Það er Tómas R. Einarsson, kontrabassaleikari og tónskáld, sem skrifar upp á skammtinn á þessum sólríka degi:
Söngvarinn sem mig langar að skrifa um sem gestaskríbent er Spánverji, Diego El Cigala. Þegar ég var harðkjarnadjassmaður fyrir aldarþriðjungi hefði mér ofboðið að presentera flamenkósöngvara frá Andalúsíu í jafn vönduðu djassprógrammi. En þegar aldur færist yfir verður maður svo umburðarlyndur og víðsýnn að það hálfa væri nóg og hefur tæpast nokkur prinsipp lengur. Því þarf það ekki að koma á óvart að lagið sem ég vel með Diego ber vitni um enn meira prinsippleysi en valið á honum. Það er sem sé öldruð bólerólumma, Dos gardenias para ti – tvær gardeníur handa þér. Ótalinn her söngvara hefur skilað þessu 75 ára gömlu lagi Isolinu Carrillo með dásamlega rómantískum tilþrifum, hér má nefna tvo landa hennar, Omöru Portondo og Ibrahim Ferrer. Diego El Cigala náði alþjóðlegri frægð þegar hann starfaði með þá háöldruðum píanista, Bebo Valdés, kúbanskrar ættar sem hafði flúið byltingu og búið lengi í Svíþjóð. Í framhaldi af því hóf Diego sólóferil. Flamenkóuppeldið gerði hann að óvenjulegum túlkanda ýmissa þekktra kúbanskra laga og hann sneri ekki baki við kúbönsku áhrifunum í framhaldinu, hefur til að mynda gert stórsveitarlatínplötu, Indestructible, sem sækir lög og áhrif til latínhetjanna Rays Barretto og Héctors Lavoe. En hann tók líka smá snúning á tangóinn argentínska og útgáfan hér af Dos Gardenias er af tónleikaplötunni Cigala & Tango, og er eiginlega allt í senn; latíndjass, boleró, flamenkó og dass af tangói. Tónleikarnir voru haldnir í Teatro Gran Rex í Buenos Aires fyrir áratug. Rétt er í lokin að vekja athygli á tveimur meðleikurum Diegos; bassaleikaranum Yelsy Heredia frá Guantánamo á Kúbu sem syngur líka á móti Diego þegar þarf, og svo Katalónanum á píanóið, Jaime Calabuch “Jumitus,” sem hefur spilað um langa hríð með Diego. Þeir eru reyndar báðir Rómaættar, eða sígaunar eins og forðum var sagt, og hafa fáir þjóðflokkar í Evrópu reynst tónlistargyðjunni jafn þarfir.