Bragi Ólafsson sendir sinn vikulega jazzskammt úr fjármálahverfi Reykjavíkurborgar:
Þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara. Ráðlagður er að draga úr mér allan mátt. Að lokum (þegar kemur að plötum nr. 41 til 50) verður þetta orðið svo erfitt að ég einfaldlega ræð ekki við verkefnið. Mig minnir að ég hafi nefnt í fyrstu sendingunni að meðal þessara 50 uppáhaldsplatna minna yrðu einhverjar þrjár eða fjórar sem ekki teljast vanalega til jazzplatna, en ég held ég verði að draga þau orð til baka, því þetta eru allt jazzplötur. Held ég. Meira að segja plata nr. 31, kvikmyndatónlistin við Naked Lunch, sú frábæra plata sem ég hef haft hljómandi í höfðinu í sirka 30 ár, en ekki eignast fyrr en nýlega, því hún var mjög lengi ófáanleg, eða illa fáanleg. Annars veit ég ekki hvað ég á að segja meira um þetta. Þessar plötur í skammti dagsins eru ekkert endilega bestu plötur listamannanna (það eru auðvitað ekki til „bestu“ plötur); það er frekar þannig að ég hafi myndað einhver sérstök tengsl við þær, að þær séu mér kærar þannig. Til dæmis má alveg örugglega segja að Thelonious Monk hafi búið til „betri“ plötur en Misterioso (sem er reyndar tónleikaupptaka), en ég er bara svo hrifinn af tenórsaxónfónleikaranum Johnny Griffin, og ekki síður trommuleikaranum Roy Haynes, að ég tek þessa plötu Monks fram yfir allar þær annars fínu plötur sem hann gerði með Charlie Rouse á saxófón (sem eru, velflestar, hans þekktustu plötur).
Pingback: Blásið í hátíðarlúðra | Ráðlagður jazzskammtur