Rithöfundinn, ljóðskáldið og þýðandann Þórdísi Gísladóttur þarf ekki að kynna fyrir lesendum Ráðlagðs. Það er þó ekki víst að allir þekki þá hlið sem hún hefur fallist á að opinbera hér á blogginu, í nokkrum skömmtum. Hér á eftir fylgir formáli Þórdísar að því sem koma skal:
Það er mjög sennilega til marks um að mér sé lítið annt um orðspor mitt að ég hafi tekið þeirri áskorun að benda á tóndæmi á eina ritstýrða jazzfjölmiðli sem haldið er úti á Íslandi. Ekki einungis er ég algjör amatör, veit fátt og kann ekki að skrifa um tónlist, heldur tók ég að mér að dúkka upp beint á eftir feikilega músíkfróðum manni sem hefur að auki verið hljóðfæraleikari í heimsfrægri hljómsveit. Ég veit í alvörunni ekki einu sinni hvað jazz er og í nótt lá ég andvaka og velti því fyrir mér hvort Spilverkið og Santana flokkuðust sem jazzflytjendur. En ég læt til leiðast því ég vil breiða út boðskap tónlistarinnar og mér finnst líka eitthvað mjög fallegt og göfugt að vera amatör. Prófið bara að segja orðið á frönsku; amateur. Orðsifjafræðin segir mér að orðið amateur megi rekja til latneska orðsins amare, að elska og því kýs ég að líta á mig sem elskhuga jazztónlistarinnar.
Jazztónlistaráhuga minn má rekja beint til jazzveitu ríkisins, gömlu gufunnar. Ég ólst ekki upp í sítrallandi tónlistarfjölskyldu og ég var orðin stálpuð þegar plötuspilari kom inn á heimilið og í kjölfarið örfáar tilviljanakenndar plötur úr ýmsum áttum. En það var kveikt á útvarpinu og þar voru Jón Múli, Vernharður Linnet og síðar Lana Kolbrún og þau sáðu tónlistarfræjum sem síðan spíruðu og skutu rótarskotum. Svo átti ég vinkonur og kunningja sem bjuggu á heimilum þar sem mikið var keypt af plötum og því naut ég góðs af. Þegar ég var unglingur komu ýmsar jazzhljómsveitir til Íslands á vegum Jazzvakningar og Listahátíðar. Ég fór sjaldan á þessa tónleika en jazzmenn Ríkisútvarpsins sáu til þess að tónlist gestanna var leikin í útvarpinu og þannig komst ég, sem barn, til dæmis í kynni við Cleo Laine, sem söng á Listahátíð í Reykjavík 1976 og bassaleikarann Niels-Henning Ørsted Pedersen og söngkonuna Taniu Mariu, sem komu til Íslands árið 1980. Þau síðarnefndu héldu tónleika í Háskólabíói og voru í umfjöllun í íslensku dagblaði kölluð „Sá rólyndi Dani og skapheita Brasilíustúlkan.“ Toots Thielemans, sem ég heyrði oft til í útvarpinu (hann spilar með Cleo á plötunni sem ég nefni að neðan) og var kallaður „meistari munnhörpunar“, kom og lék í Gamla bíói með íslenskum jazzistum 1984 – ég skil ekki hvers vegna ég fór ekki á þá tónleika, en mjög sennilega hef ég verið of upptekin við að eyða skúringapeningunum á Hótel Borg á því tímabili og hlusta á eitthvað sem þótti þúsund sinnum meira töff en jazz.
Formálinn verður ekki lengri, hér er minn ráðlagði jazzskammtur að þessu sinni (allar plöturnar eru uppáhalds hjá mér og þær má allar finna á Spotify). Listinn er grautarlegur og ómarkviss, en mögulega dreg ég síðar upp fleiri jazzplötur og gæti þá verið fókuseraðri og beint eyrunum að mínum skandinavísku húsgyðjum.
(hlustið á Diddú syngja Valda skafara)
Aths. ritstj. Myndir af íslenskum jazzplötum eru oft illaðgengilegar í nægilegum gæðum á internetinu og því er brugðið á það ráð að taka skjáskot af viðkomandi albúmum á Spotify.