Á morgun, 30. apríl, er alþjóðlegi jazzdagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim, þar á meðal hér á Íslandi. Jazzhátíð Reykjavíkur, Jazzklúbburinn Múlinn og Jazzdeild FÍH blása af því tilefni til jazzveislu sem verður streymt á netinu frá kl. 16 og fram á kvöld. Dagskrána er að finna hér. Það er gaman að segja frá því að Ráðlagður jazzskammtur verður með fulltrúa á staðnum í útsendingu Rásar 1 og ruv.is kl. 16, þar sem Kristjana Stefánsdóttir og kvartett verða í beinni frá Hörpu.
Annað, ekki síður ánægjulegt, er að hér er í smíðum vefsíða, icelandjazz.is, sem mér sýnist eiga að verða upplýsinga- og fréttaveita um alla jazztengda viðburði á Íslandi. Vefurinn er ekki tilbúinn, fyrir utan að þarna hefur verið laumað inn í skjóli nætur heildstæðu yfirliti yfir íslenskar jazzplötur gefnar út frá árinu 1938 til dagsins í dag! Yfirlitið var tekið saman af Vernharði Linnet, Jónatani Garðarssyni og Lönu Kolbrúnu Eddudóttur, með aðstoð frá Unnsteini Gíslasyni, sem vill svo skemmtilega til að er vinnufélagi minn.