Brad Mehldau: Ride into the Sun

Um síðustu helgi kom út ný plata Brad Mehldau, Ride into the Sun, hjá plötuútgáfunni Nonesuch Records. Platan samanstendur að miklu leyti af lögum bandaríska söngvarans, gítarleikarans og lagahöfundarins Elliott Smith sem var áhrifamikill indí-lagahöfundur á tíunda áratugnum og yfir aldamótin. Mehldau er skrifaður fyrir fjórum laganna sem eru að hans sögn innblásin af tónlist Smith.

Leiðir þeirra Smith og Mehldau, sem eru fæddir 1969 og 1970, sköruðust í Los Angeles eftir að sá síðarnefndi flutti þangað árið 1996. Þar hittust þeir til dæmis í þessum afslappaða spjallþætti Jon Brion, sameiginlegs vinar og pródúsents þeirra beggja. Einhver Youtube-notandi var svo vinsamlegur að kópera þáttinn af VHS-spólu:

Elliott Smith hafði fleiri djöfla í eftirdragi en meðalmaðurinn og hann lést árið 2003, aðeins 34 ára gamall. Áskoranirnar sem hann glímdi við endurspeglast ljóslega í lagasmíðunum og ekki síður flutningi hans á eigin lögum. Undir kraumar innri barátta og textarnir lýsa einmanaleika, erfiðum samskiptum og fíkn – viðfangsefnum sem Mehldau var ekki alls ókunnugur þegar hann yfirgaf New York árið 1996 til að hefja nýtt líf á vesturströndinni.

Elliott Smith og Brad Mehldau störfuðu ekki saman, fyrir utan einstaka upptroðslur á klúbbnum Largo í Los Angeles, þar sem fyrrnefndur Jon Brion stýrði dagskránni á föstudagskvöldum. En samstarf getur auðvitað teygst yfir tíma og rúm. Ég ímynda mér að Ride into the Sun hefði ekki valdið teljandi listrænum ágreiningi milli þeirra, en hvað veit ég um það? Á köflum eru útsetningarnar í anda Smith, sérstaklega í þeim lögum sem eru sungin af Daniel Rossen og Chris Thile. Annars staðar er píanóið í forgrunni og meira rými fyrir spunamál Mehldau. Oft fléttast píanóið saman við strengi og blásturshljóðfæri og þar hverfur Mehldau að nokkru leyti inn í heiminn sem hann skapaði á plötunni Highway Rider frá 2010, sem er ein af mínum uppáhaldsplötum – þar er eitt lagið, Sky Turning Grey, tileinkað Elliott Smith:

Ég ætla að láta nægja að spila eitt lag af Ride into the Sun, lagið Everything Means Nothing to Me. Þetta er aðeins framúrstefnulegri útsetning en hinar, ekki síst þegar laglínan – sem er nánast óbærilega falleg – brýst út úr innhverfri melankólíu og inn í einhvers konar klezmer-fögnuð þar sem stemmningin slær mann út af laginu; hún er hrífandi og hressileg en um leið þvinguð og full af trega. Kannski langsótt, en mér finnst eins og The Peacocks eftir Jimmy Rowles flögri þarna um, rétt áður en fullreynt er með fögnuðinn.

Í lokin flýtur hér með upprunalega útgáfan, hún er einfaldlega of góð til að gera það ekki.

– Hrafnhildur Bragadóttir

Leave a comment