Vikunni verður slúttað með tveimur Brad Mehldau upptökum, My Romance af hinum stórkostlega debút diski hans, Introducing Brad Mehldau, frá 1995, og svo Don’t be Sad af Highway Rider frá 2010. Síðari diskinum kynntist ég í desember í hittifyrra. Þá var ég að naga mig í handarbökin yfir að hafa sleppt tónleikum með Brad Mehldau, af því að ég var að fara í próf í þjóðarétti morguninn eftir. Óskiljanleg ákvörðun, eftir á að hyggja, að taka þjóðaréttinn, sem aldrei gefur skýr svör við neinu, fram yfir Brad Mehldau, sem spilar hverja einustu nótu eins og hún á að vera.