Lee Morgan iii

Ræsið

Síðla sumars 1961 birtust fréttir af því að Lee Morgan mundi yfirgefa The Jazz Messengers til að stofna sitt eigið band. Fréttir birtust í Downbeat jazz-tímaritinu þann 31. ágúst 1961 um að bandið væri næstum fullskipað með Clifford Jordan á sax og Lex Humphries á trommur. Sannleikurinn var hins vegar allt annar. Morgan var ekki í neinni stöðu til að koma sér úr hlutverki „sideman“ í hlutverk bandleiðtoga. Þrátt fyrir vinsældir hans og þróun sem tónskálds, þá hafði heróínneysla hans farið endanlega úr böndunum. Árið 1961 bætti hann verulega í neysluna þannig að hún varð það eina sem Morgan gat sinnt, neyslan tók yfir allt hans líf. Í stað þess að semja nýtt efni, reyna að verða sér út um tónleika eða stunda æfingar, þá kaus Morgan að eyða öllum stundum í að ná í dóp og dópa, frá morgni til kvölds.

Sumir, eins og Art Blakey, náðu að hafa stjórn á inntökunni. Lee var ekki einn af þeim. Lee hafði mögulega haft smá stjórn í byrjun en eftir því sem hann varð háðari neyslunni þá varð þetta alveg ómögulegt. Þegar hann hætti hjá Blakey, þá var hans fyrsta verk að veðsetja trompetinn sinn fyrir heróín. Á meðan Morgan brenndi upp úrræði hjónanna, lagði Kiko eiginkona Morgans á ráðin um að þau myndu flytja sig í heimabæ Morgans, Fíladelfíu, og fá aðstoð foreldra Morgans. Hjónin fengu inni hjá systur Morgans en var fljótlega vísað á dyr eftir að blóð hafði fundist inni á baðherberginu eftir sprautunotkun. Systir hans með tvö ung börn sá enga aðra kosti. Morgan og Kiko fluttu því næst inn til foreldra Morgans. Fljótlega fór að bera á árekstrum milli Morgan hjónanna og Kiko. Morgan hjónin stóðu á því að eiginkonan ætti að standa þétt upp við eiginmann sinn í vandræðum hans, jafnvel að vinna þrjár vinnur ef með þyrfti. Kenndu jafnvel Kiko um neyslu sonarins. Það leið ekki á löngu þar til Kiko yfirgaf Morgan og Fíladelfíu fyrir Chicago.

Morgan byrjaði árið 1962 eins og 1961, dópaður í stöðugri leit að peningum til að kaupa dóp. Ótrúlegt nokk, í janúar fór Morgan til New York til að leiða upptökur. Hafandi gert samning um útgáfu á tveimur plötum við Jazzland Records, stuttu eftir brottför sína úr Jazz Messengers. Morgan vantaði svo sannarlega peninga en þó hann hafi verið búinn að veðsetja trompetinn sinn þá hafði hann aðgang að píanói heima fyrir sem hann samdi á, hann fékk svo lánaðan trompet í upptökurnar. Morgan treysti á tónlistarlegt innsæi sitt og reynslu til að keyra dæmið í gegn. Upptökur hjá Jazzland Records voru ekki eins og hjá Blue Note. Hjá Blue Note fengu menn borgaða tvo daga í æfingar áður en plötur voru teknar upp. Hjá Jazzland voru engar æfingar, mönnum var uppálagt að vera með hlutina á hreinu og klára upptökur á einum degi. 

Þegar tekið er tillit til þess að Morgan hafði verið fjarri jazz-senunni í sex mánuði og að hann hafði þurft að leggja á sig ferðalag til borgarinnar, þá má ætla að þessar upptökur hafi verið settar saman í flýti, jafnvel hroðvirknislega. Það er öðru nær, þann 24. janúar 1962 var platan Take Twelve tekin upp, oft nefnd sem ein af bestu upptökum Morgans. Með honum voru Clifford Jordan á sax, Barry Harris á píanó, Bob Cranshaw á kontra og Louis Hayes á trommur. Platan er vendipunktur að einu leyti, spilamennska Morgans varð rólegri en á fyrri plötum og heldur svalari með lengri þagnir á milli fraseringa en þó með sínar klassísku hröðu rokur inn á milli. Tónsmíðar Morgans á plötunni voru í svipuðum stíl og fyrri tónsmíðar, þær áttu þó eftir að taka stakkaskiptum á næstu plötum. Morgan slær nýjan tón með útsetningu sinn á titillagi plötunnar. Take Twelve var óútkomið lag úr smiðju jazzpíanistans Elmo Hope. Lagið var endurútgefið á plötu Elmo „Sounds from Rikers Islands“ undir nafninu „One for Joe“ rúmu ári síðar. Útsetning Morgans á laginu er meistaraleg og spilamennskan hjá bandinu er goðsagnakennd. Tónninn sem gefinn er, er aðeins út fyrir standard Hard Bopið sem Morgan hafði verið að fást við í gegnum tíðina. Það má vera að það hafi haft áhrif á ferlið að þetta er á þeim tíma sem menn eru búnir að vera að spila Hard Bop í ein sjö ár, frá 1955, og mögulega farnir að huga að næstu jazz-byltingu. Sú bylting var kölluð Freedom jazz á meðal jazz-tónlistarmanna en plötufyrirtækin gáfu fyrirbærinu heitið Fusion.

Eftir upptökurnar á Take Twelve fór Morgan aftur heim til Fíladelfíu og hvarf næstu sex mánuði. Hann fékk einstaka gigg með gömlum félögum öðru hverju en þurfti þá alltaf að fá lánshorn sem var tekið af honum um leið og hann hætti að spila á það. Chet Baker hafði búið í sama húsi og mögulega sömu íbúð, um tíma í New York, þegar Morgan bjó þar. Baker setur neyslu Morgans í samhengi:

„Mér líkaði víman, ekki allir bjánarnir sem voru að selja og stela af hverjum skammti, ræna fólk og brenna það inni með ónýtt dóp. Sumir tónlistarmenn leyfðu eiturlyfjum að menga dómgreind sína þannig að þeir hættu að vera sómakærar manneskjur. Eins og þegar þú ferð með annarri manneskju að kaupa 25 dollara poka af efnum og þú drífur þig heim til þess að kokka þetta. Þú snýrð þér við í smá stund og þá er hinn búinn að draga allt efnið upp í sprautuna sína og setja vatn í þína, það er algjörlega sjálfselsk hegðun. Ég á við að ég bjó í sömu byggingu og Morgan og átti við nokkur vonbrigði að etja í þessu samhengi með Morgan.“

Sögusagnir um dauða trompetleikarans fóru á flug í jazz-senunni og í dagblöðum svartra. Nokkrum árum síðar rifjaði Morgan upp að hann hafi hlustað á útsendingu Symphony Sid í útvarpinu af minningarútsendingu vegna dauða Lee Morgans. 

Síðla sumars 1963 var Morgan kominn aftur til New York til að reyna að stimpla sig inn í jazz-senuna á ný. Hann fór hægt af stað, fékk lánaðan trompet til að spila öll kvöld. Reglan í jazz-heiminum varðandi lánshljóðfæri var sú að ef viðkomandi spilari var í heróíni þá varð þriðji aðili að taka ábyrgð á lúðrinum. Menn voru illa brenndir eftir að Charlie Parker hafði veðsett fleiri hundruð hljóðfæri á ferlinum sem hann átti ekkert í, þar á meðal eina 15 saxófóna frá lærlingi sínum Jacky McLean. Það leið ekki á löngu þar til tilboðin hrönnuðust upp hjá Morgan. Í lok september hafði gamli vinur hans Hank Mobley samband og vildi fá Morgan til að vera með sér á plötu. Mobley hafði sjálfur lent illa í því í gegnum heróínneyslu sína. Eftir langa veru hjá Miles Davis, frá 1960 til 1962, átti Mobley í mestu erfiðleikum með að finna vinnu sem „freelancer“. Það varð til þess að hann dembdi sér inn í nýtt tímabil af heróínneyslu. Þessar upptökur voru tækifæri fyrir tvo dópista sem þurftu nauðsynlega að þéna pening, að staðfesta ógnvekjandi orðspor sitt sem spilarar. Heimsóknin í stúdíóið reyndist vera úthaldspróf. Bandið fór í gegnum einar 26 tökur og uppskar sex lög út úr því. No Room for Squares kom svo út í maí 1964. Spilamennska Morgans var alveg á pari við Messengers tímabilið, sjóðandi heit með nýfengnum þroska.

Síðla árs 1963 skráði Morgan sig inn á Lexington afvötnunarstöðina fyrir heróínsjúklinga í Kentucky. Engin opinber tilkynning kom frá Morgan um málið. Dorothy Kilgallen, dálkahöfundur og harðkjarna jazz-aðdáandi, fékk veður af áætlunum Morgans. Hún birti dálk sinn þann 23. nóvember 1963: „Lee Morgan, hæfileikaríki ungi trompetleikarinn, er farinn til Lexington til að fá lækninguna.“ Á barmi nýrrar endurkomu, þá var enn veruleg hætta á því að Morgan myndi láta heróín afvegaleiða sig. Hvað varð raunverulega til þess að hann skráði sig er óvitað. Kannski fór hann sjálfviljugur í von um að endurheimta líf sitt en það er líka mögulegt að hann hafi verið handtekinn og hafi valið lækninguna fram yfir fangelsi eða að Blue Note hafi sett honum úrslitakosti?

Þremur og hálfu ári eftir að Morgan hafði síðast leitt upptökur hjá Blue Note, tími sem hann hafði notað mestmegnis til að dópa, kom Alfred Lion, annar eigandi Blue Note, að máli við Morgan. Lion bauð honum þriggja platna samning. Alfred Lion var mjög annt um Lee Morgan og má vera að hann hafi verið að reyna að hjálpa Morgan. Lion var einnig útsmoginn í viðskiptum. Það er engin spurning að hann hefur heyrt og áttað sig á nýjum þroska Morgans af upptökum hans með Hank Mobley, mögulega áttað sig á að Morgan hefði mun meira að gefa. Hið nýja samstarf Blue Note og Lee Morgan átti eftir að verða mun ábatasamara fyrir báða aðila en þá gat nokkurn tíma órað fyrir.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965

https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop

Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers

https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s