Þessi plata er ein af stórkostlegustu verkum jazzsögunnar. Á henni er valinn maður í hverju rúmi. Art Blakey á trommur, Hank Jones á píanó, Sam Jones á bassa, Miles Davis á trompet og Cannonball Adderley á sax. Miles Davis er hér í hlutverki hliðarmanns, sem var nánast óheyrt og var lítið um. Titillag plötunnar er lag eftir Miles. Titill lagsins, Somethin’ Else, er eins mikið réttnefni á lagi og hægt er að komast með það. Melódían er byggð upp á einfaldri þriggja nótna fraseringu sem er endurtekin af Adderley í keðjusöng. Úr verður ótrúlega rafmögnuð suða nótna er vekja í senn undrun og gleði hjá hlustandanum. Úr verður svo sterkur keðju-krókur að hlustandanum er einfaldlega landað eins og hverjum öðrum fiski á línunni. Útspilið á melódíunni er enn magnaðra, þegar aukinn kraftur færist í hana.
Útgáfan af Autumn Leaves er eins sú frægasta sem um getur. Bætt hefur verið við nýju upphafi er þræðir upp g-moll sexundarhljóm þangað til melódían dettur inn. Miles spilar melódíuna með einstakri næmni. Tímasetningar á frösum hans vekja sífellda undrun því þær eru svo stórkostlega réttar. Miles klárar melódíuna með mjög óvenjulegum rhythma upp hálf-heiltóna „diminished” skalann er hann sleppir síðustu nótunni út í tómið. Inn kemur Cannonball Adderley, það fyrsta sem maður tekur eftir er tónninn, hann er óvenjulega þykkur, svo mikið að það drýpur af honum sætur nektar sem maður fær aldrei nóg af. Afslöppunin í spilamennskunni er aðdáunarverð, hröðu frasarnir eru eins og hann sé að renna sér niður skíðabrekku, alveg áreynslulaust. Sólóið sjálft er fyrir löngu orðið goðsagnarkennt. Fjöldinn allur af vel metnum mönnum hafa tekið það í sundur á Youtube, allir eru þeir jafn undrandi. Fyrir nemanda í jazz, þá er þetta hið fullkomna sniðmát á jazzsólói, einhvað sem allir nemendur í jazzi ættu að setja sér að læra, utanbókar! Það inniheldur allt sem gott jazzsóló á að innihalda og svo aðeins meira. Það væri líkleg einhverskonar glæpur að reyna að lýsa þessu með orðum, það verður aldrei hægt, ekki einu sinni með ChatGPT.
Lagið Love for Sale eftir Cole Porter er í einstakri útgáfu þarna. Miles spilar melódíuna með sínum femíniska tón og hittir vel á það. Platan öll er sérstaklega vel heppnuð í alla staði.
-Sigþór Hrafnsson