Brad Mehldau

Ég hef verið einlægur aðdáandi Brad Mehldau frá því að ég heyrði fyrstu tónana af disknum Introducing Brad Mehldau hljóma fyrir hérumbil fimmtán árum. Hann er einn af þessum jazzpíanistum sem hafa svo einkennandi stíl að maður þekkir þá af fáeinum nótum eða hljómum. Næstum eins og hann hafi enduruppgötvað jazz, eða sé bara að spila eitthvað allt annað en jazz. Eins og segir í The Penguin Guide to Jazz (í lauslegri þýðingu): “…það er líkt og hann sé meðvitaður um jazzhefðina en algerlega frjáls undan oki hennar”. Precisely.

Hér eru nokkrar upptökur. Fyrst Prelude to a Kiss eftir Duke Ellington, af Introducing Brad Mehldau frá 1995. Það er merkilega ljúfsárt í meðförum Mehldau-tríósins, miðað við hvað spilamennskan er í raun blátt áfram og lítið sentimental. Hér eru öll helstu einkennin: allt flæðir fullkomlega áreynslulaust eins og lækjarspræna en um leið svo hárfínt, agað og útpælt, áhugavert samtal milli radda og ólgandi dýnamík – hann er ólíkt mörgum jazzpíanistum ekki spar á veiku nóturnar.

Mehldau leitar talsvert út fyrir hefðbundinn jazz og er stundum poppmegin við línuna (ekki biðja mig að útskýra hvaða lína þetta er, né hvað hefðbundinn jazz er). Jú, það kemur fyrir að mér finnst hann “helt ud af skoven”, Radiohead og The Verve koma þar helst upp í hugann (og nú hrista örugglega einhverjir samaðdáendur mínir hausinn). En svo eru önnur lög, eins og Blackbird, þar sem mér finnst hann frómt frá sagt betri en originalinn (nú hristir annar hópur hausinn).  Hlustið bara:

Annars er kveikjan að þessari færslu sú að á föstudaginn sáum við Ragnar Brad Mehldau og tríó á Scullers jazzklúbbnum í Boston. Tríóið var skipað sömu hljóðfæraleikurum og í upptökunni af Samba de Amor hér fyrir neðan, Larry Grenadier á bassa og Jeff Ballard á trommur. Grenadier hefur fylgt Mehldau frá upphafi en Ballard frá 2005, svo að þetta er ansi vel smurð vél. Firnagott tríó.

Eftir þessa lofræðu búast lesendur vafalaust við því að ég reki smiðshöggið á færsluna með fimm stjörnu dómi um tónleikana. Því er öðru nær; þetta voru mikil vonbrigði heilt á litið. Tríóið lék sex lög, fjögur eftir Mehldau sjálfan og tvo standarda eftir annars vegar Cole Porter (upptaka af honum hér fyrir neðan) og hins vegar Sonny Rollins. Að sjálfsögðu var upplifun að sjá Mehldau með eigin augum, í eigin persónu, lifandi (er ekkert gott íslenskt orð til yfir live?), en það skyggði á ánægjuna að það var eiginlega eins og tríóið væri að hespa þessu af; þeir léku lögin með sáralitlum kynningum, svo sá undir iljarnar á þeim um leið um leið og klappið hófst eftir síðasta lagið. Þeir létu ekki svo lítið að koma aftur fram til að hneigja sig og gestirnir horfðu undrandi hver á annan þegar ljósin kviknuðu, gott ef það var ekki baulað ofurlítið.

Ekki veit ég hvort þetta er daglegt brauð hjá tríóinu en mér fannst þetta afleit framkoma við áhorfendur. Reyndar mætti hér hafa ýmis miður falleg orð um Scullers klúbbinn, sem er – eða var réttara sagt – einn helsti jazzklúbbur borgarinnar, en það er nóg komið af neikvæðni í bili. Svo er ég líka ekkert svo fúl út í Brad Mehldau lengur eftir að ég rakst á hann á stéttinni fyrir utan Scullers, þar sem hann stóð í aprílkuldanum og reykti sígarettu, og hann gaf sér tíma til að stilla sér upp fyrir myndatöku með nokkrum japönskum ungmeyjum og mér.

Image may contain: 2 people, including Hrafnhildur Bragadóttir, people smiling

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s