Kinn við kinn

Halldór Guðmundsson rithöfundur skrifar pistil dagsins:

Ætli ég hafi ekki verið tíu ára þegar ég byrjaði að hlusta á jazz, þannig að ég vissi af því. Þetta var í Þýskalandi og pabbi átti Blaupunkt plötuspilara, svo mikið man ég, og meðal annars safnplötu sem einhver þýskur bókaklúbbur gaf út með lögum Oscar Peterson tríósins og hét eftir laginu sem sjaldan heyrist nú orðið: Put on a happy face. Ég var of ungur til að vita af nauðsyn uppreisnar gegn foreldrunum í tónlist sem öðru, þótt jafnaldrar mínir væru farnir að hlusta á Bítlana og auðvitað átti ég eftir að gera það síðar, en ég man eftir pabba í eina almennilega stól heimilisins með pípu, rétt einsog Oscar á coverinu, dillandi fæti við ört sving píanistans þar sem ein nótan rak aðra af slíkum hraða að manni fannst þær hrynja einsog dómínókubbar, og ég hafði aldrei heyrt neitt sem hugfestist mér jafn vel.

Þetta hefur verið á seinni hluta sjöunda áratugarins og manni þótti Louis Armstrong, sem um þetta leyti sendi frá sér lagið What a wonderful world, vera gömul lumma og ekki eiga heima í þeim uppheimum jazzins þar sem snillingar á borð við Oscar og Dave Brubeck léku listir sínar. Og þótt rokkið héldi síðan innreið sína í líf mitt, með unglingsárunum og róttækninni og litteratúrnum, fór jazzinn aldrei af fóninum og ég hélt áfram að hlusta á hann hvað sem á gekk. Þegar við Tómas R. urðum vinir uppúr tvítugu átti ég þátt í að opna fyrir honum heim jazzins og þegar við vorum samtýnis í Kaupmannahöfn uppúr 1980 vorum við stundum fleiri kvöld í viku á jazzklúbb Montmartre, eða frameftir heima að spila plötur: Hlustaðu á þetta!

En við hlustuðum ekki bara á plötur saman, við lásum líka bækur og gátum þjarkað um þær næturlangt og stundum komu líka verk sem við hrifumst af í sameiningu, eins og til dæmis bók Péturs Gunnarssonar sem lýkur Andra bálki hans: Sagan öll. Pabbinn í þeirri bók á sér eitt uppáhaldslag sem er stef í öllu verkinu og líka í tilhugalífinu þar sem hann er leigubílstjóri og hún á símanum á stöðinni og það er gamlárskvöld, og þau þurfa að koma heilli borg í háttinn áður en þau hittast yfir útvarpinu: „Ríkisútvarpið náttúrlega löngu farið að hrjóta. Láttu mig, sagði pabbi og kraup við hliðina á henni og byrjaði að gramsa í tökkunum og hagræða tækinu uns skruðningar tóku að berast utan úr heimi, líf á öðrum löngum: kampavínsflöskur skutu töppum, hvínandi árnaðaróskir, dansbönd á fullu. Bíddu! Kallaði mamma. Pabbi bakkaði með leitaranum, svo örlítið fram og þá kom það aftur. Hann hjálpaði henni á fætur og saman vögguðu þau:

Heaven

I’m in heaven …“

Þá urðum við að tékka á þessu lagi og það er náttúrlega bara ein alvöru útgáfa af Cheek to cheek eftir Irving Berlin, í anda þessa bókakafla, og hún er á plötunni Ella and Louis sem gefin var út árið sem ég fæddist, 1956. Þetta er þriðja lagið á hlið tvö og Louis opnar með sinni rámu rödd svo fallega að ég skammast mín enn fyrir að hafa talið hann lummu og svo ráfar hann dásamlega milli tóna en fellur samt algerlega í skuggann fyrir innkomu söngkonunnar með fullkomna pitchið og tímasetninguna, Ellu, á 2:28. Ég held við félagarnir höfum hlustað á þetta þrjátíu sinnum í röð, þegar við fundum það eftir að hafa legið yfir Sögunni allri.

Það er eitthvað sem gengur algerlega upp við þessa fyrstu plötu þeirra Ellu og Louis hjá Verve útgáfunni. Þau höfðu unnið saman áður, en hér urðu þau heild, með þessar gerólíku raddir sem samt nutu sín báðar og báru virðingu hvor fyrir annarri, einsog Björk orðaði það einu sinni í viðtali. Og langhelst á þessari plötu: það fylgdu tvær aðrar á eftir, Ella and Louis again og Porgy and Bess, en þær ná ekki sömu hæðum. Þegar ég hlusta á þetta núna og hugsa til baka finn ég í hverju það liggur: það er kompið. Kvartett Oscar Peterson leikur undir (maður má ekki taka svona til orða lengur en hér á það bókstaflega við, hann er lágt stilltur, til undirleiks) og það fer honum frábærlega. Nóturnar eru ekki að ryðja hver annarri um koll af æsingi einsog stundum þegar hann er inn í framlínunni, þótt ég hafi heillast af slíku strákur, heldur allar á réttum stað og steinliggja; hlustið bara á intróið, hann er ögn seinn til í taktinum og vekur væntingar um það sem koma skal. Þetta er sving, sem þá var dottið úr tísku, en áreynslulaust og í fullkomnum danstakti, slow fox. Það er hægt að setja það á fóninn eftir langa vakt og vagga með elskunni þinni, þegar bærinn er farinn að sofa. Heaven …

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s