Uppvaxtarár
„Strákarnir bara horfðu á hann. Þeir trúðu ekki hvað var að koma út úr lúðrinum hans. Þú veist, hugmyndir eins og … Hvar mundi maður finna þær?” Michael LaVoe (1999)
Þegar Michael LaVoe fylgdist með Lee Morgan, samnemanda sínum í Mastbaum Vocational Technical gagnfræðaskólanum í Fíladelfíu, spila á trompet með meðlimum skólabandsins á fyrstu dögum skólans í september 1953, trúði hann ekki eigin eyrum. Morgan sem hafði orðið 15 ára í júlí, hafði óvenju mikla stjórn á hljóðfæri sínu og sýndi djúpan skilning á tónlist fyrir svo ungan mann. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar, sumir með þriggja ára reynslu í tónlistarþjálfun og spilamennsku við skólann, upplifðu svipaða tilfinningu vantrúar um að þessi ungi maður hefði þessa miklu eiginleika á trompet.
Þarna hafði Lee Morgan þó ekki spilað á trompet nema í rétt rúm tvö ár. Hann fékk sinn fyrsta trompet í afmælisgjöf frá systur sinni þegar hann varð 13 ára gamall. Árið þar á undan hafði Morgan æft á víbrafón en skipti svo yfir á trompet.
Þremur árum eftir skólagöngu, í nóvember 1956, er Lee Morgan orðinn meðlimur í stórsveit Dizzy Gillespie. Þegar bandið opnaði tónleikaröð sína á landsvísu í Birdland vakti Morgan upp sömu tilfinningar og hann hafði gert með skólabandinu, þremur árum áður. Menn tóku eftir því að Lee Morgan var úthlutað stjörnu-sólóista hlutverki í laginu „A Night in Tunisia“ sem hafði verið hefðbundið hlutverk hljómsveitarstjórans Dizzy fram að því. Nat Hentoff sá bandið þegar þeir komu úr túrnum og spiluðu í New York 1957.
„Ég sneri baki í sviðið þegar hljómsveitin byrjaði á „A Night in Tunisia“. Skyndilega rymur trompet yfir allan salinn eftir fyrsta „break“. Krafturinn var svo kynngimagnaður og rafmagnaður í senn að allt skvaldur í salnum þagnaði á meðan við böðuðum út höndunum eftir fyrstu sprengjuna, ég sneri mér við og sá að þetta var ungi maðurinn frá Fíladelfíu, Lee Morgan.“ (Hentoff 1965)
Þroskaferill Lee Morgans sem tónlistarmanns var ævintýralegur. Hann byrjaði með Dizzy um 18 ára aldur þar sem hann tók yfir forystuhlutverkið af sjálfum Dizzy í frægasta laginu hans „A Night in Tunisia“. Lag sem Gillespie hafði tekið upp 12 árum áður og gert frægt með Söru Vaughan, þar hafði lagið verið nefnt „Interlude“. Það eitt og sér þótti merkilegt en að Morgan skuli hafa yfirspilað goðið sitt á einhvern hátt er annað. Eftir eina tónleika í Birdland var Gillespie inntur eftir því af blaðamanni hvernig það væri að upplifa 19 ára strák yfirspila sjálfan Dizzy og taka yfir forystuhlutverk sólóistans í „Night in Tunisia“. „Já, það sannarlega skelfir mann að sjá krakka sem þennan koma svo hratt upp en það er gott að sjá það gerast,“ svaraði Gillespie.
Morgan öðlaðist mikið sjálfstraust sem spilari á unglingsárum. Jazz-senan í Fíladelfíu var mjög öflug og þaðan komu margir meistarar eins og John Coltrane, Reggie Workman, Jimmy Heath, Benny Golson, Bobby Timmons, Archie Schepp og McCoy Tyner. Jam-sessionirnar fóru að mestu fram í gegnum knæpur, þar sem ungir tónlistarmenn fengu að jamma á daginn þegar lítið var að gera. Hetjur þeirra komu oft til Fíladelfíu og spiluðu. Eftir tónleika voru oftast „jam sessions“ þar sem ungir fengu að spreyta sig. Til er saga af því þegar Dizzy kom í bæinn. Æskuvinirnir Morgan og Workman hittu á hann úti á götu og fengu að halda á trompettösku hans þangað sem leið lá og mjólkuðu upplýsingar úr hetjunni á meðan. Ekki voru allir svo viljugir en önnur saga af Morgan er þegar hann reyndi við sig í Fíladelfíu með Sonny Stitt. Þarna hefur Morgan verið u.þ.b. 15-16 ára gamall og ætlaði að mæla sig við reyndan Bebop mann. Stitt spurði Morgan um lag og Morgan nefndi lag sem hann sagðist kunna í einni tóntegund. Stitt sagði bandinu umsvifalaust að taka lagið í annarri tóntegund og taldi svo strax í, á mjög hröðu tempói. Það er skemmst frá því að segja að Morgan réði ekkert við neitt og labbaði niðurlægður af sviðinu í miðju lagi. Eftir þetta sást Morgan ekkert á senunni í 2-3 mánuði, hann fór beint heim og æfði sig því þetta átti aldrei eftir að koma fyrir hann aftur.
Morgan sem hafði verið umtalaður í jazz-upptökuheiminum mánuðum saman áður en hann þreytti frumraun sína með Gillespie, hóf upptökuferil sinn sem bandleiðtogi með upptöku á plötunni „Indeed!“ í nóvember 1956. Henni var fylgt eftir með „Introducing Lee Morgan“ sem var tekin upp daginn eftir. Morgan tók upp fyrir Blue Note á meðan hann var í bandi Gillespie. þegar bandið leystist upp í janúar 1958 var Morgan orðinn þaulreyndur tónlistarmaður með einar 9 plötur útgefnar. Morgan átti þó ekki lag á plötu fyrr en á þeirri áttundu, „The Cooker“. Plöturnar þar á undan höfðu að mestu verið útsettar af Benny Golson sem hafði átt nokkur lög á þeim.
Fyrstu tvö lögin sem Morgan gaf út í eigin nafni voru „Heavy Dipper“ og „New-Ma“. Komu þau út á plötunni The Cooker (Blue Note 1958). Bæði lögin flokkast sem hard bop en sú stefna átti eftir að fylgja Lee allan ferilinn.
Um þetta leyti tók Morgan inntökupróf í Julliard sem hann stóðst og í framhaldi var honum boðið að mæta um haustið til að hefja nám. Um sumarið hafði Morgan eytt tíma með Art Blakey en um haustið þegar skólinn var settur þá var Morgan hvergi sjáanlegur, hann hafði gengið til liðs við The Jazz Messengers.
-Sigþór Hrafnsson
Heimildir:
Lee Morgan
His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/
Delightfulee
The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee
Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965
https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop
Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers
https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy
Mér finnst þetta sögulega frábært! Það er eins og Lee Morgan hafi verið fæddur til þess að spila trompet, þetta er einmitt hvað gerir tónlistina svo frábæra og tilfinningulega. Ætlaðu þú að skrifa meira um Lee Morgan og hvað hann hefur gert með tónlist sína? Ég er svo spenntur á að heyra meira!
LikeLike