Tríó Agnars Más í Kornhlöðunni

Á ellefu platna listanum hér að neðan er að finna diskinn Láð með tríói Agnars Más Magnússonar, sem auk hans er skipað Valdimar Kolbeini Sigurjónssyni á bassa og Matthíasi MD Hemstock á trommur. Láð kom út árið 2007 og var annar diskur Agnars Más, sem sló með honum „íslenskan tón í djasssköpun sinni“, eins og Vernharður Linnet orðaði það í blaðagrein. Lögin eru flest byggð á gömlum sálmum og stemmum sem er unnið úr á svo hugmyndaríkan hátt að úr verður eitthvað alveg nýtt og alveg sui generis. Þetta er geggjaður jazzdiskur sem hættir ekki að vera ferskur þótt maður hlusti á hann aftur og aftur ár eftir ár. Þetta hef ég sannreynt.

Nýlega barst sú gleðifregn að von sé á nýjum diski frá sama tríói og tók upp Láð. Í aðdraganda hljóðritunar hélt tríóið frábæra tónleika í Kornhlöðunni á fimmtudaginn og lék nýjar útsetningar á þjóðlögum og rímum ásamt einu frumsömdu lagi eftir Agnar Má. Yfirbragðið minnti óneitanlega á Láð enda efnið aftur sótt í þjóðlega tónlistararfinn og stíleinkenni Agnars Más sterk; píanóleikurinn sem fyrr agaður og innhverfur og hvert lag pakkað af útpældum smáatriðum. Þó er tónninn kannski ekki eins „íslenskur“ og á Láði þrátt fyrir efniviðinn; mér fannst örla á meiri tengingum í vesturátt og kom dæmis Highway Rider með Brad Mehldau oftar en einu sinni til hugar.

Image may contain: 1 person

Mynd úr auglýsingu tónleikanna

Útsetningarnar á þjóðlögunum voru áhugaverðar og fjölbreyttar. Flest var í lágstemmdari kantinum en í síðasta laginu á efnisskránni, Blástjörnunni, hækkaði hitastigið um nokkrar gráður. Mörg lögin þekkti ég ekki áður og hlakka mikið til að heyra þau aftur – og vona jafnframt að eitthvað frumsamið fái að fljóta með. Tríóið spilaði vikugamalt og ónefnt lag eftir Agnar Má á tónleikunum – fallegt og ísmeygilegt lag – og var tónleikagestum boðið að leggja til nöfn. „Beðið eftir heimsfaraldri“ er tillaga Ragnars.

Kornhlaðan er hlýlegur tónleikasalur og falin perla í miðbænum. Ég velti fyrir mér hvort hún sé of vel falin, því að það sem eina vantaði þetta afbragðskvöld voru áheyrendur. Þeir fáu sem mættu dreifðu sér um salinn – og skorti því miður samtakamátt til að klappa tríóið upp í aukalag, þótt ég þykist viss um að alla viðstadda hafi langað að heyra meira. Þetta fámenni kom mér á óvart, enda er ég nýflutt frá borg þar sem þarf að hafa hraðar hendur til að ná miða á jazztónleika af þessum gæðum. Það var að vísu skítaveður þetta kvöld og kannski margir heima að „bíða eftir heimsfaraldri“. Bærinn var samt fullur af ferðamönnum sem hefðu örugglega margir viljað hverfa inn úr kuldanum og orna sér við háklassa kraumandi jazz, hefðu þeir bara vitað af honum. Ég mæli að minnsta kosti með því við ykkur, lesendur bloggsins, að þið látið næstu tónleika tríós Agnars Más ekki framhjá ykkur fara – og hafið augun og eyrun opin þegar nýi diskurinn kemur út.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s