Trópískar lystisemdir

Hermann Stefánsson rithöfundur skaffar skammt dagsins:

Fyrsta sólóplata trommuleikarans Nick Mason (úr Pink Floyd), Nick Mason’s Fictitious Sports, hefur það fram yfir aðrar sólóplötur að sólólistamaðurinn sjálfur hefur afskaplega lítið með hana að gera. Hann samdi ekki tónlistina á henni, söng ekki, kom lítið nálægt því að útsetja og eiginlega gerði hann ekki neitt. Það færi vel á því að fleiri sólólistamenn áttuðu sig á möguleikunum sem felast í því að gefa út sólóplötu án þess að skipta sér af henni að öðru leyti en því að ljá henni nafn sitt. Nick Mason’s Fictitious Sports er talin fyrsta meiriháttar sólóverk Masons, bræðingur af djassi og þeim afdjassi sem hljómsveitir á borð við Soft Machine spiluðu, en það er einmitt söngvari og trommuleikari þeirrar sveitar, Robert Wyatt, sem syngur flest lögin. Gítarleikarinn er Chris Speeding. Steve Swallow spilar á bassa. Reyndar verður að viðurkenna að Nick Mason stendur ekki alveg við konseptið, sem svo sem var ekkert konsept, og spilar á trommur í öllum lögunum. Afraksturinn er miklu nær djassi en Pink Floyd komst nokkru sinni og einmitt tónlist sem maður gæti ímyndað sér að Nick Mason myndi semja. Sennilega er það nokkurn veginn það sem höfundur tónlistarinnar hafði í huga, að semja tónlist sem Mason hefði getað samið, en höfundurinn er Carla Bley og hljómsveitin samanstendur af hennar venjulegu hljómsveit á þessum tíma — platan var tekin upp 1979 og kom út 1983.

Hér má taka smá útúrdúr um sömu kreðsur með viðkomu á Íslandi en það er gaman að geta þess að fyrsti bassaleikari hinnar djassskotnu Soft Machine, Kevin Ayers, varð eitt sinn (sem oftar) fyrir því að nenna ekki að klára sólóplötu og láta sig hverfa úr stúdíóinu. Nú var úr vöndu að ráða fyrir hljómsveitina sem spilaði undir því Ayers var að sögn ekki búinn að taka upp allan sönginn. Til stóð að gera Ayers að meginstraumspoppstjörnu og nýi umboðsmaðurinn hans var maðurinn að baki ferils Elton John sem einmitt er einn hljóðfæraleikaranna. Víkur nú sögunni óforvarendis að þeim manni sem allar eftirhermur á Íslandi verða að hafa á valdi sínu, Jakobi Frímanni Magnússyni. Svo heppilega vildi til að Jakob var einnig í hljómsveitinni. Og ef sagan er sönn gerði Jakob sér lítið fyrir og hermdi eftir söngrödd Kevin Ayers þar sem upp á vantaði og gerði það svo óaðfinnanlega að hvergi heyrist neinn munur á þeim tveimur, enda með ansi svipaða söngrödd. Þannig skaut Kobbi Magg öllum eftirhermunum að honum sjálfum endanlega ref fyrir rass. Platan heitir Sweet Deceiver (hvað annað?) og kom út árið 1975. Jakob kemur fram undir nafninu Jacob Magnusson og er skráður fyrir söng í einu lagi.

Jakob, ef þú ert að lesa þetta, er þetta ekki örugglega sönn saga?

***

En ég var að tala um Cörlu Bley og djass. Ráðlagður djassskammtur er Tropic Appetites, önnur plata Bley. Hún hefur fækkað verulega hljóðfæraleikurum frá fyrstu plötunni, hinni rómuðu Escalator Over the Hill. Hér eru átta manns, sumir spila á ýmisleg hljóðfæri. Söngur Julie Tippett setur svip sinn á plötuna og ekki síður textar Paul Haynes sem hafði nýverið lokið löngu ferðalagi um Asíu og dvalist lengi á Indlandi. Austrænn bragur sprettur af þessu, eða sprettur ekki endilega sjálfkrafa, Bley leitar eftir þannig andblæ, sem hæfir textunum. Það er svolítill fjölskyldukeimur á plötunni því Karen Mantler, dóttir Cörlu Bley og básúnuleikarans Michael Mantler, syngur í nokkrum lögum. Hún hefur verið sjö ára þegar platan kom út árið 1974. Sólóplata Karenar Mantler, Karen Mantlers Pet Project frá árinu 2000, er vel þess virði að tékka á en einhverra hluta vegna er hún skráð sem sólóplata Cörlu Bley á tónlistarveitum. Karen syngur um gæludýrin sín og spilar djasspíanó, söngurinn er kunnuglegur þótt hún sé orðin fullorðin. Sú plata er góður inngangur inn í heim Cörlu Bley og Tropic Appetites, þótt það reyndar sé allt annar sólólistamaður.

Stundum minna tónsmíðarnar á Tropic Appetites á afdjassinn sem ég nefndi að ofan, Canterbury senuna svokölluðu. Stöku lag gæti verið með Matching Mole, skriðþung og drungaleg lög. Kannski væri auðveldara að byrja að skoða Bley út frá plötunni Big Band Theory, nú eða samstarfsverkefni hennar og Charlie Haden, The Ballad of the Fallen. En Tropic Appetites er samt og verður mín uppáhaldsplata með Cörlu Bley. Hún er léttari og ekki eins virt og Escalator Over the Hill, þriggja platna djassópera, að margra sögn einn af hápunktum djasssögunnar, tímalaust snilldarverk í svipuðum anda og Tropic Appetites en miklu erfiðari. Kannski má bara byrja á kómíska léttinum á plötunni, barnalaginu Funnybird Song:

Eða þá bara á byrjuninni: Rúmlega ellefu mínútna instrúmental verki, „What Will Be Left Between Us and the Moon Tonight?“. Hreinasti djass, held ég. Næst kemur einkennilegur og framandlegur söngur: „In India“, örstuttur og dáleiðandi. Þá kemur lengra verk og nú þyngist róðurinn, risavaxin smábörn, „Enormous Tots“. Hvað er þetta eiginlega? Captain Beefheart? En samt, það er í þessu dillandi kátína. Og hryllingur. Hvað merkti eiginlega þessi setning um að nauðga dótahundi? Og hvenær kemur þessi setning hér: „Once he felt so dead he said, isn’t it wonderful to be alive“?

Ég ætla að láta þetta nægja sem plötukynningu. Það rennur upp fyrir mér við hlustunina að ég kann plötuna utanbókar, textana, sviptingarnar, taktskiptin, ólíka kaflana. Carla Bley hefur aldrei farið aftur á nákvæmlega þessar slóðir. Mér verður hugsað til þess hvort ástæða þess að mér hefur orðið þessi plata svo hugstæð, umfram aðrar plötur Bley, sé að ég var fjórtán ára þegar ég hlustaði á hana eða hvort hún hitti akkúrat á slóðirnar sem höfða til mín með þessari plötu og engri annarri.

Það er ekkert að gera nema að renna sér í plötuna og athuga hvort hún sé ekki ráðlagður djassskammtur fyrir fleiri en mig:

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s