Skandinavískur jazz

Þar kom að því að þetta blogg rataði til Svíþjóðar. En það verður bara stutt stopp; hinn svokallaði skandinavíski jazz hefur aldrei náð neinu tangarhaldi á mér. Með einni undantekningu. Það virkar eitthvað svo fyrirsjáanlegt að upplýsa að undantekningin sé Jan Johansson að mér finnst ég að minnsta kosti þurfa að bæta það upp með því að spila ekki lag af Jazz på svenska. Svo að gjörið svo vel, hér er lagið Kvällar i Moskvas förstäder af plötunni Jazz på ryska.

Hér fylgir svo önnur útgáfa af þessu kynngimagnaða lagi, Maíkvöld í Moskvuborg, í þetta sinn með Kenny Ball and his Jazzmen. Bara ef einhver skyldi vera í þann veginn að fara að blanda sér drykk.

Unsquare Dance

Þetta litla hnyttna lag Dave Brubeck, Unsquare Dance, kom fyrir í frábærlega viðeigandi senu í fyrstu þáttaröð Better Call Saul, sem ég sá um daginn. Best ég misnoti aðstöðu mína hér á jazzblogginu til að mæla með þessari þáttaröð. Og komi um leið á framfæri þeim skilaboðum, sem gætu nánast verið mælt úr munni sjálfs Saul Goodman, að ef maður misnotar ekki aðstöðu sína, þá er maður að misnota aðstöðu sína.

Ella

Skammtur dagsins er lagið I Cried For You með Ellu Fitzgerald. Lagið var tekið upp árið 1960 fyrir bíómyndina Let No Man Write My Epitaph, en tónlistin úr henni var gefin út á disknum The Intimate Ella þrjátíu árum síðar. Lana Kolbrún Eddudóttir spilaði fyrir nokkrum árum lög af The Intimate Ella í Fimm fjórðu, og eitthvað rámar mig í að hún hafi talað um að Ella fundið sig best þessum söngstíl – sem eins og heyra má er mun lágstemmdari en stíllinn sem hún er þekktust fyrir. Kannski sagði Lana Kolbrún þetta ekkert; kannski bjó ég þetta bara til af því að mér finnst þetta svo líklegt. Hvað um það, fyrir fólk sem er ekki miklir aðdáendur skattsins er skemmtilegt að kynnast þessari hlið á Ellu Fitzgerald. Þetta er eiginlega… allt önnur Ella.

Rudy Van Gelder

Rudy Van Gelder er einn mikilvægasti maður bandarískrar jazzsögu. Eða var; hann lést í dag, 91 árs að aldri. Van Gelder var þó ekki hljóðfæraleikari, hann var hljóðtæknir. Hann stofnaði hið fræga Van Gelder Studio í Englewood Cliffs í New Jersey árið 1959, þar sem voru teknar upp ýmsar ágætar plötur eins og Song for My Father með Horace Silver árið 1963, A Love Supreme með John Coltrane árið 1964 og Maiden Voyage með Herbie Hancock árið 1965. Og svo alveg rosalega, rosalega margar aðrar plötur. Án þess að ég hafi athugað það með vísindalegum aðferðum þá ætla ég að fullyrða hér að það nafn sem einna oftast er nefnt í jazzútvarpsþáttum heimsins sé nafnið Rudy Van Gelder. Að minnsta kosti heyri ég alltaf fyrir mér rödd Lönu Kolbrúnar Eddudóttur þegar ég rekst á þetta nafn … platan var hljóðrituð í stúdíói Rudy Van Gelder …

Og hér er einn af hinum glóandi gimsteinum úr þessari smiðju: Concierto de Aranjuez af sextettplötu Jim Hall, Concierto, sem var tekin upp árið 1975. Þessa plötu fékk ég lánaða (í formi geisladisks) hjá föður mínum einhvern tíma á háskólaárunum og setti í tækið í litlum gleðskap á heimili mínu sama kvöld. Ég man hvernig ég gat bókstaflega ekki beðið eftir að gestirnir færu heim svo að ég gæti hlustað á þetta í friði.

Idle Moments

Í tilefni helgarinnar kemur hér hið langa titillag plötunnar Idle Moments með Grant Green sem var tekin upp árið 1963 (við flytjumst fram um ár í hverri færslu). Með Grant Green leika Joe Henderson á tenórsaxófón, Duke Pearson á píanó, Bobby Hutcherson, sem lést nú í vikunni, á víbrafón, Bob Cranshaw á bassa og Al Harewood á trommur. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta hægt lag, og reyndar hægist eilítið á því þessar fjórtán mínútur sem það varir. Kannski skýrist það af því að það varð einhver misskilningur í samspilinu sem varð til þess að Grant Green tók tvöfalt lengra sóló en hann ætlaði. Í kjölfarið tóku hinir, eðlilega, tvöfalt lengra sóló en þeir ætluðu. En útkoman var svo góð að sexmenningarnir enduðu á að taka upp styttar útgáfur af hinum lögunum til að koma þessu fyrir á plötunni.

Caravan

Hér er öllu átakasæknara tríó en það í síðustu færslu. Duke Ellington, Charles Mingus og Max Roach gerðu plötuna Money Jungle árið 1962, ári eftir að tríó Bill Evans tók upp plöturnar tvær á Village Vanguard. Það er svo rafmögnuð spenna á Money Jungle að sagan um að Charles Mingus hafi pakkað niður bassanum og strunsað út í miðjum tökum getur ekki verið annað en sönn.

– Hrafnhildur

Tríó Bill Evans

Hér er afmælisbarn gærdagsins á ný, en nú með tríói. Tríói tríóanna reyndar. Með hinum 25 ára Scott LaFaro, “Wunderkind”, á bassa og Paul Motian á trommur. Waltz for Debby er að finna á samnefndri plötu, sem var tekin upp á lítið upptökutæki í Village Vanguard klúbbnum í New York, 25. júní 1961. Sama kvöld hljóðritaði tríóið plötuna Sunday at the Village Vanguard. Þetta var vel nýtt kvöldstund, nánast eins og þeir hafi vitað að tækifærin yrðu ekki fleiri. Tíu dögum seinna lést Scott LaFaro í umferðarslysi á hraðbraut í New York fylki, á leiðinni heim eftir Newport jazzhátíðina.

– Hrafnhildur