki mjög efnislegt fyrirbæri, og þess vegna ætti manni að leyfast að vera á andlegum, loftkenndum nótum). Það fyrsta sem kemur upp í hugann (til að deila „á fóninum“) er auðvitað John Coltrane, þá helst eitthvað undir lok upptökuferils hans – og ævi. En svo fer ég að hugsa. Á maður ekki einmitt að spila eitthvað sem er á skjön við „anda“ þessa dags? Og hafa það stutt. Helst að láta vera að fylgja þessu úr hlaði með einhverjum orðum. Ég reyni að finna lag sem kallast Hot Club of 13th Street (2.12 mínútur), með trompettleikaranum Dave Douglas, en það lag vill ekki birtast á þeirri veitu sem ég notast við, þannig að ég spila bara fyrsta lagið af þessari plötu, Freak In – titillagið. Það er ekki mikið lengra, bara 3.47 mínútur. Og svo dásamlega vill til að í hljómsveitinni eru Joey Baron og Marc Ribot, sem ég hef áður minnst á hér á Jazzskammtinum.

– Bragi Ólafsson

One thought on “Dave Douglas: Freak In

Leave a comment