Keith Jarrett 75 ára

Guðni Tómasson, dagskrárgerðarmaður á Rás 1, skrifar pistil dagsins:

Ég var staddur í München í Þýskalandi seint á síðasta ári, kom þangað reyndar óvart í tvígang og í bæði skiptin stefndi ég á að kaupa plötu með Keith Jarrett sem á eru upptökur af tónleikum sem hann hélt í borginni árið 2016. Í bæði skiptin greip ég í tómt og því fór að lokum svo að ég keypti plötuna bara í mínum ástkæru 12 tónum í Reykjavík. Það gerði ekkert til en dró samt aðeins úr stemningunni. Svona getur maður verið skrítinn þegar plötukaup eru annars vegar, ekki síst núna þegar maður er orðinn sparsamari og kannski útsjónarsamari með það hvað maður kaupir sér í föstu formi.

Ef ég hefði haldið mig fast við þetta á undanförnum árum væri ég ansi víðförull. Keith Jarrett hefur nefnilega verið út um allar þorpagrundir að spila árum saman og yfirleitt (sumir segja bara nánast alltaf hin seinni ár) hafa tæknimenn á vegum ECM útgáfufyrirtækisins verið búnir að stilla upp hljóðnemum fyrir tónleika hans. Kistur útgefandans Manfreds Eicher, stofnanda ECM, eru því ansi djúpar þegar kemur að leik Keiths Jarrett. Ætli sé ekki hægt að gefa upptökurnar út hægt og rólega næstu áratugi, mjólka kúna rækilega.

No photo description available.

Hluti af Keith Jarrett safni Guðna

Ekki það að mig vanti tilfinnanlega fleiri plötur með leik Jarretts. Þær á ég í tugatali. Í grófum dráttum eru þetta flokkarnir: sólóplötur (meiri hlutinn af tónleikum), tríóplötur (stúdíó og tónleikaplötur, flestar með Gary Peacock á bassa og Jack DeJohnette á trommur), kvartettarnir tveir frá áttunda áratugnum (sá ameríski og sá evrópski) og loks Jarrett sem klassískur flytjandi. Ætli það sé ekki best að kíkja lauslega á þetta allt saman, en fyrst aðeins um uppruna píanistans og þessa týpu sem maðurinn er.

Keith á þessum einu tónleikum

Þótt ég dái Jarrett sem flytjanda og starfi sem fjölmiðlamaður er ég ekkert svo viss um að ég væri æstur í að hitta hann til að taka við hann viðtal. Hann er frægur fyrir að vera erfiður í viðmóti. „Þú værir eflaust líka stundum pirraður ef Guð væri alltaf að spila í gegnum þig,“ sagði einn félagi minn um þetta á dögunum. Að fara á tónleika með Jarrett, sem ég hef bara gert einu sinni, getur líka tekið á taugarnar.

Skrítið kvöld

Minn konsert var í Brussel 13. nóvember 2015, píanistinn sat einn í ljóskeilu við flygilinn á sviðinu í Fagurlistamiðstöðinni þar í borg. Við flugum út sérstaklega til að fara á tónleikana, eftirvæntingin ansi mikil. Ég naut tónleikanna í botn en þeir voru líka ansi stressandi. Þegar Keith ætlaði að hefja leik fljótlega eftir að tónleikarnir hófust tók einhver jólasveinn í salnum mynd á símann sinn með flassi! Ég bjóst alveg eins við því að tónleikarnir væru þar með búnir, maður hefur heyrt þannig sögur af Jarrett. Okkar maður gekk hins vegar rólegur yfir að míkrafóninum og sagði ákveðið en yfirvegað: „If I see another flash tonight I swear I will quit this job!“

Ég held ég hafi aldrei einbeitt mér jafn mikið að nokkurri tónlist og á þessum tónleikum og Jarrett sveik mig ekki. Hárin risu, kerfið fór í eins konar „overload“ á tímabili og tárin streymdu fram í uppklappslögunum. Maður heyrði að þar vitnaði hann í hitt og þetta, sígild djasslög og klassík, en allt rann upp úr honum. Sem uppspretta hugmynda og tónlistar er maðurinn hreint ótrúlegur þó vissulega taki sólótónleikarnir hans stundum nokkuð á og maður sé ekki alltaf í skapi fyrir streymið frá Guði.

Kvöldið í Brussel var dásamlegt en líka skrítið. Þegar við komum heim á hótelið um kvöldið lásum við á netinu að hryðjuverkamenn hefðu gert árásir á veitingastaði í París fyrr um kvöldið. Seinna kom í ljós að þeir komu úr úthverfi Brussel. Ég bíð enn eftir að tónleikarnir komi út hjá ECM. Kannski gera þeir það ekki, vegna dagsetningarinnar.

Upphafið

Keith Jarrett er fæddur áttunda maí 1945 og þessi orð eru því skrifuð í tilefni 75 ára afmælisins. Hann er frá Allentown í Pennsylvaníu, vitanlega undrabarn í tónlist sem hvu vera með fullkomna tónheyrn, einhvern veginn er ég ekki hissa á því. Hann er alinn upp á klassík en djassinn fór að lauma sér inn í vitund hans fyrir alvöru í framhaldsskóla. Jarrett ákvað frekar að mennta sig í djassinum við Berklee í Boston en að þiggja boð um sígilda menntun hjá sjálfri Nadiu Boulanger í París. Hvernig tónlist við hefðum fengið þá frá manninum, veit sá sem allt veit.

Auðvitað vakti hann fljótt athygli fyrir leik sinn. Jarrett var einn af sendiboðum djassins í Jazz Messengers sveit Arts Blakey og svo rændi Miles Davis honum úr hljómsveit Charles Lloyd yfir í sitt band. Á þessum árum sagði maður ekki nei við Miles, hann var maðurinn með stóru m-i. Með Miles lék Jarrett til dæmis á Live-Evil plötunni frægu og á ýmsum tónleikaupptökum frá þessum tíma. Þetta eru hörðu árin hjá Miles, rafmagnaða heróínkeyrða efnið hans. Í ævisögu sinni segist Miles ekkert alltaf hafa verið hrifinn af hugmyndum Keiths, sá síðarnefndi hafi oft boðið honum upp á eitthvað sem Miles gaf merkimiðann „cute shit“. Víst er að Jarrett er oft lagrænn og rómantískur, en skjóttu mig Miles, ég er rómantíker. Og fyrst Miles leyfði Jarrett að vera með, þá var líklega nokkuð í hann spunnið.

Hljómsveitarstjórinn

En Jarrett var farinn að kveða sér hljóðs sem hljómsveitarstjóri nokkru áður en hann lék með Miles inn á plötu og sem slíkur var hann í fyrstu nokkuð hefðbundinn og passasamur djasspíanóleikari. Á fyrstu tríóplötunni sem hann gerði með trommuleikaranum Paul Motian og bassaleikaranum Charlie Haden (sem síðast vann með Jarrett á tveimur fallegum dúóplötum skömmu fyrir dauða sinn sem heita Jasmine og Last Dance) hljómar Jarrett undir áhrifum Bill Evans, þó svo að áhrif frá meiri byltingarmönnum djassins, eins og Ornette Coleman, komi líka fram. Titillagið af fyrstu plötunni er hressandi og þarna er Jarrett strax farinn að söngla með.

Já, einmitt, þetta með sönglið í honum. Það er rétt að segja það strax að ef þið meikið ekki sönglið þá er kannski betra að þið snúið ykkur að öðru. Ef þið getið hins vegar vanist því, bíða heilu heimarnir.

Hér er eitt lag af fyrstu tríóplötunni:

Risa ferill

Það er meira en að segja það að fara í gegnum feril Keiths Jarrett í krónólógískri röð og ég ætla ekki einu sinni að reyna það. En áður en ég sný mér að kvartettunum langar mig samt að nefna hér plötu frá árinu 1970 sem hann gerði með slagverksleikaranum Gary Burton og naut vinsælda á sínum tíma. Þetta er áhyggjulaus, dálítið „swinging seventies“ djass. Ágætis kokteil tónlist spiluð af tveimur fanta-færum hljóðfæraleikurum. Tökum til dæmis þetta hérna númer:

Strax í byrjun áttunda áratugarins hefst samstarf Jarretts og hins stórmerka ECM útgáfufyrirtækis (Edition of Contemporary Music) sem Manfred Eicher stofnaði ásamt félögum sínum 1969 og stýrir enn. Fyrirtækið er þekkt fyrir smekklega framsetningu og vandað val á listamönnum þó auðvitað sé maður ekki alltaf sammála öllu sem þar er gefið út. Meðfram starfi sínu með ECM gaf Jarrett út hjá Atlantic Records á fyrstu árunum, Impulse og reyndar fleiri fyrirtækjum, áður en hann kom einungis fram undir merkjum þýska fyrirtækisins.

Kvartettarnir

Ameríski kvartettinn svokallaði varð til þegar Jarrett bætti saxófónleikaranum Dewey Redman við þá Haden og Motian. Stundum voru sveitirnar reyndar stærri á þessum árum en þessir þrír voru í kjarnanum. Á þessum plötum leikur Jarrett oft á flautur, sópran saxófón og jafnvel slagverk. Tónlistin er oft á tíðum nokkuð víruð og óræð, undir sterkum austrænum eyðimerkuráhrifum. Nefna má The Survivors’ Suite sem dæmi, tveggja þátta himinskauta-ferð (Beginning og Conclusion) sem er dáleiðandi ef maður leyfir sér að fljóta með.

Hér má sjá eitt létt hæfilega vírað sessjón frá ameríska kvartettinum í Berlín 1970.

Skilin milli ameríska kvartettsins og þess evrópska eru ekkert hrein og klár. Það er ekki eins og Jarrett hafi skyndilega hætt með félögum sínum frá heimalandinu og leitað á önnur mið hinu megin hafsins, þetta blandast allt saman á tímabili. En evrópska (eða nánar tiltekið skandinavíska) samverkamenn fann hann í sænska bassaleikaranum Palle Danielsson og Norðmönnunum Jon Christensen á trommur og Jan Garbarek á saxófóna. Ég er á því að meistaraverk þessa ágæta hóps séu einkum stúdíóplatan Belonging (tekin upp í goðsagnakennda Regnbogastúdíóinu í Osló af Jan Erik Kongshaug) og tónleikaplöturnar Personal Mountains (sem ég held mikið upp á) og Nude Ants. Evrópski kvartettinn er þannig að maður heyrir hvað þeir höfðu það gaman þegar þeir voru að spila.

Það má norska útvarpið eiga að þessu náðu þeir í svarthvítu, vel gert!:

Sóló-Keith

En jafnframt, á meðan á þessu ameríska og evrópska samstarfi stóð, fór Jarrett að taka upp einleik sinn á píanó, einkum á tónleikum. Hreint vitundarflæði streymdi frá honum, flæði sem stundum hefur verið skrifað niður á nótur í kjölfarið. Frægasta og vinsælasta dæmið er að sjálfsögðu Kölnarkonsertinn svokallaði, sem tekinn var upp 1975 og seldist (og selst enn) í hvílíkum bílförmum að hann hafði einn og sér mikil áhrif á allt framhald, vöxt og viðgang ECM útgáfunnar. Guði sé lof fyrir Kölnarkonsertinn því hann hefur eflaust borgað fyrir margt annað gott á upphafsárunum á þeim bænum.

Kölnarkonsertinn er frábær leiðsla sem virðist hafa verið tekinn upp við erfiðar aðstæður. Sándið mjög sérstakt af því að píanóið þennan dag var eitthvað einkennilegt og það heyrist hlátur í áhorfendum alveg í blábyrjun. En útkoman er falleg og Jarrett virðist stundum á leið út úr sér. Konsertinn er í raun eiginlega hálfgert „spari“ hjá mér nú til dags, ég hlusta ekki svo oft á hann. En þegar ég hlusta þá er það heilög stund og auk þess er af nógu að taka þegar kemur að  sólóplötum Jarretts frá ýmsum tímabilum. Hér nefni ég nokkar góðar, allar eru plöturnar á ECM og til á streymisveitum (þó maður eigi auðvitað að eiga svona klassík):

Bremen og Lusanne 1973 – álíka leiðsla og í Köln og tveimur árum eldri

Bregenz og München 1981

Vínarkonsertinn 1982

La Scala 1997 – drama í óperuhúsinu og Over the Rainbow í uppklapp sem drepur mann

Carnegie Hall 2006

Sun Bear konsertarnir 1980 (sex diska safn úr borgum Japan)

Angels of Multitude – fjögurra diska sett með þessu væmna nafni frá borgum á Norður-Ítalíu 1996

Þetta eru aðeins örfáar af sóló-konsertplötunum og á morgun vil ég örugglega bæta við og breyta listanum, en mig langar að nefna eina plötu til viðbótar með sólópíanóleik Jarretts sem er nokkuð annars eðlis og heitir The Melody at Night with You. Hana gerði hann í heimastúdíóinu sínu árið 1998 og hún inniheldur bara þekktar ballöður en platan var í raun eins konar þerapía hans við síþreytu sem hrjáði hann lengi. Silkimjúk og falleg plata.

Hér er hann klappaður upp þrisvar í Tokyo árið 2002.

Og þetta gamla fallega dægurlag, Answer me eftir Gerhard Winkler og Fred Rauch, sendi ECM frá sér í tilefni 75 ára afmælisins á dögunum, upphitun fyrir útgáfu á næstu tónleikaupptöku.

Tríóið

Það var ECM-goðið Manfred Eicher sem fékk þá frábæru hugmynd að leiða saman Jarrett og bassaleikarann Gary Peacock (sem var 85 ára bara fyrir örfáum dögum) og trommarann Jack DeJohnette. Guði sé lof segir maður bara því að þar með varð til eitthvert merkasta og besta djasstríó sögunnar. Tríó sem ég asnaðist aldrei til að sjá á tónleikum, en það er annað mál. Þremenningarnir eru yfirleitt bara kallaðir standarda-tríóið enda uppistaðan af efninu þeirra úr söngbókinni amerísku og drjúgu. Inn á milli koma síðan lög og jafnvel heilar plötur þar sem Jarrett gaf út sitt efni og tók þá upp í stúdíói.

Hér erum við að tala um heila glás af góðum plötum, þar sem fáguð, falleg og kraftmikil spilamennska þessara höfðingja fær að njóta sín. Ég nefni aðeins eitthvað gott:

Standards Vol. 1 og 2. – Tvær beisik, traustar standardaplötur frá fyrstu árunum

Still Live – tveggja diska þétt sett þegar þeir voru upp á sitt besta

At the Deer Head Inn – Ein af mínum uppáhalds tríóplötum, en hér leysir Paul Motian af á trommur

Bye Bye Blackbird – Stúdíóplata tileinkuð Miles Davis

Changeless – frjálsar tónsmíðar Jarretts teknar af nokkrum tónleikum og skeytt saman í eitt konsept

After The Fall – plata sem skrásetur endurkomu Jarretts með tríóinu eftir að hann náði sér upp úr síþreytunni áðurnefndu

Hér gæti ég haldið endalaust áfram … lang best að sjá þá bara spila:

Klassíski Keith

Nei, Keith Jarrett er ekkert endilega besti klassíski píanóleikari í heimi. Víkingur Heiðar og fjölmargir píanistar spila Bach betur en hann, en margt af því sem hann gerir á þessu sviði er athygli vert.

Og reyndar tekur Jarrett upp fjölbreytta tónlist úr heimili „klassíkurinnar“. Bach hefur hann tekið upp bæði á píanó og sembal. Hann hefur leikið verk bandarískra tónskálda eins og Samuels Barber og Lou Harrison og túlkað tónlist armenska mystíkersins Georgs Gurdijeff svo eitthvað sé nefnt.

Ég er ekkert hrifinn af öllu í klassíkinni frekar en djassinum, enda væri það ekki sanngjarnt ef maðurinn gæti allt upp á tíu við eitt stykki flygil. Upptökur hans af konsertum Mozarts eru til dæmis frekar andlausar að mínu mati, en ég hef alltaf verið hrifinn af leik hans á prelúdíum Shostakovich og held mikið upp á þá útgáfu.

En þetta er auðvitað ekki djass, þannig að nú er nóg komið.

Takk fyrir mig, kæri Keith Jarrett, ef þú lærir einhvern tímann íslensku og lest þetta.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s