Villti jazzmaðurinn

Ég hef bara einu sinni beðið um óskalag í útvarpsþætti. Það var í þættinum Sjónmál, þætti um samfélagsmál sem var einu sinni á dagskrá Rásar 1 eftir hádegisfréttirnar. Ég hafði sent stuttan pistil inn í þáttinn frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum þar sem ég bjó þá – pistillinn fjallaði um umhverfisglæpi – og allt í einu greip mig löngun til að fá að hafa örlítið meira um það að segja hvað ómaði úr viðtækjunum á íslensku biðstofunum og elliheimilunum og í gróðurhúsunum og sendibílunum í Ártúnsbrekkunni þann daginn. Svo að ég sendi þáttastjórnendunum póst og bað um að pistlinum yrði fylgt eftir með The Pink Panther Theme eftir Mancini, af plötunni The Wildman Returns með píanóleikaranum Bobby Enriquez. Mér til mikillar ánægju urðu þeir við þeirri bón.

Bobby Enriquez var fæddur á Filippseyjum árið 1943 og lést árið 1996. Bakgrunnur hans á líklega nákvæmlega ekkert sammerkt með bakgrunni tónlistarmannanna sem hann síðar starfaði með; hann kenndi sjálfum sér að spila á píanó og fleiri hljóðfæri og þegar hann var 11 ára laumaði hann sér út í nóttina til að spila á klúbbunum í fjallaþorpinu sem hann ólst upp í – til þess þurfti hann að klifra niður kókoshnetutré. Hann er kannski ekki ýkja þekktur jazzpíanóleikari, en spilaði þó með nokkrum af stóru nöfnunum á 9. og 10. áratugnum, t.d. Dizzy Gillespie, Eddie Gomez, Ray Brown og Al Foster (þeir tveir síðarnefndu spila í upptökunni að ofan). Bobby hlaut snemma viðurnefnið the Wildman of Jazz, sem útskýrir sig líklega sjálft hverjum þeim sem heyrir eða sér hann spila. Hann var ekkert að sýsla við fínlegu blæbrigðin; styrkur hans lá í kraftinum og hraðanum og hugmyndaauðginni, eins og þessi ódagsetta upptaka frá Village Vanguard klúbbnum í New York sýnir vel (sóló Bobby byrjar á 4:00):

Ég mæli með stórskemmtilegu viðtali sem píanóleikarinn og útvarpsdrottningin Marian McPartland tók við Bobby Enriquez árið 1990, í hinum frábæra þætti hennar Piano Jazz, sem gekk áratugum saman á NPR. Þátturinn er klukkutími að lengd, smellpassar fyrir heilsubótargöngutúr um auðar götur í samkomubanni.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s