Lokaskammtur: 41 – 50

Þá hefur síðasti skammturinn – í bili – borist frá Braga Ólafssyni. Ráðlagður færir honum sínar bestu þakkir! Það er ekki lítið verkefni að velja sínar 50 uppáhalds jazzplötur (og ekki alveg áhættulaust, sbr. jazzeitrun á viku þrjú). Mér skilst reyndar að mesti höfuðverkurinn hafi verið að velja plöturnar sem komust ekki á listann. En það er aldrei að vita nema Bragi geri þeim skil hér á síðunni – some other time.

Charles Mingus - In A Soulful Mood | Paul Oberlin | Flickr

Plata nr. 41, er ekki original útgáfa, heldur samansafn átta laga undir nafni Charles Mingus. Allar upptökurnar frá árinu 1960, og komu upprunalega út hjá plötufyrirtækinu Candid. Hápunkturinn 13.25 mínútna útgáfa af Stormy Weather, með Eric Dolphy, Ted Curson, Mingus og Dannie Richmond. Svo ámátleg og eymdarleg, með bassaklarinettu Eric Dolphy í aðalhlutverki, en alveg dásamlega upplífgandi og glæsileg um leið. Þegar ég spilaði þetta fyrir yngri dóttur mína – hún var tveggja ára gömul þá, og nýbyrjuð að tala af einhverju viti – sagði hún við mig: „Þetta er fín músík.“ Enda er hún það.

The John Coltrane Quartet - Africa / Brass (Vinyl) | Discogs

Þetta er mín uppáhaldsplata með John Coltrane, og sú tónlist sem innsiglaði dálæti mitt á Elvin Jones. Það er eitthvað mikilfenglegt við þessa músík; og þó mér sé almennt illa við að „þessi eða hin tónlist sé fín fyrir þetta eða hitt“, þá hefur þessi kraftmikla plata þá fúnksjón – ef vill – að særa út reiði eða vondar tilfinningar. Þannig hefur hún að minnsta kosti nýst mér.

Arthur Blythe - Lenox Avenue Breakdown (1979, Vinyl) | Discogs

Önnur svakaleg plata, frá svolítið skrítnu tímabili í bandarískum jazzi, þegar einhvers konar jazz fusion var fyrirferðarmest – og þegar mest af öllu því var skelfileg músík og dauðhreinsuð. Hér er James Blood Ulmer á gítar – sem í raun þýðir að þessi tónlist getur ekki verið dauðhreinsuð; hann sér um að gera hana óhreina. Og á trommur Jack DeJohnette, sem þarna, eins og annars staðar, límir allt saman með sínum fljótandi simbölum. Svo er túbuleikarinn Bob Stewart, sem spilaði á fleiri plötum með Arthur Blythe, meðal annars hinni frábæru Bush Baby, þar sem hljóðfæraskipunin er alt-saxófónn, túba og conga-trommur.

Steve Lacy - The Straight Horn Of Steve Lacy (1962, Vinyl) | Discogs

Þetta er held ég svalasta jazzplata sem ég þekki. Ekkert píanó að flækjast fyrir hinum hljóðfærunum, ekki frekar en á Lenox Avenue Breakdown – bara sópran- og baritónsaxófónn, bassi og trommur. Og hart swing. Snerilhögg Roy Haynes eins og byssuskot. Og hér er flottasta útgáfa sem ég hef heyrt af hinni mögnuðu tónsmíð Introspection eftir Thelonious Monk.

Gil Evans - The Individualism Of Gil Evans (1964, Gatefold, Vinyl ...

Ég var að hugsa um að nefna Out of the Cool eftir sama höfund, sem líklega er þekktari plata, en þessi er í heild betri, finnst mér. Enn og aftur Elvin Jones, plús Kenny Burrell á gítar, og í rauninni bara allir sem mann langar til að hafa á plötu: Eric Dolphy, Steve Lacy, Richard Davis og Paul Chambers, og fleiri og fleiri. Dásamleg 13 mínútna + útgáfa af Spoonful eftir Willie Dixon, og helmingi styttri útgáfa af Time of the Barracudas, sem Gil Evans hafði áður gert með Miles Davis.

Joni Mitchell - Both Sides Now | Releases | Discogs

Kannski er þetta ein þeirra platna á þessum lista sem ég hélt að væru ekki jazzplötur, en í raun passar hún ekki í neitt annað hólf. Mér hafði dottið í hug að nefna Mingus-plötu Joni Mitchell (sem ég hef alltaf verið mjög hrifinn af, þótt hún sé sumstaðar ekki hátt skrifuð), eða tónleikaplötuna Shadows and Light – að minnsta kosti var ég staðráðinn í að hafa eitthvað með Joni Mitchell – en þessi varð ofan á, því hennar eigin lög á þessari plötu, A Case of You og Both Sides Now, hafa ekki gert neitt annað en að dýpka með tímanum. Hin lögin eru jazzstandardar, þar á meðal You´re my Thrill, Comes Love og Stormy Weather. Það kemur fyrir að sópransaxófónn Wayne Shorter fær mann til að hugsa um Kenny G, en það tekur ekki nema eina eða tvær sekúndur að hrista þá tilfinningu af sér.

It sounded like the future': behind Miles Davis's greatest album ...

Á maður að þora að tjá sig um eitthvað svona? Þetta er ennþá svo svakaleg músík – og ný – hálfri öld eftir útgáfu.

Illumination! by Elvin Jones, CD with jazzybird - Ref:114235581

Ég veit ekki hversu oft hinn stórkostlegi trommuleikari Elvin Jones dúkkar upp á þessum 50 platna lista, en hér er hann í einstaklega skemmtilegu kompaníi, með hinum nýlátna McCoy Tyner (þannig að hér er Coltrane-kvartettinn kominn, mínus Coltrane), og þremur blásurum: Charles Davis (sem er líka á Steve Lacy-plötunni hér fyrir ofan), Prince Lasha (klarinett og flauta) og Sonny Simmons (alt-saxófónn og enskt horn).

Now Available: Ornette Coleman, Beauty Is a Rare Thing: The ...

Ég veit ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki þetta sex diska box. Allar Atlantic-upptökur Ornette Coleman-kvartettsins, plús „þriðja straums“-upptökur undir stjórn Gunther Schuller, m.a. með Eric Dolphy, Bill Evans, Jim Hall og Scott LaFaro. Fallegt, eins og segir utan á kassanum. Myndin utan á er samt alveg agalega óviðeigandi – það eru miklu betri myndir í bæklingnum sem fylgir. Þar er líka hið fræga kvót í Miles Davis um tónlist Ornettes: „Hell, just listen to what he writes and how he plays. If you´re talking psychologically, the man is all screwed up inside.“

Counterbalance: Eric Dolphy - Out to Lunch! - PopMatters

Um daginn heyrði ég Víking Heiðar í Ríkisútvarpinu segja frá nýútkominni plötu sinni með tónlist Rameau og Debussy. Hvernig hann lýsti ákveðinni skynjun sinni á tónlist Debussy sat eftir í höfðinu á mér; hann sagði frá því hvernig tónskáldið tæki fyrir stakan hljóm og léti hann hljóma fyrir hljómsins sakir, til að kanna litbrigði hans, líf og merkingu, eitthvað í þá áttina. Svo bætti Víkingur því við að það þyrfti ekki alltaf að hafa hljómrænt samhengi til að skilja tónlist, það gæti verið nóg að dvelja bara í einum hljómi. Mér fannst þetta svo fallega orðað, og mátaði þetta í huganum við alls kyns tónlist; en það sem helst kom upp í hugann var tónlistin á plötu Eric Dolphy, Out to Lunch, kannski vegna þess, sem segir sig sjálft, að ég hafði á þeirri stundu sett þá plötu efst (lesist: neðst) á 50 platna listann minn, en líka af því að þetta sem Víkingur sagði um staka hljóminn, og hið hljómræna samhengi, á svo fyllilega við það einstaka litróf sem skapað er á Out to Lunch. Nokkur stök bassatrommuhögg Tony Williams á þessari plötu hafa í mínum huga eitthvað svipað í sér og hinn staki – og merkingarfulli – hljómur Debussy; og hinir óvæntu – mér liggur við að segja satanísku – víbrafóntónar Bobby Hutcherson í fyrsta gjörningi plötunnar, Hat and Beard, á 6,11 mínútu, 6,13 og 6,16, og bassatrommuhöggin sem svara þeim … – ég ætla að láta þá tóna, og þau högg, verða lokaorðin hér.

One thought on “Lokaskammtur: 41 – 50

  1. Pingback: Blásið í hátíðarlúðra | Ráðlagður jazzskammtur

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s