Bill Evans. Sextett, tríó og sóló.

Það þarf ekki að taka fram að Kind of Blue er ein allra besta jazzplata sem gerð hefur verið. (Hér gæti maður freistast til að segja eitthvað á borð við: “Það þarf ekki að taka fram að Kind of Blue er ein allra besta jazzplata sem gerð hefur verið, svo að ég læt það ógert.” En ég ætla að sleppa því.)

Kind of Blue var tekin upp í Columbia stúdíóinu í New York vorið 1959. Miles hafði þá nýlega tekið að fikra sig úr bebopinu yfir í svokallaðan “modal jazz”, sem byggist vanalega á færri og langlífari hljómum en bebopið og leggur meiri áherslu á sándið en ör hljómaskipti og melódíur. Þetta hentaði spilurunum í sextetti Miles vel enda voru þeir í svipuðum pælingum, sérstaklega Bill Evans og John Coltrane.

Miles Davis er skrifaður fyrir Blue in Green, eins og öðrum lögum á plötunni. Frá upphafi voru þó á kreiki grunsemdir um að Bill Evans hefði að minnsta kosti haft puttana í smíði lagsins, ef ekki samið það einn. Bill staðfesti þennan orðróm síðar, meðal annars í viðtalsþætti Marian McPartland, Piano Jazz, árið 1979. Þar sagðist hann, aðspurður, vera höfundur lagsins, en að Miles Davis hefði skrifað sig fyrir því og hirt af því höfundarlaunin alla tíð. Það mátti heyra á Bill að þetta færi í taugarnar á honum, þótt hann segðist ekki líta á þetta sem stórmál. Hann sagðist einfaldlega ekki hafa áhuga á að höfða mál gegn Miles, sem sýnir líklega að hann hefur talið tilgangslaust að reyna að semja við hann. Í ævisögu Peter Pettinger um Bill Evans, How My Heart Sings, sem kom út 1998, kemur reyndar fram að eitt sinn hafi Bill lagt til við Miles að þeir skiptu höfundarlaununum af laginu á milli sín. Miles brást við þeirri umleitan með því að skrifa ávísun á staðnum, upp á 25 dollara.

Nóg um peninga. Hér er tríóútgáfa af Blue in Green, sem var tekin upp í lok ársins 1959, sama ár og Kind of Blue. Þarna hafði Bill Evans sagt skilið við Miles Davis og var búinn að stofna tríó tríóanna, sem áður er getið hér á blogginu, með Scott LaFaro og Paul Motian.

Ég skrifa ef til vill betur síðar um viðtalsþátt píanóleikarans Marian McPartland sem ég nefndi að ofan, Piano Jazz, en það er afar merkilegur þáttur sem var á dagskrá NPR frá 1978 til 2011. Í bili birti ég frábært viðtal hennar við Bill Evans, þar sem Bill kemur víða við, lýsir því með tóndæmum hvernig stíllinn hans þróaðist og spilar nokkur lög, ýmist sóló eða með Marian. Eitt af merkilegri brotum úr viðtalinu er þegar Marian spyr Bill hvort hann kunni betur við að spila einn eða með tríói. Svarið: “Well, I suppose I prefer solo, but I don’t have the dimension to really be a solo pianist… entirely. You know, I just haven’t expanded that part of my playing that much.”

Bill Evans lést árið 1980, ári eftir viðtalsþáttinn með Marian McPartland. Látum fylgja í lokin lagið A Time For Love, af fyrsta sólódiski hans, Alone, sem hann tók upp árið 1968, bara til að heyra hvað hann á við þegar hann segist vera frekar takmarkaður sólóspilari. (…) Eins mikið og ég held upp á margar af tríóupptökum Bill Evans, þá getur maður ekki varist þeirri hugsun að hann hefði átt að gefa sér aðeins meiri tíma, á góðu árunum sínum, í að spila sóló – sérstaklega úr því að það var það sem hann kaus helst.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s