– Gestablogg – Arthur Blythe: Lenox Avenue Breakdown

Ef ég væri neyddur til að taka saman fimm eða tíu – eða sjö – uppáhalds jazzplötur, þá væri Lenox Avenue Breakdown með Arthur Blythe alveg ábyggilega ein af þeim. (Allt í einu finnst mér þetta svo spennandi verkefni að mér finnst líklegra en ekki að ég muni ráðast í það fyrr en síðar.) Ég eignaðist þessa plötu átján eða nítján ára, þá var hún tiltölulega nýkomin út; ætli ég hafi ekki keypt hana í Fálkanum eða á útsölu í Faco. Jú, það var held ég örugglega í Faco, ofarlega við Laugaveginn. Og plötuumslagið (sem ég á ekki lengur; núna á ég plötuna á disk) var gatað í einu horninu, eins og alltaf var gert við útsöluplötur. Það sem fyrst heillaði mig við þessa plötu var gítarleikur James Blood Ulmer, og túbuleikur Bobs Stewart. En ekki síst ákafur, og oft nístandi, altsaxófónleikur Arthurs Blythe. Tónsmíðar hans eru líka svakalega fínar, ekki bara einhver málamyndastef, eins og svo oft í jazzi, ekki síst nútímajazzi. Svo er Jack DeJohnette á trommur – það er alltaf gaman – og hinn stórskemmtilegi Cecil McBee á bassa. Yfirleitt hef ég ekki mikla þolinmæði fyrir flautu í jazzmúsík (jafnvel þótt snillingurinn Eric Dolphy hafi notað hana óspart á sínum plötum), en á Lenox Avenue Breakdown fellur flautuleikur James Newton einhvern veginn alveg eðlilega inn í heildina; hann hljómar eins og eitthvert æðra yfirvald hafi skipað svo fyrir að þarna skyldi vera flauta, að öðrum kosti myndi tónlistin ekki hanga saman. Nú finn ég að ég er um það bil að fara að missa mig út í einhverjar óþarfa málalengingar um þetta frábæra fjögurra laga (og marglaga) verk Arthurs Blythe, en það þarf ekki að segja meira. Þetta hangir allt saman. Nógu erfitt er að ákveða hvaða lag maður lætur fylgja færslunni. Fyrir valinu verður lokalagið, Odessa. Gítarsóló James Blood Ulmer er svo rífandi fallegt að maður fer bara að gráta.

Bragi Ólafsson, gestaráðleggjari

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s