Safnarabúðin og Planet Records

Bragi Ólafsson skrifar:

Það væri gaman að muna hvað ég borgaði fyrir hljómplötuna Deodato 2 í Safnarabúðinni, Laugavegi, árið 1978 eða 9, hugsanlega 1977. Ekki mjög mikilvæg vitneskja, en mig minnir að yfirleitt hafi maður borgað þetta á bilinu 500 til 1000 krónur fyrir plöturnar í Safnarabúðinni (kannski frekar 700 til 1500 krónur). Nú má einhver leiðrétta mig. Ég nefni þetta í og með vegna þess að um daginn lét ég fylgja þær upplýsingar í færslu um plötur með trommuleikaranum Joey Baron að ein þeirra platna væri of dýr til að panta frá útlöndum. Ég hafði ekki átt von á að fá athugasemdir vegna einhverra svona upplýsinga – hálfgerðrar aukasetningar í færslunni – en það var það sem gerðist: ég var spurður af „manni úti í bæ“ hvað ég hefði meint með því að þessi plata væri of dýr, og hvað hún hefði í raun og veru kostað. Ég gat ekki upplýst „manninn í bænum“ á því augnabliki, en ég get það núna: platan með Joey Baron (sem var reyndar bara geisladiskur) átti að kosta 29,56 dollara. Ofan á það myndi síðan bætast sendingarkostnaður, og öll hin margvíslegu gjöld sem hin íslenska póstþjónusta smyr ofan á sendingar utan úr heimi. Þannig að þegar upp væri staðið, stæði maður uppi með geisladisk sem kostaði mann mörg þúsund krónur. Það getur verið að sumum finnist það góð tilfinning að hlusta á tónlist heima hjá sér sem hefur kostað þá meira en hún ætti að gera – og ég get alveg ímyndað mér að einhvern tíma komi sá dagur að ég muni lifa mig inn í eitthvað svoleiðis – en … nú er ég alveg búinn að gleyma hvað það var sem ég ætlaði að hafa sem niðurstöðu í þessari setningu. Það verður að koma síðar. Mér finnst ég aftur á móti þurfa að nefna hvað hin platan sem ég á í safni mínu með Deodato, Prelude, kostaði mig. Því það má segja að ég hafi sömuleiðis keypt hana í eins konar safnarabúð, að vísu ekki á Laugaveginum, heldur á Mt Auburn Street í Cambridge, Massachusettes, í búð sem heitir Planet Records. Ég veit að þetta eru heldur ekki mjög mikilvægar upplýsingar, en það var heldur ekki ætlunin með þessari færslu, að veita einhverjar nytsamlegar upplýsingar. Prelude með Deodato „set me back“ um 11,99 dollara (+ tax), það var fyrir tveimur árum eða svo. Svo flaug ég með hana heim, til að komast hjá því að íslenska póstþjónustan kæmist með sína órólegu fingur í þessi nýju (en notuðu) aðföng mín. Áður en ég „set á fóninn“ lag nr. 1 á hlið 2 á Deodato 2, langar mig til að rifja upp nöfn fiðluleikaranna sem spila á plötunni. Þeir heita Harry Cykman, Max Ellen, Paul Gerschman, Harry Glickman, Emanuel Green, Harold Kohon, Harry Lookofsky, Joe Malin, David Nadien, Gene Orloff, Elliot Rosoff og Irving Spice.

Á plötunni Prelude, sem kom út árið 1972, ári á undan Deodato 2, eru öllu færri í fiðluleikarahópnum sem spila með „Deo“, ekki nema sjö talsins (Max Ellen, Paul Gerschman, Emanuel Green, Harry Lookofsky, David Nadien, Gene Orloff og Elliot Rosoff). Það eru því Harry Cykman, Harry Glickman, Harold Kohon, Joe Malin og Irving Spice sem bætast við þegar kemur að því að hljóðrita Deodato 2. Lágfiðluleikararnir eru þó þeir sömu á báðum plötunum, þótt nafn Alfred Brown sé stytt niður í Al Brown á Prelude (sem er skrítið, því Prelude kom út á undan Deodato 2, eins og ég var búinn að nefna). Nafn hins lágfiðluleikarans helst hið sama á umslögum beggja platnanna: Emanuel Vardi.

Það muna eflaust margir eftir þessari útgáfu af Also sprach Zarathustra úr bíómyndinni Being there:

One thought on “Safnarabúðin og Planet Records

  1. Takk fyrir skemmtilegt blogg. Hef sneitt hjá jassmúsík alla tið en nú 60+ datt ég allt í einu inn í þennann maganða heim.

    Like

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s