Bill Evans tríóið í Finnlandi

Ein af perlum internetsins er þessi fimmtíu ára gamla upptaka af heimsókn Bill Evans tríósins á heimili finnska tónskáldsins Ilkka Kuusisto í Helsinki. (Ilkka er faðir fiðluleikarans Pekka Kuusisto sem margoft hefur spilað hér á landi.) Tríóið, sem auk Bill samanstóð á þessum árum af bassaleikaranum Eddie Gomez og trommaranum Marty Morell, var á tónleikaferð um Evrópu vorið 1970. Og fann sig allt í einu í þessu settlega kaffiboði, innan um norræna hönnun, með milljón dollara útsýni yfir Finnlandsflóa. Bill hefur að mestu orðið fyrir tríóinu og er hlýlegur og örlátur á orðin á ameríska vísu. Finnsku gestirnir – sem mér skilst að hafi komið úr finnska jazzgeiranum – horfa vingjarnlega en feimnislega á aðkomumennina og mæla fátt, fyrir utan spyrilinn á vegum finnska ríkisútvarpsins. Kaffi er drukkið úr litlum bollum, gos úr glerflöskum og bakkelsi hefur verið raðað af kostgæfni á ferhyrndan viðarbakka. Andrúmsloftið er kannski ekki óþægilegt (fyrir utan einstaka augnablik), en menningarmunurinn er beinlínis áþreifanlegur; þarna mætast tvær mjög ólíkar tegundir af kurteisi. Þegar tríóið hefur leikið þrjú lög (með kaffi og bakkelsi á milli) og er vísað til sætis að nýju fiktar Bill í jakkaboðungnum og stamar eitthvað um að nú þurfi þeir eiginlega að drífa sig. En Ilkka og einn gestanna hálfpartinn senda hann aftur í sófann með klaufalegum handahreyfingum. Bill býr sig undir að setjast aftur, þvert á það sem hann ætlaði sér, og þar endar upptakan.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s