Eitrun snúið við: 24 – 30

Framhaldsbréf frá Braga:

Svo fullkomlega er ég meðvitaður um að lesendur hér á Ráðlögðum hafi engan áhuga á heilsufari mínu, að ég ætla ekki að minnast á það einu orði að ég er orðinn góður af jazzeitruninni. Ég ætla heldur ekki að afsaka að ég hafi einungis birt þrjú plötuumslög af tíu í síðasta innslagi mínu; það eina sem sú „hrösun“ hefur í för með sér er að ég þarf að bæta við þessari færslu hér – og vil ég þar með afsaka þetta með albúmin þrjú. En hvernig tókst mér að hrista af mér jazzeitrunina? Og hvað er jazzeitrun? Ég hef orðið var við að ekki allir þekkja þetta fyrirbæri, sérstaklega þeir sem ekki leggja eyrun sérstaklega eftir þessari tónlist. Ég fékk til dæmis í gær tölvupóst frá einum lesanda Ráðlagðs, þar sem ég var spurður: Hvernig lýsir svona jazzeitrun sér? Ég vil reyndar taka fram, áður en lengra er haldið, að ég er sjálfur ekki alltaf að hlusta á jazz. Alls ekki. Mín jazzhlustun kemur og fer; hún er á köflum engin, jafnvel dögum eða vikum saman, en þegar hún eykst, eykst hún stundum svo mikið að ég „æli“, eins og Jódínus í Kristnihaldinu taldi sig þurfa að gera þegar hann var kominn með allt of mikið af palisander. Maður „ofskammtar“. Og þá er ég búinn að útskýra jazzeitrunina. Ekki var það sérlega flókið. Og rétt að nefna að þetta með æluna er auðvitað bara líkingamál. En nú er að segja frá því hvernig ég tókst á við þá eitrun sem ég varð fyrir núna í fyrradag. Vikurnar fram að þeim degi sem ég var beðinn um að taka saman uppáhaldsjazzplöturnar mínar hafði ég ekki verið að hlusta mikið á jazz; ég var meira með uppi á borðum plötur með ungum, kalifornískum folk- og poppsöngkonum (þótt þjóðlagaskilgreiningin eigi kannski ekki alveg við þær allar), t.d. Weyes Blood (Natalie Mering), Lana del Rey, Jessica Pratt, Julia Holter, Joanna Newsom og Billie Eilish. Og líka Joni Mitchell – en hún er ekki ung. En svo kom kallið frá Ráðlögðum. Og allt breyttist. Þegar ég byrjaði að tína til jazzplöturnar byrjaði ég líka smátt og smátt að hlusta meira á þær en ég hafði gert í svolítinn tíma, og að nokkrum dögum liðnum var svo fyrir mér komið (það var í fyrradag) að ég beinlínis hlustaði yfir mig. „Ældi“. „Ofskammtaði“. En hvernig tókst ég á við þetta? Það var hin spurningin. Og svarið við henni er ekki síður einfalt (svona á yfirborðinu, að minnsta kosti). Ég fór að lesa bók um hið þýska músíkfyrirbæri Kraftwerk. Og samhliða lestrinum að hlusta. Og því lengra sem ég fór inn í bókina (Kraftwerk: Future Music from Germany, eftir Uwe Schütte), þeim mun meir hlustaði ég. Ég tók fram alla Kraftwerk-diskana mína og renndi þeim í slíðrið, einum af öðrum. (Því miður á ég ekki neitt á vínyl; en kannski er líka meira við hæfi að hlusta á Kraftwerk af geisladiskum.) Ég geri mér grein fyrir því að alls kyns móteitur er til staðar fyrir hina svokölluðu jazzeitrun, en ég held að fáir mótmæli því að hin industrielle Volksmusik, sem Kraftwerk framleiðir (eða framleiddi), hljóti að vera eitthvert öflugasta móteitur sem fyrirfinnst við kvillanum. Það er eitthvað við hina kristalstæru og útreiknuðu tónlist Düsseldorf-búanna sem fær mann til að fjarlægjast frelsi og óreiðu jazztónlistarinnar, fremur en t.d. að hlusta á popp eða rokk, jafnvel klassík. En auðvitað stóð ekki til að gera Kraftwerk að umræðuefni hér. (Sá merkilegi kvartett hlýtur þó að vera ræddur alls staðar annars staðar.) Svo er ef til vill skrítið – hér á Ráðlögðum – að vera að velta sér upp úr jafn ómerkilegum sýkingum og þeim sem tengjast jazzmúsík, á meðan heimurinn – jazzheimurinn meðtalinn – hefur áhyggjur af hinni svokölluðu kjötveiru frá Wuhan-borg. En það verður ekki aftur snúið. Þetta er búið – og gert. Og nú þykist ég vita að plássið sem mér er ætlað hér á Jazzskammtinum (fyrir þessa færslu) sé löngu uppurið, þótt ég hafi ekki hugmynd um hversu mikið pláss umsjónarmanneskja síðunnar sér fyrir sér að ég eigi að nota. Þó verð ég að minnast á eitt í viðbót. Fyrir rúmri viku, þegar þarsíðasti skammtur birtist, var mér sagt að einn lesandi hafi á facebook gert þá athugasemd að plötur nr. 11 til 20 hafi verið það sem hann kallaði prógressívar. Úti á jaðrinum (geri ég ráð fyrir að hann hafi meint). Ég er alls ekki viss um að svo hafi verið; ég er heldur ekki mannskjan til að dæma um það; en ég ætla samt að notfæra mér þessa fínu athugasemd, og leyfa henni að stjórna því hvaða sjö plötur ég vel í dag, í miðskammtinn (þann þriðja af fimm), nú þegar þrjár plötur í þeim skammti eru þegar komnar fram. Miðskammturinn verður nefnilega „miðjukenndur“, ef það orð er til. Sem sagt einkennist síður af jaðrinum, og fer nærri því að vera „þægilegur“, þótt ekkert af tónlistinni sé beinlínis búið til sem þægindamúsík. Enda hafði ég í upphafi lofað sjálfum mér, þegar ég tók þetta verkefni að mér, að sleppa allri þannig músík. En þegar ég velti þessu fyrir mér, með þægilegu tónlistina, þá verð ég líka að bæta því við að mér finnst vont að geta ekki haft á 50 platna listanum tónlistarfólk eins og Erroll Garner, Jim Hall eða Billie Holiday – sem hefði þá orðið um það bil eina konan innan um alla kallana – og t.d. hina dásamlegu plötu Keith Jarrett, The melody at night with you, og jafnvel Time Out með Dave Brubeck kvartettinum (sem líklega er sú plata sem upphaflega varð til þess að ég byrjaði að hlusta á jazz; hún var til í plötuskáp föður míns), en þetta er einfaldlega vandamálið, þegar maður hefur sett sér þann ramma að velja ekki nema 50 plötur. Maður verður að velja og hafna. Og stundum stenst enga skoðun hverju hafnað er. Ég var jafnvel að hugsa um að skilja út undan Kind of Blue með Miles Davis – sú plata er eiginlega of sjálfsögð til að vera á svona lista – en svo hugsaði ég aftur, og komst að þeirri niðurstöðu að það yrði beinlínis tilgerðarlegt að hafa hana ekki með. Það er sannarlega vandlifað. En svo er eitt – að lokum: Það er eitthvað bogið við að sjá á þessum „píanókennda“ lista plötu Charlies Haden, The Golden Number. Það er eitthvað skrítið við það. Og nú þegar ég hef velt þessu vandamáli fyrir mér í svolitla stund, kemst ég að þeirri niðurstöðu að það verði alltaf að vera eitthvað eitt sem brýtur regluna. Þetta er reyndar alveg frábær plata (jafnvel þótt hún virðist enn ekki hafa verið gefin út á geisladisk), og má alveg segja að hún detti ekki inn í neinar ákveðnar kategóríur – nema náttúrlega þá að vera plata með dúettum. Því þetta eru fjórir dúettar með Don Cherry, Archie Shepp, Hampton Hawes og Ornette Coleman (hér á trompett), alveg einstök samtöl sterkra karaktera, ekki síst á milli Hadens og Hawes (sem er hin augljósa ástæða fyrir því að ég hef þessa plötu með hér). En nú finn ég að ég verð að passa mig …

Thelonious Monk - Thelonious Alone In San Francisco + 8 Bonus ...

Charlie Haden - The Golden Number (1977, Gatefold, Vinyl) | Discogs

ECM Records | Catalogue

Tómas R. Einarsson & Eyþór Gunnarsson: INNST INNI – Farmers Market

Miles Davis - Kind Of Blue (Vinyl) - Amazon.com Music

Mingus Plays Piano by Charles Mingus on Spotify

The Bill Evans Trio Moon Beams LP

2 thoughts on “Eitrun snúið við: 24 – 30

  1. Pingback: Blúsbloggið og ráðlagður jazzskammtur – Menningarsmygl

  2. Pingback: Blásið í hátíðarlúðra | Ráðlagður jazzskammtur

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s