Chuck Israels á Íslandi

Ef ég væri stödd í Reykjavík, en ekki hér handan Atlantsála, þá held ég að ég gæti auðveldlega fullyrt – án þess að eyða í það sérstaklega mörgum orðum og án þess að fara ítarlega í saumana á öllum þeim fyrirvörum sem ég hef tamið mér að telja upp þegar ég geri plön fram í tímann, hvort sem þeir fyrirvarar varða mig sjálfa, manneskjur mér tengdar, umhverfi mitt eða aðstæður á almennum vettvangi – að ég myndi mæta á tónleika Múlans næsta miðvikudagskvöld, 19. október, á Björtuloftum í Hörpu. Þá stígur á svið bassaleikari að nafni Chuck Israels, og með honum Eyþór Gunnarsson á píanó, Ólafur Jónsson á saxófón og Scott McLemore á trommur.

Chuck þessi hefur spilað með fjölmörgum jazzkanónum, eins og Billie Holiday, Herbie Hancock, John Coltrane og Coleman Hawkins. Hann er þó einna þekktastur fyrir að hafa verið bassaleikari í tríói Bill Evans á árunum 1961 til 1965, þar sem hann fékk það vandasama hlutverk að fylla skarð Scott LaFaro eftir að hann lést.

Ég hvet lesendur eindregið til að taka þessa tónleika í Björtuloftum á miðvikudagskvöld fram yfir hvers kyns önnur viðfangsefni, hversu aðkallandi sem þau kunna að virðast í takmörkuðu skyggni hversdagsins. Ef svo ólíklega vill til að frekari hvatningar sé þörf læt ég fylgja tvær upptökur þar sem Chuck Israels leikur með Bill Evans. Fyrst er hér eitt af mínum eftirlætislögum eftir Bill Evans, Very Early, af plötunni Moon Beams frá 1962, þar sem Paul Motian leikur á trommur. Bill Evans var um tvítugt þegar hann samdi lagið, sem ég held að skýri nafngiftina.

Svo kemur hér myndbandsupptaka af hinu dýrðlega lagi Nardis eftir Miles Davis, frá árinu 1965. Nú leikur Larry Bunker á trommur. Hinn fágaði og lagræni stíll Chuck Israels nýtur sín afar vel á þessari upptöku.

One thought on “Chuck Israels á Íslandi

  1. Pingback: Meiri morgunjazz – Ráðlagður jazzskammtur

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s