Laugardagspóstur frá Braga Ólafssyni:
Eftir nokkra daga kemur út ný plata með Bob Dylan, sú fyrsta með frumsömdu efni í átta ár. Eftir að hafa heyrt þrjú lög af plötunni, sem kallast Rough and Rowdy Ways, og lesið svolítið um hana, er ég mjög spenntur. Hún fær alls staðar fimm stjörnur (eflaust sex í Danmörku). Í tilefni útgáfunnar er viðtal við Bob í New York Times; það birtist í gær. Mjög skemmtilegt viðtal. Hann tjáir sig meðal annars um morðið á George Floyd, en talar aðallega um músík. Þegar blaðamaðurinn lýsir undrun sinni á því að Bob skuli minnast á tvo meðlimi hljómsveitarinnar The Eagles í 17 mínútna langa laginu Murder Most Foul, innan um ótal aðra tónlistarmenn í bandarískri músíksögu, og þegar hann spyr Bob hvaða lög Eagles hann haldi mest upp á, nefnir Bob þrjú lög, öll af plötunni Hotel California! Eitt þessara laga, Pretty Maids All in a Row, vill hann meina að sé með betri lögum tónlistarsögunnar, ef ég skil orð hans rétt: „That could be one of the best songs ever”. Ég skil ekki alveg hvað hann á við. Bara alls ekki. En auðvitað skil ég ekki alltaf Bob Dylan, þótt ég þykist skilja hann „Most of the Time“, og hlusti á hann oftar en ekki (sem er frekar oft). Það sama gildir ekki um The Eagles (nema þegar Lyin´ Eyes eða One of These Nights er spilað í útvarpinu eða á veitingastaðnum – þá er ég alveg til í að hlusta). Þessi hljómsveit er samt eitt af þeim fyrirbærum sem ég velti mjög þungt fyrir mér þegar ég reyni að komast til botns í sjálfum mér. Þrettán ára gamall skreytti ég nefnilega veggina í herberginu mínu með nöfnum tveggja hljómsveita: The Eagles og Pink Floyd. Ég skrifaði nöfnin á A4 blöð, einn staf á hverja örk, og límdi á dökkbrúna veggina – undir kolsvörtu loftinu. The Eagles og Pink Floyd … Þetta er svipuð blanda og Íslandskokteill Íslandsbersa á Hotel Pallas. En kannski hefur þessi einkennilegi árekstur svo ólíkra hljómsveita á veggjum unglingaherbergisins leitt mig til botns í sjálfum mér, nú þegar ég er orðinn fullorðinn – ég er bara að gera mér grein fyrir því núna. I contain multitudes. Eins og hinn síðskeggjaði Walt Whitman skrifaði, og Bob Dylan vitnar til í fyrsta laginu á nýju plötunni: I Contain Multitudes.
En það er gaman að sjá hinn 79 ára gamla Bob minnast á The Eagles. Smá uppreist (eða uppreisn) æru fyrir kaliforníumennina, eftir hina harkalegu útreið sem þeir fengu frá The Dude í Big Lebowski.
Og auðvitað er allt þetta tal um The Eagles ekki það sem ég ætlaði að koma hér að á Skammtinum. Það var annað úr viðtalinu við Bob sem ég ætlaði að deila. Hann er nefnilega spurður út í jazzmúsík, vegna þess að það eru ekki bara Glenn Frey og Don Henley sem hann telur upp í 17 mínútna laginu, heldur koma þar fyrir nokkur jazznöfn – heill hellingur. Blaðamaðurinn spyr:
You also refer to Art Pepper, Charlie Parker, Bud Powell, Thelonious Monk, Oscar Peterson and Stan Getz in “Murder Most Foul.” How has jazz inspired you as a songwriter and poet over your long career? Are there jazz artists you’ve been listening to lately?
Og Bob svarar:
Maybe Miles’s early stuff on Capitol Records. But what’s jazz? Dixieland, bebop, high-speed fusion? What do you call jazz? Is it Sonny Rollins? I like Sonny’s calypso stuff but is that jazz? Jo Stafford, Joni James, Kay Starr — I think they were all jazz singers. King Pleasure, that’s my idea of a jazz singer. I don’t know, you can put anything into that category. Jazz goes back to the Roaring Twenties. Paul Whiteman was called the king of jazz. I’m sure if you asked Lester Young he wouldn’t know what you’re talking about.
Has any of it ever inspired me? Well yeah. Probably a lot. Ella Fitzgerald as a singer inspires me. Oscar Peterson as a piano player, absolutely. Has any of it inspired me as a songwriter? Yeah, “Ruby, My Dear” by Monk. That song set me off in some direction to do something along those lines. I remember listening to that over and over.
Auðvitað er freistandi að láta fylgja þessum orðum Bobs lagið False Prophet af nýjustu plötunni hans – ferlega fínt lag – en ég er ekki viss um að ritstjórn Ráðlagðs sé sátt við slíkt. Þannig að hér er í staðinn lagið My Blue Heaven með Paul Whiteman, „konungi jazzins“: