Lee Morgan ii

Undir áhrifum Art Blakey

Það má vera að það sé klisja að kalla The Jazz Messengers skóla en frá miðjum fimmta áratugnum til dauðadags 1990 lagði Blakey mikið á sig til að hjálpa hæfileikaríkum tónlistarmönnum að móta sinn eigin feril. Blakey, einnig þekktur sem Abdullah Buhaina, Bu á meðal vina, var í fyrstu bylgju jazztónlistarmanna til að taka íslamstrú.

Árið 1958, þegar Lee gekk til liðs við The Jazz Messengers, samanstóð bandið af Benny Golson á sax sem var skipt inn fyrir Jacky McLean, Bobby Timmons á píanó tók við af Horace Silver, Lee Morgan á trompet hafði komið inn í staðinn fyrir Bill Hardman og Jymie Merritt tók við bassaleiknum af Doug Watkins.

Frá nóvember 1958 til janúar 1959 spiluðu The Jazz Messengers í Belgíu, Hollandi, Sviss, Þýskalandi og Frakklandi. Viðtökurnar voru vægast sagt góðar. „Í hvert skipti sem við komum í nýja borg sáum við stóra borða á víð og dreif þar sem bandið var auglýst,“ rifjar Jymie Merritt upp. „Tónlist bandsins var spiluð á flugvöllum þegar við fórum í gegn.“ Líkt og aðrir svartir jazztónlistarmenn á undan þeim, upplifðu meðlimir The Jazz Messengers að tónlist þeirra hefði sterkari stöðu og meiri virðingu í Evrópu en heima fyrir. Hljómsveitin spilaði oftast í tónleikasölum í Evrópu á meðan þeim var oftast boðið að spila á knæpum í Bandaríkjunum.

Í febrúar 1959 hætti Benny Golson en hann hafði dregið vagninn að mestu leyti þegar kom að því að semja og útsetja tónlist bandsins. Við tók Hank Mobley á tenórsaxófón. Jymie Merritt minnist þess að „Mobley var með helling af tónlist. Hann spilaði vel en hann var með aðra dagskrá.“ Heróínnotkun Mobleys gerði það að verkum að hann var óáreiðanlegur, rifjar bassaleikarinn upp.

Mobley mætti ekki til Toronto, þar sem hljómsveitin spilaði á jazzhátíð þann 24. júlí. Eins gagnrýninn og Morgan hafði verið á heróínnotkun Mobleys, hafði Morgan sjálfur byrjað að nota heróín á þessum tíma. Saxófónleikarinn Wayne Shorter var einnig á hátíðinni að spila með stórsveit Maynard Ferguson. „Lee Morgan sá mig í áhorfendaskaranum,“ sagði Shorter „og eftir að þeir kláruðu settið kom hann hlaupandi til mín og sagði „hey Wayne! Viltu spila með okkur?“ Ég svaraði „Shit já!“ Shorter vann upp stuttan uppsagnarfrest hjá Ferguson og gekk því næst til liðs við The Jazz Messengers.

Morgan flutti inn í íbúð í New York þar sem hann bjó af og til með vinum sínum frá Fíladelfíu, Bobby Timmons, Tootie Heath, Reggie Workman og Spanki DeBrest. Þessir tónlistarmenn voru allir rétt innan við tvítugsaldurinn og allir nýgræðingar í hinni hröðu og samkeppnishæfu borg jazzsenunnar. Freddy Hubbard sem var jafnaldri Morgans, flutti í borgina um tveimur árum síðar, rifjar hann upp. „Ég var með sorglegar ranghugmyndir … Ég átti von á að þessir gaurar sem höfðu tekið upp plötur væru almennt í hávegum hafðir, ættu fína bíla, fín heimili, bankareikning – að þeir væru vel settir. Þú skoðaðir plötualbúm og hugsaðir, vá, hann er að gera það gott. Hann spilar út um allan heim … Þessir gaurar voru að biðja mig um pening. Líkt og: Lánaðu mér dollar.“

Shorter hafði djúpstæð áhrif á bandið og á Morgan sem einstakling. Á grunni lagasmíða fyrir bandið var litið á Shorter sem einstakan lagahöfund. Lög hans komu með ferska vinda inn í bandið. Fljótandi saxófónstíll hans rímaði vel við „extrovert“ stíl Morgans. Það má heyra á mörgum plötum frá þessu tímabili, með Shorter og Morgan í framlínunni, hvernig þeir sköpuðu eina allra bestu útgáfuna af The Jazz Messengers. Til viðbótar við að hvetja Morgan á sviðinu þá varð nærvera Shorters til þess að kveikja áhuga Morgans á lagasmíðum. Stuttu eftir að Shorter gekk til liðs við bandið, samdi Morgan, nú sem tónlistarstjóri bandsins, „The Midget“, „Haina“ (stytting fyrir múslimanafn Arts Buhaina) og „Afrique“. Samkvæmt Shorter voru tónsmíðar Morgans grundvallartónsmíðar. Hann var mun meira á heimavelli að spila en að semja en hann bað aldrei um hjálp. Það var eitt af því sem ég fílaði við Lee – hann gat strögglast í gegnum þetta einn. Um spilamennsku Morgans sagði Shorter „Eins og Miles þá komst hann yfir alla hjalla með „soundinu“ einu saman. Lee vissi hvernig átti að hita undir án fyrirvara. Hann vissi hvernig átti að „skrifa bréf“ í formi sólós.“

Morgan var reynslubolti í efstu deild aðeins tuttugu og tveggja ára að aldri. Árið 1961 gaf Morgan skýringar á ferðalaginu í viðtali. „Ég vildi að ég væri að byrja núna. Auðvitað er ég þakklátur fyrir tækifærin sem ég hef fengið – að spila með stórsveit Dizzys varla 18 ára gamall. Ég upplifði hluti sem aðrir ungir spilarar hafa ekki tækifæri á að nýta sér. Ég gerði fullt af plötum en það voru bara viðskipti. Ég óska þess að ég væri að byrja að taka upp núna. Of margar upptökur hafa meiri áhrif á blásara en rytmasveitina: Hornið er rödd bandsins. Ég hef ekki mikið nýtt að segja … Ég er að reyna að spila eins og saxófónspilari. Ég mundi vilja geta náð þriggja áttunda fraseringum eins og þeir gera sem þýðir að þú þarft að æfa mjög mikið. Stundum getur maður það ekki sökum þreytu eftir tónleika heilu kvöldin. En mér líkar að spila og í flestum bæjum er ekkert við að vera nema þá æfingar og hlakka til að fara í vinnuna að kvöldi.“

Hræðsla um að of margar útgáfur á unga aldri gætu valdið mettun á viðkomandi spilara á markaðnum stöðvaði ekki Morgan í að læra meira um fag sitt og þróa sig sem listamann. Eitt af átrúnaðargoðum Morgans og náinn vinur, Miles Davis, kom með gagnrýni sem hjálpaði Morgan að finna sína leið: „Og allt þetta tal um hvað Miles er erfiður í umgengni …“ sagði Morgan. „Þú getur ekki spilað eins fallega og hann gerir án þess að vera fallegur að innan. Hann kemur alltaf að sjá mig þegar við erum að vinna í sama bænum. Eitt kvöldið labbaði hann inn þegar við vorum að spila og ég taldi mig hafa spilað mjög vel. Þegar við kláruðum settið fer ég að spjalla við Miles. Hann bara glápti á mig um tíma og spurði svo: „Af hverju hægirðu ekki á þér?“ Það fyndna við það var að hann hafði rétt fyrir sér. Ég fór og hlustaði á plöturnar mínar og áttaði mig á að ég var að spila of mikið. Maður þarf að læra að nota þögnina á milli fraseringa. Ef það væri ekki fyrir Miles þá væri ég ennþá að reyna að ná eins mörgum nótum inn í viðlagið eins og ég gæti.“ Tímabilið með The Jazz Messengers gerði það að verkum að spilamennska Morgans þroskaðist úr því að vera með brjálaða innkomu inn í sóló og að keyra í gegnum hljómaskiptin – hann lærði að tjá hugmyndir sínar með nýjum þroska, ekki aðeins í að ná til áheyrenda, heldur líka að viðhalda tengingunni út í gegn.

Á meðan The Jazz Messengers nutu mikillar velgengni í sköpun sinni um 1960, þá var Morgan að missa stjórn á einkalífinu. Heróínneyslan sem hófst tveim árum áður tók sífellt meiri orku, tíma og peninga frá Morgan. Á meðan bandið naut þessarar miklu velgengni byrjaði Morgan að eyða enn meiri tíma í heróínneyslu árið 1961. Hjónaband hans og Kiko Yamamoto þjáðist fyrir vikið og einnig fagmennska hans. Horfnir voru dagarnir þar sem Morgan lá yfir nýjum lagasmíðum vikum saman. Trompetleikarinn eyddi flestum vökustundum sínum í að ná í heróín og að vera vímaður. Hann brást skuldbindingum sínum sem tónlistarstjóri The Jazz Messengers sem gerði það að verkum að Wayne Shorter tók yfir tónlistarstjórahlutverkið í bandinu. Tónverk Morgans frá 1961 – „Afrique“, „Blue Lace“, „Pretty Larceny“, „Pisces“, „Uptight“ og „The Witch Doctor“ nutu virðingar en voru, samkvæmt Kiko, sett saman í hraði. Hún kallaði hann „The Procrastinator“, að hann væri með frestunaráráttu. Síðar árið 1967 gaf Morgan út plötu með sama nafni. Á meðan sóaði Morgan tíma sínum í heróín og sinnti aðeins mikilvægum málum á síðustu stundu.

Um miðjan júlí árið 1961 kom bandið til New York til að spila viku á The Jazz Gallery. Það var í síðasta skiptið sem hann spilaði með þessari útgáfu af The Jazz Messengers. Í ágúst sama ár var Morgan atvinnulaus. Hann var kominn að krossgötum. Hann gat stofnað sitt eigið band, gengið til liðs við annað band eða spilað sem „session“ maður, til að hafa í sig og á. Í heljargreipum fíknarinnar gat Morgan lítið annað gert en að fæða fíknina, hann spíralaði niður stíg glötunar og sjálfsskaða. Lee Morgan mundi senn ná botninum.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965

https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop

Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers

https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s