Í dag er hátíð hér á Ráðlögðum í tilefni sextugsafmælis aðalgestaskríbents síðunnar, velunnara og verndara, Braga Ólafssonar. Svo heppilega háttar til fyrir mig, umsjónarmann síðunnar, að hann er einnig faðir minn. Reyndar hef ég mögulega aldrei áður kallað hann föður minn, en ég ætla að byrja á því núna fyrst hann hefur náð þessum virðulega aldri. Og ég ætla að hefja þessa færslu á eins fyrirsjáanlegan hátt og hugsast getur, með laginu Song for my Father með Horace Silver kvintettinum, þar sem Joe Henderson og Carmell Jones sjá um að blása í hátíðarlúðrana sem er vísað til í yfirskrift færslunnar:
Eins og þeir sem þekkja pabba vita (ég er strax hætt að kalla hann föður minn, mér finnst að betur athuguðu máli að ég þurfi að vera orðin sextug til þess) er hann óhemjufróður um tónlist. Hann er að vísu óhemjufróður um allt sem hann hefur áhuga á. En ég ætla að beina sjónum mínum að tónlist úr því að við erum stödd hér á tónlistarbloggi. Í þeirri deild má segja að pabbi sé grúskari eins og þeir gerast gerstir. Hvorki bestir né verstir, heldur gerstir; hann viðar að sér bókum og tónlist, þekkingu og staðreyndum til fullnustu, gersamlega, algerlega. Orðið ger getur samkvæmt orðabókinni líka þýtt gráðugur eða átfrekur, sem á kostulega illa við pabba almennt séð, en smellpassar um grúskaraelementið í honum; það verður enginn svona fróður nema hafa verið átfrekur á upplýsingar – graðkað þær í sig af áfergju.
Það er einmitt það sem mig grunar að pabbi geri þegar enginn sér til (nema hinn tryggi aðstoðarmaður hans, Basil) innan um staflana af bókum og pappírum á litlu skrifstofunni, á efstu hæð fjármálahverfisins í Reykjavík. Þessu fylgir stöðug inntaka á tónlist, þar sem pabba hættir líklegast stundum til að verða heldur ger, ofmeta jafnvel magamálið, með afleiðingum sem óhjákvæmilega skapa hugrenningartengsl við hið þekkta Mr. Creosote atriði þeirra Monty Python manna (í því sambandi má vísa til fýsískra lýsinga pabba sjálfs á einkennum svokallaðrar jazzeitrunar í færslu hér á blogginu 27. mars 2020).
Í samræðum við pabba er nokkurn veginn sama hvað ber á góma sem viðkemur tónlist, hann getur fyllt út í öll horn og allar glufur með upplýsingum, sögum, forvitnilegum tengingum og obskúr staðreyndum úr ævisögum, heimildamyndum, jafnvel samtölum við persónur og leikendur, því að hann hefur alls staðar verið og alla hitt. Jafnvel nú á stafrænni upplýsingaöld er árangursríkara að fletta upp í honum en gagnabönkum á netinu. Og varla þarf að taka fram að hið fyrrnefnda er alltaf eftirsóknarverðari kostur, því að eins og allir vita sem þekkja pabba, í eigin persónu eða gegnum bækurnar hans, er heimurinn bæði skemmtilegri og áhugaverðari staður frá hans sjónarhóli en annars fólks.
Pabbi er fróður um flestar tegundir tónlistar, en af því að áhugasvið okkar skarast helst á lendum jazzins (að minnsta kosti í nokkrum póstnúmerum hans) hef ég fyrst og fremst notið góðs af þekkingu hans í þeim geira. Frá því að ég fékk mínar fyrstu græjur (í fermingargjöf frá honum) hefur bókstaflega streymt til mín jazz og jazztengt efni úr föðurhúsum, í formi geisladiska, bóka, youtube-hlekkja og alls kyns ábendinga. Síðasta ábending var símuð inn síðasta laugardag og ég ætla að birta hana hér (án samráðs), því að hún er svo lýsandi fyrir það hvernig pabbi viðar alls staðar að sér fróðleik og áhugaverðu efni; hann var nýkominn frá Tékklandi og komst þar í tæri við upptökur með þessum lókalmanni, tékkneska bassaleikaranum Miroslav Vitous, ásamt Chick Corea og Roy Hanes.
Og nú er orðið tímabært að sleppa hér lausri annarri fyrirsjáanlegri upptöku í tilefni afmælisins, One for Daddy-O, af einni af flottustu jazzplötu allra tíma, Somethin’ Else með Cannonball Adderley og stórskotaliði sjötta áratugarins. Þetta er einn af mörgum diskum sem pabbi gaf mér einhvern tíma á menntaskólaárunum og er óhætt að segja að sé hluti af „hljóðrás ævi minnar“, svo að vitnað sé í heiti þátta sem nú eru á dagskrá Rásar 1.
En allt er þetta nú aðeins inngangur að aðalefni þessarar hátíðarfærslu. Í tilefni dagsins verða hér endurbirtar allar sex færslurnar sem pabbi sendi á bloggið á fjögurra vikna tímabili í mars og apríl árið 2020, í upphafi sögulegra samkomutakmarkana. Á þessum tíma gekk um veraldarvefinn sá stafræni samkvæmisleikur að deila tíu eftirlætisplötum sínum – og Ráðlagður fór þess að sjálfsögðu á leit við sinn aðalskríbent að setja saman slíkan lista. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og innan fárra vikna hafði birst hvorki meira né minna en fimmtíu platna listi. Eins og lesendur muna ef til vill stóð þetta tæpt á tímabili; í þágu verkefnisins féll pabbi í þá gryfju að raða meiru í sig en magamálið réði við, eins og Mr. Creosote hér að framan. En til allrar hamingju tókst honum að tjasla sér saman og klára listann góða, sem birtist nú hér á einum stað til upprifjunar og upplyftingar fyrir lesendur bloggsins – og með kærri afmæliskveðju til þín, elsku pabbi!