Bragi Ólafsson hefur sent póst númer tvö:
Skyndilega – og allt í einu – gerði ég mér grein fyrir að kominn væri annar miðvikudagur í mars (reyndar sá þriðji í mánuðinum), og að komið væri að mér að birta uppáhalds jazzplötur nr. 11 til 20. Ég held ég hafi rankað við mér þegar ég hlustaði á morgunútvarp Ríkisútvarpsins, sem vanalega tilheyrir Rás eitt, en er nú allt einu, tímabundið (vonandi), í samstarfi Rásar eitt og tvö. Það var kominn svo hress tónn í útvarpsfólkið (þrátt fyrir ástandið í heiminum); það var farið að tala hraðar; og það sem verra var: það var farið að spila alls konar músík sem ég er ekki vanur að heyra í „ómenguðu“ morgunútvarpi Rásar eitt. Þannig að. Þá mundi ég eftir Ráðlögðum. Kannski vegna þess að mig langaði til að hafa afskipti af tónlistarvalinu. En af því að ég nefni plötur 11 til 20, þá verð ég að ítreka að þetta er ekki þannig að plata nr. 11 sé í meira uppáhaldi en plata nr. 12. Það má jafnvel færa rök fyrir því – ef það er þá hægt – að plata nr. 20 sé í meira uppáhaldi en plata nr. 14, svo ég taki dæmi. Að plata nr. 18 hafi lent mun oftar á fóninum en plata nr. 17, og ætti því frekar að vera nr. 17. En þetta gengur ekki út á það. Nýjungin í þessum vikuskammti er aftur á móti sú að hér tekur aðvörun frá fyrstu vikunni gildi: í þessum skammti er nefnilega plata sem í hefðbundnum skilningi er ekki jazzplata. Til að gera þetta enn meira spennandi nefni ég ekki titil þeirrar plötu hér í innganginum. Hún er bara þarna. Og verður um ókomna tíð. Neytendur Ráðlagðs verða bara að finna út úr þessu sjálfir. Auðvitað langar mig til að láta einhver orð fylgja einstaka plötum á þessum lista nr. 2, en það verður að bíða. Ég verð að passa mig á að gerast ekki of hress.
Pingback: Blásið í hátíðarlúðra | Ráðlagður jazzskammtur