Mal Waldron

Þá að Mal Waldron, manni sem stundum er nefndur í sömu andrá og Thelonious Monk. Waldron var fjölhæfur og eftirsóttur píanóleikari í New York á sjötta áratugnum, spilaði meðal annars með Charles Mingus og Billie Holiday og snerti á ýmsum stefnum og stílum. Og heróíni, sem heyrði þó varla til tíðinda meðal jazztónlistarmanna New York borgar á þessum tíma. Upphaflega ætlaði hann reyndar að verða klassískt tónskáld og lagði stund á nám í balletttónsmíðum, en jazzinn lagði snörur sínar fyrir hann á námsárunum og það var ekki aftur snúið eftir það.

Hér fylgja tvö lög af plötunni The Quest frá 1961, þar sem saxófónleikararnir Eric Dolphy og Booker Ervin leika stórt hlutverk. Fyrra lagið, Fire Waltz, heyrði ég fyrst í jazzþætti Lönu Kolbrúnar Eddudóttur, Fimm fjórðu, fyrir nokkrum árum, og það verður að eilífu tengt þeim ágæta þætti í huga mínum. Seinna lagið, Warm Canto, er dæmigert fyrir tónsmíðar Mal Waldron þótt stíllinn ætti eftir að þróast talsvert. Langar angurværar línur og vandlega skammtaðar ómstríður. Fullkomin yfirvegun.

En Mal Waldron átti tvö líf. Árið 1963 tók hann ofskammt af heróíni, missti minnið um hríð og var mikið til ófær um að spila á píanó næstu tvö árin – hann þjálfaði sig upp að nýju meðal annars með því að hlusta á upptökur með sjálfum sér. Hann flutti í kjölfarið til Evrópu og hóf feril númer tvö. Hann var áfram iðinn lagahöfundur, en nú var stíllinn frjálsari og sérstæðari, og oft býsna mínímalískur og íhugull. Gott dæmi er lagið The Seagulls of Kristiansund af samnefndri plötu frá 1987.

Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir að ég hafði ákveðið að setja hér inn lagið The Seagulls of Kristiansund að Charlie Rouse hefði spilað í því. Charlie Rouse, sem er þekktastur fyrir samstarf sitt með Thelonious Monk, spilaði einmitt á plötunni Straight, No Chaser, en lag af þeirri plötu fylgdi síðustu færslu. Dálítið skemmtileg tilviljun, ekki síst í ljósi þess að skömmu eftir að síðasta færsla fór í loftið sendi ónefndur lesandi síðunnar mér nokkrar vel valdar athugasemdir í tölvupósti sem sneru að spilamennsku Charlie Rouse. Lesandinn var reyndar á því að … nei annars ég fer varla að birta það hér.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s