Lee Morgan IV

Endurkoma

Eftir að hafa endurnýjað samning við Blue Note var fyrsta verk Morgans að ráða tónlistarmenn til verksins. Hann valdi Joe Henderson á tenór sax, Barry Harris á píanó, Bob Cranshaw á kontrabassa og Billy Higgins á trommur. Art Blakey hafði fengið boð um að spila en var upptekinn í verkefnum utanbæjar. Higgins var nýgræðingur í New York senunni um svipað leyti og Morgan dró sig út úr henni.

Morgan rifjaði upp síðar: „Ég heyrði mikið talað um Billy en ég vissi ekki hver hann var, kannski var það þegar Billy bjó í Los Angeles. Ég man eftir að hafa heyrt um hann þegar hann var í bandinu hans Ornette Coleman. Við fengum svo fyrstu tónleikana okkar saman í gegnum Al Lion. Ég hef mikið dálæti á honum. Hann er með mikinn þroska miðað við ungan aldur. Hann yfirspilar aldrei þannig að lúðrarnir drekkist en maður veit samt alltaf af honum.“

Þó að aðdáun Morgans á Higgins hafi farið vaxandi með árunum, þá var hann mjög ánægður með afraksturinn af þeirra fyrsta samstarfi. „Ég náði Billy inn, hann hafði ekki einu sinni séð tónlistina en hann spilaði þetta frábærlega og fór létt með það.“ Næstu ár áttu þeir eftir að vinna oft saman í stúdíói og túrandi með bandi Morgans.

Um Joe Henderson sagði Morgan: „Ég heyri fullt af áhrifum í honum, auðvitað heyri ég Sonny og Trane, smá Bird líka en það mikilvægasta er að hann er, að ég held, að finna sín eigin séreinkenni, stíl.“ Eftir upptökurnar sagði Lee um Henderson: „Nú þegar ég hef unnið með Joe, þá er ég fullur tilhlökkunar að vinna með honum aftur. Hann er mjög skilvirkur í alla staði. Kannski get ég fengið hann til að semja eitthvað næst.“

„The Sidewinder“ er „shuffle“ blús þema sem átti eftir að verða eitt eftirminnilegasta lag Morgans, það var samið í stúdíóinu og skrifað niður í snarhasti á klósettpappír. Cranshaw minnist þess að Morgan hafi haft sig afsakaðan til að fara á klósettið á meðan upptökum stóð á heimili Van Gelder. Upptökurnar höfðu gengið vel. Þeir höfðu tekið upp þrjú af þeim fjórum lögum sem voru tilbúin en það var ljóst að jafnvel með „Gary´s Notebook“ væri nægt efni til að fylla LP plötu.  Þegar Morgan hafði verið á klósettinu í tuttugu mínútur fór Cranshaw að velta því fyrir sér hvort væri í lagi með Morgan. Kannski hefði hann fengið sér dóp og sofnað. Stuttu síðar kom Morgan út af baðherberginu með nokkrar klósettpappírsarkir þar sem lagið Sidewinder hafði verið niður skrifað. Lagið var tuttugu og fjögurra takta blús með melódíu sem var auðvelt að læra.

Um lagið sagði Morgan: „Lagið setur mig í spor „sidewindersins“, þú veist, vondi gaurinn í sjónvarpinu. Það er til snákur sem heiti sidewinder en ég var að hugsa um vonda gæjann.“ Sidewinder var samheiti yfir bófana í kúrekamyndum frá 1950. Þáttunum The Riflemen var sjónvarpað frá 1958 til 1963 sem gætu hafa verið innblásturinn að titlinum. The Riflemen voru gríðarvinsælir þættir og var einn þáttur í síðustu seríunni sem bar titilinn „The Sidewinder“.

Morgan sýndi aukinn þroska í bæði lagasmíðum sínum og spilamennsku. The Sidewinder varð söluhæsta platan á ferli Morgans, þar sem spilamennska hans var með því betra sem hann hafði boðið upp á.

Eftir upptökurnar fór Morgan til Fíladelfíu og spilaði viku með Jimmy Heath. Þeir lokuðu með tónleikum um áramótin 1963. Með peninga í vasanum eftir Blue Note upptökurnar og viku með Heath, þá var Morgan ekki að leita að vinnu. Árið 1964 eyddi hann fyrstu sex vikunum á Manhattan í að slæpast, skjóta sig með heróíni og semja tónlist. Þó að ástand hans hafi versnað á árunum 1962 og 1963, þá virtist hann ná að halda betur utan um neyslu sína eftir meðferð. Hann var að einbeita sér að næstu upptökum í stúdíói fyrir Blue Note, lög sem voru flóknari en nokkuð sem hann hafði gert áður.

Fyrir næstu upptökur hafði Morgan svipað frelsi til að ráða þá sem honum þóknaðist eins og á The Sidewinder. Það átti eftir að leiða til persónulegustu og  metnaðarfyllstu plötu sem Morgan hafði gert, „Search for the New Land“. Titillinn og merkingin hafði sérstaka þýðingu fyrir Morgan. Skrifað í miðri menningarbyltingu og aðeins mánuði eftir að Kennedy forseti var tekinn af lífi í Dallas þá var „Nýja land“ Morgans land jafnræðis, land frjálst frá rasisma og mismunun. Morgan hafði aldrei áður sett fram list sína í svo framsæknu og sósíalísku formi, jafnvel pólitísku. Hann réði Wayne Shorter og Reggie Workman úr The Jazz Messengers og svo þrjá fastaspilara hjá Blue Note, þá Herbie Hancock, Billy Higgins og Grant Green gítarleikara. The Sidewinder var frægari plata en þetta „session“ átti eftir að skapa einhverja þá fallegustu og best úthugsuðu tónlist sem Morgan átti eftir að setja út á ferlinum. Titillagið er epískt í mjög óvenjulegu AB formi, byrjar í 4/4, fer svo í 6/4 eftir tvo takta, skiptir á milli 4/4 og 6/4 nokkrum sinnum áður en það sest í 4/4 í nokkra takta en svo kemur B kaflinn sem er allur í 3/4.

Þrátt fyrir metnaðarfullar plötuútgáfur, þá setti trompetleikarinn leiðtogahæfileika sína á ís í byrjun 1964 og hóf að leita sér að fastri vinnu. Af einskærri tilviljun hafði Freddy Hubbard gefið út yfirlýsingu, tíu dögum eftir að hann kláraði að taka upp plötuna Free for All með The Jazz Messengers, um að hann væri að fara að yfirgefa hljómsveitina og stofna sitt eigið band. Reggie Workman sem spilaði með Morgan á Search for the New Land, lét hann vita að staða trompetleikara í bandinu væri laus. Morgan hoppaði á tækifærið. Þó að hann miðaði hærra en að vera hliðarmaður í bandi þá kom tækifærið á hentugum tíma. „Ég hef alltaf viljað leiða mitt eigið band,“ viðurkenndi Morgan. „Jimmy Heath og ég prófuðum einu sinni. Við unnum kannski tvær til þrjár vikur samfellt en svo ekkert í tvo til þrjá mánuði, þannig að ég held mig við Art í bili. Enginn vinnur meira en hann og maður fær næga athygli með því að vinna með The Messengers. Blakey var með um mánaðarlangan túr, skipulagðan í Kaliforníu sem mundi byrja þann 27. febrúar á Shelly´s Manny Hole í Los Angeles. The Messengers var mjög frábrugðið band frá því sem það var þegar Morgan yfirgaf bandið sumarið 1961. Shorter og Blakey voru þar enn en Reggie Workman hafði komið inn fyrir Merritt, Cedar Walton kom í staðinn fyrir Timmons á píanó og Curtis Fuller hafði verið fastráðinn sem básúnuleikari bandsins.

Í apríl fóru Morgan og Shorter að vinna í öðru Blue Note verkefni en það var fyrsta sólóplata Wayne Shorter fyrir útgáfufyrirtækið. Shorter, líkt og Morgan, hafði stuttu áður skrifað undir samning við Blue Note. Þann 29. apríl mætti bandið í Van Gelder stúdíóið en í því voru tveir úr frægu bandi John Coltrane, McCoy Tyner píanisti og Elvin Jones trommari. Þessar upptökur gáfu af sér stórkostlega plötu Shorters og titillagið algjör meistarasmíð. Melódían í laginu Night Dreamer snýr frábærlega út úr Óðnum til gleðinnar eftir Beethoven og verður úr stórhættulegur krókur sem húkkar alla hlustendur.

Morgan hafði verið mun reglusamari eftir meðferðina en eftir endurkomuna í The Messengers þá tók við sama munstur og áður. Á meðan upptökur á Night Dreamer fóru fram var Morgan uppi á hótelherbergi í Fíladelfíu að undirbúa sig fyrir konsert þegar hann sprautaði sig með heróíni og missti meðvitund. Þegar hann féll, rakst höfuðið á honum í olíukyntan ofn og hann lá við járnið meðvitundarlaus í nokkurn tíma. Það var ekki fyrr en nokkru síðar og til happs fyrir Morgan, er Shorter ætlaði að athuga með vin sinn, að hann fann hann meðvitundarlausan liggjandi á gólfinu. Það blæddi úr höfðinu á honum og herbergið angaði allt af brennandi húð. Ljósmyndir sem teknar voru við upptökur á plötunni Night Dreamer, síðar í vikunni, sýna Morgan bundinn um höfuðið eftir atvikið. Áverkarnir skildu eftir varanlegt sár. Þar sem höfuðið hafði legið á ofninum, þar mundi ekki vaxa hár framar. Það er ómögulegt að ætla hverskyns sársauka Morgan hefur verið að upplifa eftir þetta en það er ekki að heyra á upptökum á Night Dreamer að þar fari þjakaður maður.

Árið 1964 fór jazzheimurinn í gegnum meiriháttar breytingar. Kannski var ein sú stærsta að Birdland sem nefnt var eftir Charlie „Bird“ Parker, tilkynnti að þeir mundu ekki lengur bjóða jazzbönd velkomin, heldur væri það rock´n roll og diskó sem væru númer dagsins. Þó að bransinn væri að fara í gegnum meiriháttar breytingar þá var ein leið örugg fyrir menn eins og Morgan, hljóðverið. En með aðeins eina plötu eftir á samningi sínum við Blue Note, þá var það ekki nóg til að viðhalda ferlinum til lengri tíma. Fullur af nýjum þroska úr spilamennsku og lagasmíðum réð Morgan band og hóf æfingar til að uppfylla lok samnings síns við Blue Note. Trompetleikarinn hafði aldrei áður lagt sig jafn hart fram og við upptökurnar á Tom Cat. Fyrir Tom Cat dagsetninguna réð hann félaga Fuller og Blakey, húsbassaleikara Blue Note Bob Cranshaw, alto saxleikara Jackie McLean og æskuvin sinn McTyner. Titillagið opnar plötuna með dularfullum og seiðmögnuðum bassa sem rennur saman við lúðrana á afskaplega áhrifaríkan hátt. Platan nær líklega hápunkti sínum í laginu Twice Around þar sem Curtis Fuller fer á kostum í fyrsta sólói, sóló Jackie McLean þar á eftir er engu lakara en það hefur vakið eftirtekt að sóló McLean byrjar á sömu nótu og Fuller hættir á.

Blue Note gaf út The Sidewinder í júlí 1964 með týpískri, ódýrri auglýsingaherferð. Platan fór vel af stað, var spiluð mikið í útvarpi. Hún seldist svo hratt að  hillur tæmdust hraðar en Blue Note menn gátu fyllt þær. Í byrjun október, aðeins tveimur mánuðum eftir útgáfuna var The Sidewinder í 135. sæti á Billboard vinsældalistanum. Það var ekki óheyrt að jazzplata næði inn á listann en til að ná þessum hæðum þurfti þá að vera söngvari, eins og Getz/Gilberto sem hafði verið á listanum í 19 vikur þegar Morgan datt inn á hann. Viðbragð Blue Note var að setja meira fé í auglýsingar, „Nýja hitt-platan eftir unga trompetleikarann frá Fíladelfíu, Lee Morgan. The Sidewinder: Uppáhald jazzaðdáenda út um allt.“ The Sidewinder bankaði upp á sem 100. vinsælasta plata landsins með því að ná 101. sæti. The Sidewinder hlaut mikið lof gagnrýnenda og var því ausið á Morgan í gegnum blaðagreinar. Salan í byrjun nóvember skaut laginu inn á topp 100, upp í 89. sæti. Viku eftir viku reis platan á listanum: 79, 66, 60, 52, 44 til 35 í síðustu viku 1964.

Um velgengni The Sidewinder sagði Morgan: „Hún hefur haft mikið að segja. Hún kom á réttum tíma fyrir mig, á tíma sem ég virkilega þurfti eitthvað. Ég hafði ekki verið á svæðinu í dálítinn tíma en þetta var guðsgjöf að fá þetta í hendurnar. En þetta er allt frekar erfitt í Bandaríkjunum. Knæpueigendur segja að tónlistarmenn biðji um of mikla peninga fyrir að spila. Útgáfufyrirtækin segja að fólk sé ekki að kaupa plötur en sé að fara á klúbbana. Þessi klassíska saga, allir að búa til pening nema tónlistarmennirnir.“

Um mitt árið 1965 voru The Jazz Messengers bókaðir á túr í BNA. Morgan lét ekki sjá sig og var hvergi hægt að finna. Hann hafði sagt skilið við The Messengers og kosið í staðinn að einbeita sér að tilvonandi upptökum. Morgan hafði fengið nóg af því að túra. Hann fann sig án fastrar viðveru í hljómsveit eða sem sólóisti. Lifði trompetleikarinn á höfundarlaunum og „session“ vinnu. Hann leigði sér herbergi á hóteli í miðbænum og skiptist á að hanga yfir engu og að dópa sig. Morgan þurfti ekki að hafa áhyggjur af litlu vinnuframlagi sínu, þar sem hann var samningsbundinn að taka upp tvær plötur til viðbótar fyrir árslok.

Í september fór Morgan í stúdíó og tók upp plötuna Cornbread með svipað gengi og hann hafði notað á Search for the New Land. Þar má finna frægustu ballöðu Morgans, Ceora. Einnig er þar lagið Our Man Higgins sem er tileinkað trommaranum Billy Higgins. Þar er einstök tónsmíð úr heiltónaskalanum sem Billy Higgins heldur meistaralega saman með rytma sínum. Laglínan kemur beint úr heiltónaskalanum en í sólóum er því skipt á milli heiltóna og dúrskala. Higgins hafði sýnt einstaka fjölhæfni árið 1965 þegar hann spilaði með jazztónlistarmönnum úr mjög ólíkum áttum en samt alltaf á hæsta kaliberi. Higgins var einn af uppáhaldstrommurum Morgans, enda er hann á flestum plötunum hans.

Árið 1965 var umbrotaár fyrir jazz. Birdland lokaði, aðrir klúbbar í New York skáru niður jazz, þeim var breytt í rokkklúbba eða útilokuðu jazz alveg. Tónleikar á leikvöngum voru að byrja og voru nýjabrumið í tónlistarflutningi, rokkararnir náðu að nýta sér það. Stöðunum fækkaði mikið og var baráttan því meiri um þá staði sem eftir voru.

Morgan tók upp fjórar plötur fyrir Blue Note í eigin nafni árið 1965. Cornbread og Infinity, þar sem Morgan státar af fjórum nýjum lögum. Þar standa upp úr titillagið, Growing Pains (Vaxtarverkir), og Zip Code, einstakar tónsmíðar með heitum sólóum þar sem Jackie McLean fer á kostum ásamt öðrum. The Rumproller og The Gigolo eru hinar tvær. Morgan hefur verið ansi duglegur að semja nýja tónlist árið 1965 því í byrjun þess árs margfaldaðist skráning á verkum eftir Morgan sem fengu höfundarrétt. Enn í dag er fjöldinn allur af lögum eftir Lee Morgan sem skráð eru en enginn hefur heyrt, nema Lee. 

Árið 1966 gerði Morgan þrjár plötur: Delightfulee, Charisma og The Rajah.

Í byrjun 1967 bjó Morgan á hóteli í miðri Manhattan ásamt vini sínum Leroy Gary. Þeir höfðu verið mátar í gegnum árin og sérstaklega þegar til var dóp. Lagið „Gary´s Notebook“ var samið um Leroy. Þegar Lee og Leroy voru annars vegar, þá var yfirleitt von á meiri heróínneyslu í túrum og öðrum tengdum vandræðum. Í apríl tók Morgan upp Sonic Boom fyrir Blue Note. Ekki var mikið af vinnu í boði, Morgan eyddi þremur mánuðum án vinnu en næsta verkefni hans voru upptökur á The Procrastinator fyrir Blue Note. Með honum voru Wayne, Herbie, Ron Carter, Billy Higgins og Bobby Hutcherson á víbrafón. Platan kom ekki út fyrr en fjórum árum eftir dauða Morgans, 1976. Útgáfufyrirtækið var með fjölmargar upptökur eftir Morgan sem höfðu ekki verið gefnar út um mitt ár 1967. Af tíu nýjum útgáfum Blue Note árið 1966 var Morgan á fjórum af þeim: Art Blakey – Idestructible, Joe Henderson – Mode for Joe, Hank Mobley – Dipping og á sinni eigin Search for the New Land. Stuttu eftir þetta birtist The Gigolo, Cornbread og Delightfulee í plötubúðum.

Morgan fór í stúdíó 10. nóvember 1967 til að taka upp The Sixth Sense. Með honum voru Frank Mitchell á tenór sax, Jackie McLean á alto sax, Cedar Walton og Harold Mabern á píanó, Victor Sproles og Mickey Bass á bassa og Higgins á trommum. Platan kom út 1970 með sex lögum, þar af voru fjögur eftir Morgan. Titillagið rennur ljúflega í gegn, þar næst Short Count þar sem leikurinn færist upp á nýtt stig, spennuþrungið lag með mögnuðum sólóum. Anti Climax er annað magnað lag á The Sixth Sense.

Þremur vikum síðar var Morgan í upptökum með McCoy Tyner á plötu sinni Tender Moments, þar sem hann minnist félaga síns John Coltrane sem hafði dáið í júlí 1967, með laginu Mode for John. McCoy heiðraði vin sinn Morgan með lagi um hann er hann nefndi Lee plus three. „Þetta er einhverskonar nostalgía, óður til eldri tíma þegar ég og Lee uxum úr grasi og spiluðum saman í Fíladelfíu.“ Þetta session var Morgan mikilvægt því hann hitti í fyrsta skipti Benny Maupin. Saxófónleikarinn frá Detroit gekk til liðs við Morgan tveimur árum síðar.

Um svipað leyti hóf Morgan ástarævintýri með konu að nafni Helen More. Það leið ekki á löngu þangað til Morgan flutti inn í íbúð sem hún leigði í Bronx. Helen átti eftir að hafa veruleg áhrif á líf Lee Morgans, bæði til góðs og slæms, svo mikil að það mun aldrei gleymast.

-Sigþór Hrafnsson

Heimildir: 

Lee Morgan

His Life, Music and Culture – https://www.equinoxpub.com/home/lee-morgan/

Delightfulee

The Life and Music of Lee Morgan – https://www.press.umich.edu/132323/delightfulee

Hard Bop: Jazz and Black Music 1955-1965

https://www.goodreads.com/en/book/show/134182.Hard_Bop

Hard Bop Academy: The Sidemen of Art Blakey and the Jazz Messengers

https://www.goodreads.com/book/show/1117054.Hard_Bop_Academy

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s