LOU OG DON

Borist hefur nýtt bréf frá Braga Ólafssyni:

Auðvitað er það frekt af einum einstaklingi, eins og gerðist um daginn, að banka upp á – eða tromma – með 50 jazztitla á jafn lágstemmdu bloggi sem Ráðlagður er. Að vísu komu titlarnir í nokkrum skömmtum, og ég lét að jafnaði eina viku líða á milli sendinga. En nú var ég að fatta eitt. Í síðustu færslu minni var einn titillinn kassi sem innihélt heila 6 diska (Ornette Coleman: Beauty is a Rare Thing), þannig að í raun á ég inni 5 titla, sem ég hlýt þá að gera spreðað hér að vild. 6 mínus 1 = 5. Og þegar ég fór að hugsa um hvaða 5 „bónustitla“ ég gæti valið kom strax upp í hugann einn fjögurra diska kassi sem ég á í safni mínu (sem kemur í ljós síðar hver verður) – og aftur datt ég í lukkupottinn, því nú var ég skyndilega kominn með átta spil á hendi: 6 plús 4, mínus 1 + 1: 8. (Eins og allir sjá liggur beint við að „stökkva á gæsina“ og draga út úr skápnum eitthvert þriggja diska box – og vera þar með kominn með 10 titla til að „hafa í handraðanum“ – en hér ætla ég að „kippa í tauminn“: ég er ekki algjör. 8 er nóg.)

Einn lesandi Ráðlagðs, sem sjálfur heldur úti sínu eigin músíkbloggi, var eitthvað að rifja upp þá eitrun sem ég varð fyrir á miðri vegferð minni í gegnum titlana 50. Þetta hafði eitthvað með hljómsveitina Kraftwerk að gera, að ég hefði lesið bók um Kraftwerk, og hlustað á tónlist þeirra – og það er líka alveg rétt: ég náði mér af jazzeitruninni með því að leita í tónlist sem var eins langt í burtu frá jazz og hugsast gat. Svona sirka. En nú er aftur komið babb í bátinn. Ég hef sýkst af annars konar kvilla, ekki ósvipuðum þeim sem jazzhlustunin olli. Ég hef nefnilega verið að lesa nýlega ævisögu Lou Reed, og líka verið að hlusta – á Lou Reed. Soldið mikið. Ég gæti jafnvel alveg gerst hátíðlegur, og lýst því yfir að ég hafi enduruppgötvað Lou Reed. En auðvitað er Lou Reed ekki jazztónlistarmaður – ekki strangt til tekið – þannig að hinn nýtilkomni kvilli er ekki jazzeitrun. Að vísu hafði Lou Reed mjög sterka tengingu við jazz; samkvæmt ævisögunni á hann að hafa lýst því yfir að uppáhaldsplatan sín væri Change of the Century með Ornette Coleman; og þar er einmitt komin ástæðan fyrir vali mínu á fyrsta „bónustitlinum“ af átta. Þetta hefur nefnilega með Don Cherry að gera, þann sem spilar á vasatrompett á plötu Ornette Coleman. Og með því að draga Don Cherry inn í þetta, þá er ekki útilokað að ég losni við eitrunina sem ég varð fyrir af lestri ævisögunnar – og tengdri hlustun. Ég ætla sem sagt að velja lag með Don Cherry og Lou Reed.

All through the night.

Lou og Don kynntust á flugvellinum í Los Angeles 1976, þar sem þeir voru að fara í sitthvora áttina: Don aftur til New York, en Lou inn í Los Angeles; og þessi óvænti fundur þeirra (sem var að frumkvæði Lou) varð til þess að Don frestaði fluginu sínu, og varð eftir í Los Angeles með Lou – og spilaði með honum á tónleikum í Anaheim. Kunningsskapur þeirra leiddi síðan til þess að Don Cherry tók þátt í gerð plötu Lou, The Bells, árið 1979, bæði sem trompettleikari og tónsmiður. Í mínum huga er þetta ein af skemmtilegri plötum Lou Reed, eða áhugaverðari / forvitnilegri – hvað sem er. Líklega eru fáar af hans plötum mjög góðar í heild, og þessi ábyggilega ekki heldur, en það eru nógu mörg góð lög á henni til að gera hana eftirminnilega, sérstaklega ef maður hefur átt plötuna lengi, og sem unglingur ekki alveg skilið hvað var í gangi (án þess að ég ætli að fullyrða að ég skilji það eitthvað frekar núna).

Ég geri mér grein fyrir því að Ráðlagður jazzskammtur er ritstýrt blogg, eins og ég held að Þórdís Gísladóttir hafi undirstrikað í færslu um daginn. Ég vona samt að ég fái ekki lófa ritstýringarinnar upp á móti mér með því að velja svona músík. Auðvitað er ekki nóg að einhver „viðurkenndur“ jazzmúsíkant pípi eitthvað á hornið sitt í músík sem að öðru leyti er ekki jazz – eins og t.d. ef John Coltrane hefði blásið inn á einhverjar upptökur af finnskum tangó – en ég er alveg sannfærður um að lag dagsins á Ráðlögðum er jazz, frekar en rokk eða popp. Ef ekki, þá verð ég bara að éta hattinn minn, eða vitna í texta lagsins: The drinks are on the house – they´re on me …

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s