Einn heppinn í Lucky

Föstudagsskammtur í boði Braga Ólafssonar:

Fyrir um það bil tveimur vikum birtist færsla hér á Ráðlögðum um plötu hins nýlátna Hal Willner, Amarcord Nino Rota, og minnst var alveg sérstaklega á að tóndæmið sem fylgdi væri af vínilplötu. Sem það var. Enda hljómaði tónlistin þannig: af gamalli vínilplötu. Ég hef sjálfur átt þessa tónlist mjög lengi á geisladiski, og ég man að ég hugsaði, um leið og ég sá fyrrnefnda færslu, hversu gaman væri að eiga þessa eigulegu plötu á vínil. Því þessi músík er vissulega eiguleg. Hún er góð út í gegn, á allan hugsanlegan hátt. Ekki eitt einasta augnablik dettur manni í hug að eitthvað hefði mátt missa sín; það er engin uppfylling, ekkert óþarfa lag, eða einhver rétt nóta sem hefði mátt vera röng; og maður kemst ekki hjá því að hugsa hversu vel Hal Willner vinnur úr hinum stórkostlega – en brothætta – efniviði sem tónlist Nino Rota er. Svona plötur er líka meira gaman að eiga á vínil en öðru formi.

En af hverju er ég að tala um þetta?

Fyrir nokkrum dögum fór ég í Lucky Records við Rauðarárstíg. Lucky Records er eftir því sem ég best veit stærsta plötubúð í bænum, með breiðasta úrvalið – og í vissum skilningi er Rauðarárstígur uppáhaldsgatan mín í Reykjavík, þótt ekki sé hún stærst eða best – og þaðan af síður fallegust – Þórdís Gísladóttir veit hvers vegna hún er uppáhalds. Ég ætlaði að kaupa afmælisgjöf. Og leyfði mér að gæla við þá hugmynd að ef til vill fyndi ég eitthvað annað í leiðinni, sem ég gæti sjálfur hugsað mér að fá í afmælisgjöf, þegar sá dagur rennur upp. Nú, svo er ekki meira með það. Ég fletti í gegnum rekkana í búðinni, finn afmælisgjöfina, og skoða ýmislegt annað sem mig dauðlangar til að kaupa (en kaupi ekki – ekki að sinni). Ég fyllist ákveðinni tegund af depurð – depurð hins ófullnægða neytanda, sem á ekki afmæli fyrr en eftir nokkra mánuði. Ég held reyndar að nú sé orðið alveg ljóst í hvaða farveg þessi frásögn er að stefna. En áður en ég sný mér að afgreiðsluborðinu til að borga fyrir plötuna sem ég hafði fundið – afmælisgjöfina – ákveð ég að skoða eitthvað aðeins meira í búðinni, og örlögin leiða mig að nokkrum kössum hægra megin við klassísku deildina, sem er staðsett í sirka miðri búðinni. Og ég sé að þessir kassar eru merktir ný aðföng, eitthvað í þá áttina – nokkuð sem virkar alltaf spennandi. Og ég byrja að fletta.

Og finn hvað?

Við mér blasir hið rauðbleika, bláa og húðlitaða albúm Amarcord Nino Rota. Greinilega ekki mjög vel farið, og svolítið undið, eins og það hafi einhvern tíma blotnað. Og það er gamalt – og þess vegna orðið þurrt aftur. Verðmiðinn: 1000 krónur. Ég lyfti upp umslaginu, handleik það í svolitla stund, renni síðan plötunni úr nærbuxunum, og sé að platan er ekki alveg glansandi fín, en samt ekki að sjá að hún sé rispuð. Nú, svo er ekki að orðlengja það: ég kaupi plötuna. Og fer með hana heim, svolítið óþolinmóður að vita hvort einhverjar vondar rispur leynist á henni – sem reynist ekki vera – allt í fínasta lagi. Bara hæfilegt vínilbrak, svona um það bil jafnmikið og í La dolce vita-svítunni sem fylgdi með færslunni sem ég nefndi hér í upphafi. Platan sem ég kaupi handa sjálfum mér er því nákvæmlega eins og maður vill hafa plötu: hokin af reynslu þeirra sem hafa hlustað á hana áður.

Einn heppinn.

Og nú er ég kominn aftur á youtube. Píanóleikarinn Jaki Byard, sem bæði opnar og lokar Amarcord Nino Rota, spilar hér lokalag plötunnar, La Strada:

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s